Lifandi Saga

3.200 km langur ritsímastrengur lagður yfir Atlantshafið

Árið 1855 ákvað Cyrus Fields at tengja Bandaríkin og Evrópu saman með 3.200 km löngum ritsímastreng. Bandaríkjamaðurinn hafði alls enga þekkingu á ritsíma og sæstrengjum, en þökk sé áköfum áhuga og elju hans tókst honum að framkvæma hið ómögulega.

BIRT: 30/10/2023

Cyrus Field var ekki þekktur fyrir að fella tár. Þessi göfugi og áhugasami Bandaríkjamaður var þekktur fyrir jákvætt hugarfar og smitandi áhuga en sunnudaginn 2. september árið 1866 réð hann ekki við tilfinningarnar.

 

 

Hann læsti sig inn í káetu sinni úti á miðju Atlantshafinu og grét af gleði. Í ellefu ár hafði Cyrus barist fyrir draumi sínum um að tengja Evrópu og Bandaríkin með ritsímastreng.

 

Draumur hans hafði gert það að verkum að hann var bæði álitinn vera hugmyndaríkur snillingur og ómerkilegur svindlari, auk þess sem draumurinn hafði kostað hann ómælt magn af blóði, svita og peningum, og þennan tiltekna dag, einnig af tárum. Þann dag rættist draumur hans nefnilega.

 

Vond hugmynd

Þegar Cyrus Field heyrði barið að dyrum hjá sér í New York ellefu árum áður grunaði hann engan veginn að hann að örfáum mínútum liðnum stæði frammi fyrir mestu áskorun lífs síns.

 

Gesturinn reyndist vera Frederick Gisborne, síðskeggjaður verkfræðingur frá Kanada. Frederick Gisborne var á höttunum á eftir fjármagni fyrir vafasamt verkefni, sem fólst í því að leggja ritsímastreng milli Nýfundnalands og Bandaríkjanna.

Cyrus Field vissi ekkert um símskeyti og kapla, en með gífurlegri elju sinni og eldmóði tókst honum hið ómögulega.

Á þessum tíma bárust fréttir frá Evrópu til Bandaríkjanna á jafnlöngum tíma og það tók skip að sigla yfir Atlantshafið, þ.e. á nokkrum vikum eða mánuðum, allt eftir veðri og vindum.

 

Hugmynd Fredericks Gisbornes var að skera þennan tíma niður um nokkra daga með því að láta skipin koma að landi á austasta stað heimsálfunnar, þ.e. við Nýfundnaland. Þaðan yrði svo unnt að senda fréttirnar áfram um ritsímastreng á landi.

 

Cyrus Field hlustaði af athygli á gest sinn. Sjálfur hafði hann flust frá Connecticut til New York aðeins 15 ára gamall og honum hafði græðst svo mikið fé á fjárfestingum sínum að hann gat leyft sér að fást við ný verkefni af einskærum áhuga.

 

Honum leist vel á hugmynd Gisbornes en fannst hugmyndin þó líða fyrir að vera of smá í sniðum og skorta hugmyndaauðgi.

Um miðja 19. öld voru þúsundir kílómetra af ritsímastreng strengdur um allan heim. Innan nokkurra mínútna var nú hægt að senda stutt skilaboð með því að ýta á svarta hnapp Morse-lykilsins.

Þegar Gisborne hafði kvatt gekk Cyrus Field inn á bókasafnið sitt og þar gerði hann sér grein fyrir hvað væri athugavert við hugmynd Gisbornes, eða líkt og bróðir Cyrusar ritaði nokkrum árum síðar:

 

„Hann virti fyrir sér hnattlíkanið og sá strax hvað var að: Strengurinn þurfti að vera langtum lengri og liggja yfir gjörvallt Atlantshafið.“

 

3200 km langur strengur

Hugljómun Cyrusar Fields var álíka stórkostleg og hún var geðveikisleg.

 

Þegar hér var komið sögu voru aðeins liðin rétt rúm hundrað ár frá því að William Watson gerði sér grein fyrir að hægt væri að flytja rafmagn um málmþráð yfir langan veg og verkfræðingar voru rétt byrjaðir að gera tilraunir með leiðslur neðansjávar.

 

Fyrir vikið þótti það ótrúleg hugmynd að láta sér detta í hug að leggja sæstreng yfir þvert Atlantshafið, sem væri ríflega 3200 km langur og lægi á um það bil þriggja kílómetra dýpi!

Guttaperka var unnið úr trjám – rétt eins og gúmmí. Hér sjást ættbálkar á Borneó ná í kvoðu úr guttaperkutré (um 1910).

Segja má að Cyrus Field hafði fengið á heilann hugmynd sína um að tengja „gamla heiminn“ við „nýja heiminn“.

