LESTÍMI: 2 MÍNÚTUR
Þó svo að flensubólusetning bjargi mörgum mannslífum ár hvert þá er þessi tiltekna tegund bóluefnis sérlega ófullkomin.
Árlega reyna vísindamenn að spá fyrir um hvaða flensustofnar verði allsráðandi og hvaða bóluefni þurfi fyrir vikið að þróa.
Um er að ræða sérlega kostnaðarsamt og tímafrekt ferli og sú ógn vofir ætíð yfir að flensan geti stökkbreyst á miðju tímabili eða þá að ný flensutegund geri skyndilega vart við sig. Í slíkum tilvikum verður bóluefnið með öllu ónothæft.
Hugmyndir um að þróa alhliða bóluefni gegn flensu hafa verið á teikniborðinu svo áratugum skiptir og nú eru loks jákvæð teikn á lofti.
Fyrsta alhliða bóluefnið er tilbúið undir 3. stigs tilraunir, en um er að ræða síðasta stigið áður en bóluefni fæst samþykkt til nota á mönnum.
Klínískar tilraunir vekja athygli
Vísindamönnum hefur tekist að nota tölvureiknirit til að bera kennsl á fjögur svæði í flensuveirunni sem ekki eru breytilegar frá einni veirugerð til annarrar og sem hafa heldur ekki tilhneigingu til að stökkbreytast.
Þeim hefur í kjölfarið tekist að þróa bóluefni, FLU-v, sem virkjar og beinir eitilfrumum ónæmiskerfisins að próteinum á nákvæmlega þessum svæðum.
Gerðar hafa verið nokkrar klínískar tilraunir á mönnum og sú síðasta vakti verðskuldaða athygli, því ónæmissvar alls 175 þátttakenda jókst marktækt miðað við samanburðarhópinn. Þetta aukna ónæmissvar greindist jafnvel hálfu ári eftir bólusetninguna.
Eftir þessar jákvæðu niðurstöður eru nú fyrirhugaðar fleiri tilraunir sem munu endanlega leiða í ljós hversu vel bóluefnið hrífur gegn þeim flensuveirum sem árlega smita milljónir manna um gjörvallan heim af flensu.
Birt: 13.11.2021
Charlotte Kjaer