Klukkan er 13:00, hádegismaturinn hefur aukið serótónínmagnið hjá þér og augnlokin aðeins farin að síga.
Ef þú leggur þig stutta stund nærðu góðri hvíld, hleður batteríin og ert tilbúin til að takast á við lífið á ný þegar þú vaknar.
Nú bendir rannsókn til þess að reglulegir hádegislúrar geti einnig verið góðir fyrir heilann til lengri tíma litið.
Samkvæmt vísindamönnum frá University College í London og University of the Republic getur blundur dregið úr rýrnun heilans. Frá 35 ára aldri minnkar heilinn um 0,2 prósent í 0,5 prósent á ári og það gerist enn hraðar eftir sextugt.
„Niðurstöður okkar benda til þess að léttur svefn yfir daginn, allt að 30 mínútur á dag, geti hjálpað til við að halda heilanum heilbrigðum þegar við eldumst,“ sagði Victoria Garfield, meðhöfundur og erfðafræðilegur faraldsfræðingur við University College í London.
Hádegisblundur getur gert heilann allt að 6,5 árum yngri
Niðurstöðurnar byggjast á viðamikilli könnun meðal 35.000 manns á aldrinum 40 til 69 ára.
Til viðbótar við gögn um hversu oft fólk lagði sig, greindu vísindamennirnir einnig DNA-sýni og heilaskannanir til að mæla erfðafræðilega tilhneigingu fólks til að fá sér síðdegisblund.
„Með því að skoða gen sem myndast við fæðingu forðast rannsókn okkar truflandi þætti sem eiga sér stað allt lífið sem geta haft áhrif á samband svefns og heilsufars,“ segir Victoria Garfield.
Niðurstöðurnar sýndu greinilega að fólk sem hafði tilhneigingu til að fá sér blund yfir daginn höfðu meira heilarúmmál en þeir sem slepptu blundinum.
Þeir sem lögðu sig reglulega yfir daginn voru að meðaltali 2,6 til 6,5 árum yngri í samanburði við þá sem slepptu svefninum.
Samkvæmt vísindamönnum sem unnu rannsóknina gæti þetta einkum stafað af því að hádegislúr gefur okkur tækifæri til að vinna upp mikilvægan svefn – en svefnvandamál geta verið algeng meðal eldra fólks.
Vísindamenn hafa rannsakað svefnvenjur meira en 500.000 manns og fundið hinn fullkomna svefntíma fyrir þá sem eru komnir á fertugsaldurinn eða eldri.
Það er velþekkt meðal fræðimanna að svefn er gríðarlega mikilvægur til að vernda heilann gegn hraðari öldrun.
En þessi rannsókn er sú fyrsta sinnar tegundar til að reyna að skilja tengsl dagslúrs og vitrænna breytinga í heilanum.
Vísindamennirnir vonast til að niðurstöður þeirra um heilsufarslegan ávinning þess að leggja sig stutta stund yfir daginn geti dregið úr fordómum sem þeir segja að sé enn til staðar hvað varðar hádegislúra í samfélagi þar sem árangur skiptir mestu.