 

Á næstu árum fékk hann í lið með sér hóp vísindamanna og fjárfesta, auk þess sem hann stofnaði „Atlantshafsritsímafélagið“.

 

Sjálfur lagði Cyrus Field til fjórðung fjárins en afganginn tókst að fjármagna með sölu hlutabréfa í nýja fyrirtækinu.

 

Í Englandi hófst Cyrus Field handa við að útvega strenginn sem leggja átti yfir hafið. Svo vel vildi til að nokkrum árum áður hafði verið sýnt fram á að gúttaperkasafi úr hitabeltistrjám væri sveigjanlegur og brotnaði ekki niður í vatni.

 

Straumleiðandi koparvírar voru fyrir vikið fóðraðir með gúttaperka, vaxi, trjákvoðu og tjöru, auk þess að vera styrktir með járnþráðum.

 

Engin skip gátu borið farminn

Strengurinn vó rösklega 2000 tonn og þessi staðreynd fól í sér nýjan vanda, því ekkert skip gat borið svo þungan farm.

Kapallinn frá árinu 1857 var svipaður á þykkt og kústskaft.

Lausnin var að nota tvö skip í verkið, USS Niagara, sem var stærsta orrustuskip Bandaríkjanna, og breska orrustuskipið HMS Agamemnon.

 

Þúsundir áhorfenda fylgdust með skipunum þegar þungir strengirnir voru fluttir um borð í þau og skipin tóku stefnuna frá Írlandi á Nýfundnaland í þessum ótrúlega leiðangri. Dagblöðin fylgdust grannt með gangi mála og margir höfðu efasemdir um hvort þetta væri yfirleitt gerlegt.

 

Einn af þekktustu stjarnfræðingum þess tíma, sir George Airy, hafði meira að segja skrifað að það væri „stærðfræðilega ógerlegt að leggja strengi á svo miklu dýpi og jafnvel þótt það yrði hægt, myndu engin merki berast um svo langan veg“.

 

Cyrus Fields lét hrakspár ekki á sig fá þar sem hann lá í koju sinni um borð í skipinu Niagara og hlustaði af ákafa á letilegt, þunglamalegt hljóð strengjarins sem skipið dró niður á hafsbotn, sjómílu eftir sjómílu.

 

Aðfaranótt þriðjudagsins 11. ágúst hafði Niagara lagt niður rösklega 400 km af strengnum. Cyrus Field lá inni í káetu sinni þegar hann heyrði hrópað frá þilfarinu:

 

„Stöðvið skipið! Fulla ferð afturábak!”

Hartnær 600.000 km af einföldum þræði voru ofnir í breskum verksmiðjum.

Kapalþræðir gátu náð til tunglsins

Í heilt ár störfuðu verksmiðjur í Stóra-Bretlandi við það að framleiða gríðarlega langan ritsímakapalinn sem nota átti til að tengja Evrópu og Ameríku.

 

Fyrstu strengirnir sem voru lagðir yfir Atlantshafið voru ekki þykkari en kústskaft en voru engu að síður framleiddir með háþróuðustu tækni þess tíma: Innst var að finna straumleiðandi koparþræðina, sem varðir voru mörgum lögum af náttúrugúmmíi og hampþræði, sem dýft hafði verið í tjöru.

 

Að lokum umluktu járnþræðir allan strenginn. Alls voru ofnir 600.000 km af einföldum þræði í breskum verksmiðjum í fyrsta sæstrenginn, en sú lengd hefði leikandi nægt til að tengja jörðina við tunglið.

 

Þegar Field gerði fjórðu tilraunina til að komast yfir til Ameríku með sæstrenginn var strengurinn orðinn helmingi sverari og gat flutt átta orð á mínútu, sem voru fimmtíuföld afköst miðað við strenginn frá árinu 1857. Þeir sem vildu senda skilaboð um Atlantshafsstrenginn þurftu að greiða tíu dollara fyrir hvert orð. Sú upphæð svaraði til heillar viku launa fyrir verkamann.

Örfáum sekúndum var barið að dyrum og Cyrus Field fékk þau hryggilegu tíðindi að strengurinn væri horfinn.

 

Öldurnar höfðu haft betur, þrátt fyrir að skipstjórinn reyndi ítrekað að bakka til að komast hjá vandanum, og að lokum hafði strengurinn endanlega slitnað. Vonsvikinn sneri Cyrus aftur í land, 400 km fátækari af streng en þegar lagt var upp.

 

Hvassviðrið eyðilagði allt

Óhappið hafi kostað verkefnið rösklega 100.000 bresk pund og heils árs vinnu við að undirbúa risavaxinn sæstrenginn. Óhappið sló Cyrus Field þó ekki út af laginu, þrátt fyrir að hann yrði að bíða til næsta sumars áður en ný tilraun yrði gerð.

