Snuð getur veitt langþráðan frið – bæði fyrir barnið og foreldrana – þegar gráturinn vill ekki hætta og ekkert virðist duga til að róa barnið.
Notkun snuðs getur einnig haft aðra kosti í för með sér. Það dregur til dæmis úr hættu á vöggudauða og þess vegna er mælt með notkun snuða af heilbrigðisstofnunum um allan heim.
Það kemur þó í ljós að ef snuð er notað í langan tíma getur það hamlað þroska barna á einstaklega mikilvægum þætti sem gæti hugsanlega valdið vandræðum síðar meir.
Eiga erfiðara með að skilja og nota orð
Þau börn sem eiga í erfiðleikum með að sleppa snuðinu eiga erfiðara með að ná tökum á tungumálinu heldur en þau börn sem nota snuðið minna.
Áður var vitað að óhófleg snuðnotkun hjá börnum gæti leitt til vandamála eins og t.d. aukinnar hættu á eyrnabólgu og bitskekkju en snuðnotkun hafði ekki verið mikið rannsökuð hvað skerta málkunnáttu varðar.
Vísindamenn frá Oslóarháskóla hafa því skoðað nánar rannsókn þar sem þeir báru saman fjölda klukkustunda sem börn eyddu með snuð í munninum við málskilning þeirra og orðanotkun.
Markmiðið var að komast að því hvort langvarandi notkun snuða gæti hamlað tal- og málþroska barna með því að draga úr hreyfingu munns og tungu. Margt bendir til þess að svo sé.
„Rannsókn okkar sýnir að langvarandi notkun snuða tengist lakari orðaforða hjá börnum fyrstu æviárin, bæði hvað varðar málskilning og tal,“ skrifa vísindamennirnir í niðurstöðu rannsóknarinnar sem birt var í tímaritinu Developmental Science.
Skoðaði snuðnotkun og orðaforða
Rannsóknin, sem er undir forystu doktorsnemans Luis Eduardo Muños frá Oslóarháskóla, nær til alls 1.187 barna og foreldra þeirra. Þar voru 452 börn 12 mánaða og 735 börn 24 mánaða.
Til að leggja mat á orðaforða barnanna voru foreldrar þeirra beðnir um að svara spurningalistum á netinu í norskum útgáfunni af CDI (Communicative Development Inventories), sem er tæki til að leggja mat á orðaforða barna.
Tólf mánaða börnin voru metin bæði með tilliti til málskilnings og talfærni en 24 mánaða börnin voru einungis metin með tilliti til talfærni.
Foreldrarnir þurftu einnig að veita ítarlegar upplýsingar um snuðnotkun barna sinna þ.e.a.s. að áætla daglega snuðanotkun aftur í tímann – í klukkustundum talið – með tveggja mánaða millibili frá fæðingu og fram til dagsins í dag. Þannig gátu vísindamenn reiknað út heildarfjölda klukkustunda sem börnin höfðu notað snuð.
Rannsóknarteymið fann marktæka neikvæða fylgni milli langtímanotkunar snuðs og orðaforða hjá bæði eins og tveggja ára börnum.
Varpa ljósi á mikilvægt atriði
Vísindamennirnir tóku einnig eftir því að þau börn sem notuðu snuð meira eftir því sem þau urðu eldri höfðu lakari orðaforða en þau börn sem annað hvort notuðu snuðið í sama fjölda klukkustunda og áður eða notuðu snuðið minna.
Aukin snuðnotkun hafði neikvæðustu áhrifin á tungumálakunnáttu á tímabilinu þegar barnið var 18-24 mánaða.
Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að foreldrar ættu að spara reiðilegu orðin. Ekki er aðeins hætt við að börnin eigi eftir að þjást af geðrænum kvillum fyrir vikið, heldur minnka heilar þeirra að sama skapi. Hér má lesa vísindalegar leiðbeiningar um vænlegasta uppeldið.
Vísindamennirnir leggja áherslu á að rannsókn þeirra sýni ekki fram á bein orsakatengsl milli notkunar snuða og þróun orðaforða barna. Þeir fundu ákveðin tengsl en vita ekki hver ástæðan er.
Rannsóknir þeirra fundu sem sagt tengsl á milli mikillar og langvarandi snuðnotkunar og minni orðaforða hjá börnum á aldrinum 1-2 ára. Það gæti þó verið að aðrir þættir hafi áhrif eins og t.d. uppeldisaðferðir foreldra eða skapgerð barnsins.
Þeir benda þó á að rannsóknin varpi ljósi á áður óþekkta afleiðingu snuðnotkunar og gæti því hjálpað foreldrum við að ákveða hvenær barnið ætti að hætta með snuð.