Tækni / Orka
Lestími: 3 mínútur
Samrunaorkan minnir hálfpartinn á flugbílana – alltaf svo sem tíu ár í að hún verði að veruleika.
En hjá fyrirtækinu TAE Technologies fullyrða menn nú að fyrirtækið geti framleitt samrunaorku á markað áður en þessi áratugur verði á enda.
Samrunaofn fyrirtækisins er nokkuð óvenjulegur og er nú fær um að halda plasma stöðugum við meira en 50 milljón gráðu hita.
Næstum ótæmandi orkulind
Í samrunaofni er líkt eftir ferlum sem eiga sér stað í sólinni þar sem frumefni renna saman og losa um leið ofboðslega orku.
Vísindamenn og verkfræðingar hafa unnið að framleiðslu samrunaorku allt síðan í byrjun 20. aldar. Það er í sjálfu sér skiljanlegt, því takist þetta má segja að aðrar orkulindir verði óþarfar á einu bretti.
Margir tilraunaofnar hafa verið byggðir – þeirra á meðal ITER-ofninn í Frakklandi á vegum samnefnds alþjóðaverkefnis. Enn sem komið er hefur hins vegar engum tekist að ná meiri orku út úr þessari tækni en þurft hefur til að knýja ofninn.
TAE Technologies hefur byggt hólklaga tilraunaofn, öfugt við t.d. ITER-ofninn sem er að lögun eins og kleinuhringur.
Orka sólar innan í hólki
Við samruna bráðna frumeindir saman eins og gerist í djúpum sólarinnar. Við samrunann myndast óhemjuleg orka.
- Öreindabyssa hitar eldsneytið
TAE-ofninn hitar vetni og bór í plasma upp í 50 milljón gráður með geislun frá öreindahraðli.
- Segulsvið fangar plasmann
Segulsvið halda plasmanum kyrrum í löngum hólki. Flestir aðrir samrunaofnar eru að lögun eins og kleinuhringir – t.d. hinn evrópski ITER.
- Samruni frumeinda skapar orku
Í þessum ofboðslega hita renna frumeindir í plasmanum saman og mynda þyngri frumefni. Við það losnar ofboðsleg orka – en án mikillar nifteindageislunar.
Tæknin er fullþroskuð
Hjá TAE Technologies hafa menn valið aðra leið að markinu.
Samrunaofninn er tiltölulega lítill hólkur, öfugt við langflesta samrunaofna sem eru í laginu eins og kleinuhringir. Það gildir t.d. um ITER og Wendelstein 7-X.
Frumefnin vetni og bór eru notuð sem eldsneyti til að takmarka nifteindageislun í ofninum. Þannig verður minna af geislavirkum úrgangi og þetta kemur líka í veg fyrir að ofninn tærist.
Allt á þetta sinn hlut í því að verkfræðingarnir hafa nú trú á því að þeir geti skilað orku, framleiddri í samrunaofni, á markað eftir aðeins níu ár. Takist það verða það sannarlega stór tímamót í sögu orkuframleiðslunnar.
30.05.2021
SØREN BJØRN-HANSEN