 

Tímann nýtti hann m.a. til að betrumbæta spilið fyrir strenginn og að ráða nýjan yfirmann tæknimála fyrir verkefnið. Í það starf var ráðinn stærðfræðingurinn og verkfræðingurinn William Thomsen. Hann taldi strenginn vera of grannan en þar sem fyrirtækið hafði ekki efni á nýjum streng varð hann að láta sér lynda að nota þann granna.

 

Í júní ári 1858 voru skipin tvö reiðubúin fyrir næstu tilraun. Að þessu sinni var ætlunin að skipin mættust á miðju Atlantshafi og sigldu þaðan hvort í átt að sinni ströndu með hvort sinn hluta af strengnum.

Símskeyti voru gjarnan flutt til viðtakanda á reiðhjólum. Það tók vikur að senda bréf vikur en hægt var að afhenda símskeyti sama dag og það var sent yfir Atlantshafið.

Á leið þangað lenti Agamemnon í slæmu veðri og þann 13. júní gerði ógurlegan storm á hafinu. Risavaxið timburskipið skoppaði eins og smáfleyta og tröllauknar öldurnar lömdu á skrokknum. Storminn fór ekki að lægja fyrr en að viku liðinni.

 

Cyrus Field hafði siglt Niagara í öllu lygnari sjó en þegar skipin tvö mættust á miðju Atlantshafinu kom í ljós að strengurinn um borð í Agamemnon hafði flækst saman.

 

Reynt var að greiða úr flækjunni og síðan var hafist handa við að leggja strenginn en eftir 300 km slitnaði grannur strengurinn á nýjan leik og hvarf í sjóinn handan við borðstokkinn.

 

Tvær heimsálfur loks tengdar

Cyrus Field hafði heldur ekki að þessu sinni haft erindi sem erfiði. Hann var þreyttur, en þó ekki bugaður, því í hans augum voru það einungis óhöpp sem ollu því að markmiðinu var heldur ekki náð að þessu sinni.

 

Skömmu seinna lögðu skipin tvö því aftur af stað en að þessu sinni fylgdi fagnandi mannskari þeim ekki úr vör.

 

Fyrirfólk og fjárfestar voru óðum farin að missa trúna á stórkostlegum hugmyndum Cyrusar Fields.

Ritsímastrengurinn yfir Atlantshafið liggur á hafsbotninum milli Írlands og Nýfundnalands.

Fyrir vikið skipti hann öllu máli að aðgerðin bæri árangur núna þegar skipunum aftur var ætlað að mætast á Atlantshafi í júlí 1858 og strengirnir voru tengdir áður en skipin síðan sigldu sína leið til sitt hvorrar heimsálfunnar.

 

Að þessu sinni var skaplegt veður og allt virtist ætla að ganga upp. Sömu nótt datt sambandið milli skipanna tveggja skyndilega niður og William Thomsen var kallaður til, þar sem hann barðist við sjóveiki inni í koju.

 

Með skjálfandi höndum reyndi hann ítrekað að koma á tengingu aftur. Augu allra voru límd við mælaborðið þegar kraftaverkið átti sér stað og tenging komst á nýjan leik á, án nokkurra skýringa.

 

Í byrjun ágústmánaðar blöstu við áhöfninni dökkir klettarnir á ströndu Nýfundnalands, jafnframt því sem strengurinn hélt áfram að renna með jöfnum hraða niður á hafsbotninn.

 

Niagara varpaði akkerum við Bull’s Arms Bay og hinn 5. ágúst stökk Cyrus Field niður í árabát um miðja nótt og sigldi mót landi í leit að litlu ritsímastöðinni sem ætlað var að tengja saman heimsálfurnar tvær.

Western Union varð leiðandi fyrirtæki í skeytasendingum í Bandaríkjunum. Viðskiptavinir fyrirtækisins sendu milljónir smáskilaboða um öll Bandaríkin og til Evrópu.

Hann reikaði um í myrkrinu en fann að lokum rétta húsið, þaðan sem bárust háværar hrotur. Hann opnaði dyrnar og kallaði hátt í myrkrinu: „Búið að leggja strenginn, búið að leggja strenginn!“

 

Hátíðahöldin breyttust í hneyksli

Fagnaðarlætin breiddust fljótt út til beggja heimsálfa. Í Englandi birti dagblaðið The Times, sem að öllu jöfnu var varkárt í orðavali, eftirfarandi í leiðara sínum:

 

„Allar götur frá landafundi Kólumbusar er ekkert sem stendur samanburð við þetta merka ætlunarverk.“

 

Þegar Cyrus Field kom til New York skipulögðu borgaryfirvöld skrúðgöngu sem var svo löng, að hún var sex klukkustundir á leið sinni gegnum borgina. Haldnar voru ótalmargar ræður, stórveislur og mýmargar blysfarir.

