Í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum eru víkingar iðulega sýndir sem stæltir og myndarlegir karlmenn og eru líkamar þeirra gjarnan þaktir húðflúri.
Hins vegar er ekki vitað fyrir víst hvort Norðurlandabúarnir hafi í raun verið húðflúraðir.
Vísindamenn hafa í það minnsta ekki fundið neinar sannanir þess að víkingar hafi prýtt líkama sína með húðflúri. Húðin eyðist fljótlega eftir greftrun og ekki hefur tekist að nota þær beinagrindur sem fundist hafa frá víkingaöld til að sanna að víkingarnir hafi verið húðflúraðir.
Ýmsar aðrar vísbendingar gefa þó til kynna að víkingarnir hafi mæta vel getað skreytt sig með mynstrum og litum.
Skreyttu sig
Ein mikilvægasta vísbendingin er rituð frásögn arabísks ferðalangs og erindreka að nafni Ahmad ibn Fadlan sem kvaðst hafa rekist á hóp sænskra víkinga nærri árinu 921, þar sem nú er Rússland.
Ef marka má ibn Fadlan voru víkingarnir „risavaxnir líkt og döðlupálmar, svo og rauðbirknir“ og voru líkamar þeirra skreyttir „frá fingurgómum upp að hálsi“ með „trjám, fígúrum og viðlíka.“
Líklegt þykir að ibn Fadlan sé að lýsa húðflúri en sumir sagnfræðingar eru þó þeirrar skoðunar að víkingarnir hafi einfaldlega málað ýmiss konar myndefni, svo og hefðbundin víkingatákn, á líkamann.

Hefðu víkingarnir verið húðflúraðir hefði myndefnið sennilega verið í líkingu við hefðbundin víkingatákn sem m.a. hafa fundist á rúnasteinum og skartgripum.
Nálar fundust í Danmörku
Önnur vísbending felst í húðflúrnálum frá bronsöld sem fundist hafa í Danmörku. Tímabil þetta náði frá um 1.700 f.Kr. allt til 500 f.Kr. og sýna fornminjar þessar að Norðurlandabúar hafi í það minnsta stundað húðflúr á öldunum fyrir víkingatímabilið.
Fyrir bragðið hafi húðflúrlistin ugglaust einnig verið þekkt á víkingaöld en hversu algengt húðflúr hefur verið, vita vísindamenn ekki fyrir víst, né heldur hafa þeir nokkra vitneskju um hvernig það hefur litið út.