Besti vinur þinn borðar allt sem honum dettur í hug en fitnar, að því er virðist, ekkert.
En þú færð nánast aukakepp á magan við það eitt að horfa á kökusneið.
Sumt fólk gæti haft erfðafræðilega tilhneigingu til að geyma meiri fitu eða hafa hægari efnaskipti, sem að sama skapi auðveldar þeim að þyngjast.
Og nú kemur sænsk rannsókn með vísbendingu sem gæti hugsanlega skýrt þennan ósanngjarna ójöfnuð.
Þetta snýst um stærð fitufrumna sem stjórna því hvernig og hvar fita er geymd.
Stórar fitufrumur taka meira pláss
Á 15 ára tímabili mældu vísindamenn frá Karólínsku stofnuninni líkamsþyngd, BMI og fitumældu 260 þátttakendur.
Og niðurstöðurnar sýndu greinilega að fólk með stórar fitufrumur hefur tilhneigingu til að léttast með tímanum en þeir sem eru með litlar fitufrumur þyngjast.
Þetta var raunin óháð því hvort viðkomandi væri of þungur eða ekki, að sögn vísindamannanna.
„Niðurstöður okkar benda til þess að það hafi meiri áhrif á þyngd þegar stórar fitufrumur hverfa en þegar litlar fitufrumur hverfa,” segir aðalhöfundur Peter Arner, prófessor í læknisfræði við Karólínsku stofnunina, í fréttatilkynningu.
Arner líkir fitu í líkamanum við herbergi fyllt með stórum blöðrum – fitunni – eða mörgum litlum.
Vinstra megin á myndinni sérðu brúnar fitufrumur og hægra megin hvítar fitufrumur.
Tvær tegundir fitu
Flestir telja að öll líkamsfita sé eins. En í raun eru flestir fullorðnir með tvær tegundir af líkamsfitu: Brúna og hvíta fitu.
Hvíta fitan situr á öllum þeim stöðum sem jafnan eru tengdir fitu, m.a. á maga, í kringum mjaðmir og á lærum. Hvít fita geymir orku til mögru áranna, framleiðir hormón og tekur við boðefnum eins og adrenalíni og insúlíni.
Brún fita er allt öðruvísi. Hún er staðsett nálægt taugakerfinu, meðfram hryggnum, á hálssvæðinu og í kringum nýrun. Hún gegnir öðru hlutverki í líkamanum þar sem hún brennir orku til að framleiða hita. Börn hafa meiri brúnfitu en fullorðnir og hún er þeim mikilvæg til að halda á sér hita.
Það er auðveldara að losa pláss í herberginu – líkamanum – með því að taka loftið úr stóru blöðrunum í stað þeirra litlu.
Stærð fitufrumna fer eftir því hversu mikið magn af hormóninu leptín skilst út úr fitufrumum og fer í blóðrásina.
Þegar þú borðar of mikið verður orkuafgangur sem eykur stærð fitufrumna.
Mikilvæg uppgötvun í baráttuna gegn offitu
Niðurstöðurnar þýða að það er ekki aðeins fjöldi fitufrumna sem skapar magafitu, heldur einnig stærð frumanna.
Og að sögn sænsku vísindamannanna getur rannsóknin gert það að verkum að mun auðveldara verði að spá fyrir um hvort einstaklingur sé í mikilli hættu á að þróa með sér offitu.
”Það gæti skipt sköpum að hafa upplýsingar um stærð fitufrumna áður en t.a.m. meðferð við offitu er hafin. Ef þeir sem hafa stórar fitufrumur eiga auðveldara með að léttast gætu þeir sem eru með smærri frumur fengið meiri meiri aðstoð,“ segir Arner.
Mörg okkar þyngjast með aldrinum og sænskir vísindamenn telja að fyrir því sé sérstök ástæða.
Það þarf þó ekkert endilega að vera af hinu illa að hafa litlar fitufrumur.
Fólk með litlar fitufrumur hefur betri efnaskipti en fólk með stórar fitufrumur.
Þetta þýðir að ef einstaklingur með litlar fitufrumur þyngist eykur það ekki líkurnar eins mikið á sjúkdómum eins og sykursýki 2 og of háum blóðþrýstingi og ef viðkomandi væri með stórar fitufrumur.