 

Viktoría Englandsdrottning átti að flytja fyrstu skilaboðin um strenginn og þau bárust fólki í Bandaríkjunum til eyrna þann 16. ágúst 1858. Fagnaðarlætin virtust engan enda ætla að taka en það sem almenningur ekki vissi var að þessi 99 orða löngu skilaboð höfðu verið rösklega 16 klukkustundir á leiðinni.

 

Merkið frá grönnum strengnum dofnaði dag frá degi og í byrjun september var strengurinn orðinn alveg hljóðlaus.

Great Eastern var 211 metrar á lengd og þar með stærsta skip heims og gat borið allan sæstrenginn í einu lagi.

Hneykslið var nú á allra manna vitorði. Cyrus Field var kallaður sturlaður svikahrappur og dagblöðin ýjuðu að því að skilaboðin frá drottningunni hefðu alls ekki verið send um strenginn, heldur hefði verið siglt með þau yfir Atlantshafið, líkt og áður.

 

Borgarastyrjöldin geisaði næstu ár í Bandaríkjunum en um leið og rykið á vígvellinum hafði lagt sig á nýjan leik var Cyrus Field tilbúinn í slaginn aftur.

 

Stærstu skip heims tekin í notkun

Að þessu sinni var strengurinn hafður helmingi þykkari en sá gamli og var fyrir vikið langtum sterkari. Að sjálfsögðu varð strengurinn að sama skapi miklu þyngri, en þegar þarna var komið sögu hafði stærsta skip heims, Great Eastern, nýlega verið sjósett í fyrsta sinn og það gat borið allan strenginn.

 

Great Eastern lagði upp, drekkhlaðið, frá ströndu Írlands í júlí árið 1865. Örlögin höguðu því hins vegar þannig að sú ferð var einnig misheppnuð. Flögur úr viðarkolum höfðu fest sig í strengnum og þegar áhöfnin reyndi að hreinsa strenginn misstu þeir hann í sjóinn.

 

Cyrus Field neitaði að gefast upp, þrátt fyrir fjórar misheppnaðar tilraunir. Hann skynjaði að hann væri nær markmiði sínu nú en nokkru sinni fyrr. Hann lagði allt undir og fór af stað í enn eina siglinguna og að lokum gekk allt upp.

Hinn 27. júlí 1866 komst ritsímastrengurinn að lokum til Nýfundnalands. Strax var farið að kalla strenginn „áttunda undur veraldar“.

Þann 27. júlí 1866 lagðist Great Eastern að bryggju við Nýfundnaland og næsta dag tókst að tengja strenginn við ritsímastöðina og að þessu sinni var sambandið greinilega mjög gott.

 

Mánuði síðar var velgengnin fullkomnuð, því þá tókst áhöfninni um borð í Great Eastern að fiska upp úr sjónum strenginn sem þeir höfðu misst útbyrðis í fyrri ferðinni.

 

Þegar strengurinn náðist upp úr sjónum og áhöfnin gat sannreynt að hann væri í góðu lagi varð hamingja mannanna alger.

 

Allir nema Cyrus Field hrópuðu af gleði, en hann lagðist í koju í káetu sinni, læsti á eftir sér og grét af gleði.

 

Draumur hans var orðinn að veruleika og nú hafði hann ekki aðeins yfir að ráða einum stráheilum sæstreng yfir Atlantshafið, heldur tveimur. Tveir heimar höfðu endanlega sameinast í einn.

Lestu meira um sæstrenginn yfir Atlantshafið

 

John Gordon: A Thread Across the Ocean – The Heroic Story of the Transatlantic Cable, Harper Perennial 2003

 

Chester Hearn: Circuits in the Sea – The Men, the Ships, and the Atlantic Cable, Praeger Publishers Inc. 2004

 

http://atlantic-cable.com/

 

HÖFUNDUR: ERIK BORK

© ullstein bild - Granger Collection, © Hp.Baumeler, Library of congress, © University of California Libraries, © atlanticcable.com, © Library of Congress, © History archive, © Natalie Maynor, © State Library of Victoria,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Bólusótt: Ósýnilegur ógnvaldur herjaði í Evrópu

Maðurinn

Hvers vegna eru sumir smámæltir?

Spurningar og svör

Hvort er bjór betri úr dós eða flösku?

Lifandi Saga

Þýsk fórnarlömb sprengjuflugmanna tóku þá af lífi

Alheimurinn

Fær það virkilega staðist að tvær sólir geti verið í sama sólkerfi?

Náttúran

Hvernig geta slöngur klifrað?

Alheimurinn

Vetrarbrautin full af svartholum

Maðurinn

Hve lengi er hægt að vera kvefaður?

Maðurinn

Við drekkum einn bolla af nefslími dag hvern

Tækni

Hvað gerist ef díselolíu er dælt á bifreið sem knúin er bensíni?

Jörðin

Undravert yfirborð jarðar

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.