Aldur og öldrun er ekki það sama.
Við eldumst öll með hverri sekúndu sem líður – þ.e. lífaldur okkar.
Hins vegar er verulegur munur á því hversu hratt líkami okkar ber merki öldrunar – þ.e. hraði líffræðilegrar öldrunar.
Hin líffræðilega klukka virðist ganga hraðar sumun, sem veldur því að hrukkur og slöpp húð koma fyrr fram, ásamt gráu hári.
Sum öldrunareinkenni eru erfðafræðilega ákvörðuð, á meðan önnur ráðast af ytri þáttum, en eitt eiga þau þó sameiginlegt – flestir vilja hægja á þessum ferlum eins mikið og hægt er.
Nýjar rannsóknir frá þýskum vísindamönnum við Háskólann í Münster benda nú til þess að eitt áhrifaríkasta vopnið gegn hrukkum og gráu hári sé að finna í líkamanum sjálfum.
Hormón með lykilhlutverk
Í rannsókn sem birtist í tímaritinu Endocrine Reviews greina vísindamenn frá hormónum sem virðast hafa getu til að hægja á öldrunarferlum líkamans.
Þessi hormón taka nú þegar þátt í öldrun húðarinnar og niðurbroti bandvefs, sem veldur hrukkumyndun, auk þess sem þau tengjast litarefnatapi sem leiðir til gráa hársins.
„Sum hormónin sem við höfum rannsakað hafa öldrunarhamlandi eiginleika og gætu í framtíðinni nýst til að fyrirbyggja öldrun húðarinnar,“ útskýrir Markus Böhm frá Háskólanum í Münster í fréttatilkynningu.
„Húðin sjálf er ekki aðeins skotmark margra hormóna sem stjórna öldrun hennar – hún er einnig stærsta og öflugasta hormónframleiðslustöð líkamans, utan þess sem innkirtlakerfið framleiðir,“ bætir hann við.
Húðin, sem þekur um tvo fermetra, ásamt hársekkjum hennar, myndar fullkomlega virkt „ör-líffæri“ sem framleiðir hormón sem taka þátt í vefjamyndun og viðgerðum.
Gæti leitt til nýrra meðferða
Til að öðlast betri skilning á tengslum hormóna og öldrunar húðarinnar rannsökuðu vísindamenn hormón með mismunandi lykilhlutverk í líkamanum, þar á meðal IGF-1, vaxtarhormón, estrógen og melatónín.
Melatónín reyndist sérstaklega áhugavert sem vopn gegn öldrun húðarinnar, þar sem það hefur andoxunareiginleika og stýrir orkunýtingu frumna í svokölluðum hvatberum, sem eru orkuver frumna.
Sérstakt prótín virðist gegna mikilsverðu hlutverki varðandi öldrun. Vísindamönnum hefur tekist að lengja ævi músa með því að loka fyrir þetta prótín.
Vísindamenn rannsökuðu einnig efni sem tengjast efnaskiptum, bólgum og frumuskiptingu.
Þeir uppgötvuðu að sum þessara efna virtust hafa mjög jákvæð áhrif á húðbreytingar sem verða vegna útfjólublárrar geislunar frá sólinni, svokallaðrar ljósöldrunar.
„Rannsóknir á þessum efnum gætu opnað dyr að nýjum meðferðum sem hægt væri að nota til að koma í veg fyrir og meðhöndla öldrunareinkenni húðarinnar,“ útskýrir Markus Böhm.
Bandarískir og kínverskir vísindamenn hafa reiknað út að tvær tegundir tilfinninga virðast auka öldrun hraðar en reykingar.
Flest viljum við lifa eins lengi og frekast er unnt og halda góðri heilsu. Nú hefur teymi vísindamanna komist að raun um hvaða fæðutegundir við hugsanlega ættum að forðast.