Ógnvekjandi hamfaraskjálfti sem olli mörg þúsund kílómetra langri flóðbylgju og hrakti mannfólk af svæðinu í þúsund ár.
Þetta kynni að hafa gerst þar sem nú er norðurhluti Chile fyrir 3.800 árum.
Það er niðurstaða nýlegrar rannsóknar sem birt er í hinu viðurkennda vísindatímariti Science, þar sem fornleifafræðingar, m.a. hjá Universidad de Chile fundu sannanir þess, sem þeir telja hafa verið öflugasta jarðskjálfta í sögu mannkyns.
Valdivia-jarðskjálftinn í suðuhluta Chile hefur borið titilinn öflugasti skjálfti mannkynssögunnar. Hann varð 22. maí 1960 og kostaði um 1.700 mannslíf. Rannsóknir hafa ákvarðað þennan skjálfta á bilinu 9,4-9,6 á svonefndum „momentmagnitude“-kvarða, sem sýnir nokkru hærri tölur en Richter-kvarðinn þegar skjálftar eru mjög orkumiklir. Misgengið í jarðskorpunni var hins vegar „aðeins“ 800 km að lengd og þar með 200 km styttra en það sem vísindamenn telja hafa valdið hinum nýuppgötvaða skjálfta.
Hnullungar á stærð við bíla bárust upp á land
Þessi jarðskjálfti var, samkvæmt niðurstöðunum, svokallaður ofurskjálfti eða meðal öflugustu skjálfta sem geta orðið. Þessi gríðarlega öflugu skjálftar verða þegar einn jarðskorpufleki þrýstist niður undir annan, en það leysir ógnvænlega krafta úr læðingi.
Einmitt þetta segja vísindamennirnir hafa gerst fyrir um 3.800 árum þegar svonefndur Nazcafleki undir Kyrrahafinu rakst á meginlandsfleka Suður-Ameríku. Skjálftinn sem þetta olli hefði mælst 9,5 á momentmagnitude-kvarða og skapaði þúsund kílómetra brot, eða misgegni, í jarðskorpunni.
Í skjálftanum færðist hafsbotninn og leysti úr læðingi risaflóðbylgju, sem reis í 20 metra hæð og skall inn yfir Atama-eyðimörkina. Hún þeytti líka steinhnullungum á stærð við bíla nokkur hundruð kílómetra inn frá ströndinni – á Nýja-Sjálandi vel að merkja.
Uppgröftur stórra skelja og steina hjálpaði vísindamönnum að raða saman mynd af því sem þeir telja nú hafa verið stærsta jarðskjálfta í sögu mannkyns.
Hélt mannfólki í burtu í þúsund ár
Myndinni af þessu náttúruhamförum röðuðu vísindamennirnir saman með rannsóknum á smásteinum og sjávardýrum sem hafa borist langt inn á þurra sandauðn Atama-eyðimerkurinnar – svo langt inn á land að fellibylur gæti ekki með nokkru móti verið sökudólgurinn.
Þeir notuðu síðan C14-aðferðina til að aldursgreina alls 17 hluti sem höfðu dreifst yfir alls 600 km langa leið við norðuhlutann af strandlengju Chile. Greiningin leiddi í ljós að allt hafði þetta borist á land fyrir hátt í 4.000 árum.
Uppgröftur sýnir að á þessum tíma bjuggu veiðimenn og safnarar meðfram strandlengjunni við Atama-eyðimörkina. Vísindamennirnir fundu líka ummerki þess hvernig hin tröllvaxna flóðbylgja hafði jafnað hlaðin steinhús við jörðu og ekkert skilið eftir fyrir það fólk sem lifði af.
Uppgröfturinn sýndi líka að það hafa liðið þúsund ár þar til fólk sneri aftur á þetta svæði – þrátt fyrir nauðsyn þess að afla matar úr hafinu.
Sumir húsveggir höfðu oltið í átt að hafinu, líklegast vegna þess hve mikill kraftur var eftir í flóðbylgjunni á leiðinni til baka.
Hættan leynist í djúpinu
Fram að þessu hafa vísindamenn ekki talið að svona öflugir jarðskjálftar gætu orðið í norðuhluta Chile.
En eftir þessa uppgötvun hafa þeir fengið mikilsverða innsýn í þá hættu á jarðskjálftum og flóðbylgjum sem leynist við Kyrrahafsströndina – og hversu illa getur farið ef svo öflugur skjálfti verður aftur á þessu svæði.