Í árþúsundir lifði flokkur safnara og veiðimanna á bökkum Bajkalvatns í Síberíu sem grófu látna ástvini sina á tilteknum stöðum við vatnsbakkann. Skyndilega voru íbúarnir hins vegar horfnir og svæðið var ekki byggt mönnum aftur fyrr en 800 árum síðar. Vísindamenn á sviði ýmissa vísindagreina leggjast nú á eitt til að reyna að kortleggja líf og atferli þessara tveggja hópa, með hliðsjón af beinagrindum og haugfé, en svo nefnast gjafir sem grafnar voru með hinum látnu.
Langstærstan hluta sögu vorrar, á því tímabili sem gengur undir heitinu steinöld, höfum við lifað sem safnarar og veiðimenn. Við ímyndum okkur gjarnan forfeður vora, veiðimennina, reika um hálfbera eða skinnklædda að veiða bráð ellegar að safna villtum ávöxtum og berjum, hnetum, rótum, smádýrum og öðru ætilegu. Þar til fyrir um það bil 50 árum lifðu enn litlir hópar safnara, veiðimanna og fiskimanna víðs vegar um heim, m.a. í suður- og austurhluta Afríku, í Suður-Ameríku og á heimskautasvæðunum. Flestir þeirra hafa nú tekið upp nútímalegri lifnaðarhætti en þeir fáu sem enn halda uppi merkjum forfeðranna hafa verið rannsakaðir mjög svo gaumgæfilega af mannfræðingum. Þó svo að oft sé bent á að ekki sé unnt að bera saman veiðimenn nútímans við þá sem uppi voru á steinöld er því engu að síður svo farið að margir mannfræðingar og fornleifafræðingar enda á að gera eins konar varfærnislegan samanburð á íbúum steinaldar annars vegar og hirðingjum nútímans hins vegar ellegar þá hirðingjum sem lifðu ekki alls fyrir löngu. Þetta er einkum freistandi sökum þess að yfirleitt fyrirfinnast ekki margar áþreifanlegar vísbendingar um safnara og veiðimenn fornaldar, sem sagt geta nokkuð til um útlit þeirra, aldur eða lifnaðarhætti.
Hundruð beinagrinda undir smásjá
Þessu er öðruvísi farið við Bajkalvatn í Síberíu. Á þessum stað, þar sem heitið eitt hljómar fráhrindandi, hafa fundist grafreitir með hundruð gamalla beinagrinda, sumar hverjar allt að 9.000 ára gamlar, ásamt haugfé.
Rannsóknir á þessum steinaldargrafreitum hófust í litlum mæli þegar undir lok 19. aldar en fljótlega upp úr 1990 tók hópur kanadískra vísindamanna á ýmsum sviðum að rannsaka svæðið. Kanadabúarnir stunda nú rannsóknir á beinagrindunum og haugfé og reyna að gera sér mynd af því fólki sem í þúsundir ára lifðu við bakka Bajkalvatns og í grennd við árnar sem renna út í vatnið.
Á þessum stað var, og er enn, kalt á veturna en sumrin, sem eru stutt, gátu þó orðið verulega hlý. Bajkalsvæðið liggur upp að þeim svæðum, norðar í Síberíu, þar sem er sífreri í jörðu. Þetta gerir það að verkum að jörðin svolítið undir yfirborðinu nær aldrei að þiðna að öllu leyti. Í skógunum reikuðu um ógrynnin öll af dýrum: hirtir, elgir, hreindýr, fjallageitur, birnir, villisvín og úlfar. Á sumum tímum var ofgnótt af kjöti, auk þess sem fiskur og annað sjávarfang veiddist í vatninu, og svo voru ber og hnetur á runnum og trjám og sveppir í skógarbotninum.
Svæðið yfirgefið í 800 ár
Verkefni sem gengur undir heitinu The Baikal Archaeological Project hefur verið falið að rannsaka þróun lifnaðarhátta á þeim ríflega 6.000 árum sem tveir ólíkir hópar safnara og veiðimanna bjuggu þarna. Fyrstu grafirnar eiga rætur að rekja til ársins 6800 f.Kr. og þarna virðist fólk hafa verið jarðsett allt til ársins 4900 f.Kr. Ártölin voru fundin með rannsóknum á kolefni-14 á efni í gröfunum. Frá 4900 til 4200 eru hins vegar engin ummerki um menn í þessum stóru grafreitum. Eftir það var svo aftur farið að grafa fólk á staðnum. Hvað gerðist eiginlega á þeim 700-800 árum sem liðu á milli? Var það erfðafræðilega eins fólk sem sneri til baka og hóf á nýjan leik að jarðsetja látna ástvini þarna? Eða var um að ræða allt annað fólk?
Þessum tveimur spurningum vonast vísindamenn Bajkalverkefnisins til að fá svör við, í öllum þeim beinagrindum sem þeir hafa safnað saman.
Fyrri hópurinn virðist hafa sest að við Bajkalvatn u.þ.b. 7000 árum fyrir Krist og þennan hóp kalla vísindamennirnir Kitoi. Þeir grófu þá látnu næstu tvö þúsund árin í ýmsum grafreitum meðfram bökkum stöðuvatnsins í gröfum með birkihríslum neðst í.
Þeim látnu fylgdi ýmiss konar haugfé á borð við litarefnið okkur, vopn, áhöld úr steini, skutla og öngla úr beini, skartgripi úr dýrabeinum, leirpotta og annað álíka. Undir lok Kitoi-tímabilsins vekur athygli hve fá börn voru grafin en aðallega er um að ræða eldra fólk, þ.e. fólk sem er yfir 30 til 40 ára aldri. Ekkert jafnvægi virðist hafa verið í samfélaginu. Nærri árinu 4900 fyrir Krist virðist Kitoi-fólkið svo hafa hætt að nota grafreitina. Hvort þeir dóu út eða fluttu annað, veit þó enginn.
Næstu 700-800 árin eru svo engin ummerki um íbúa en nærri árinu 4200 f.Kr. voru menn hins vegar aftur bornir til grafar á svæðinu við Bajkalvatn en vísindamenn kalla þessi yngri samfélög Serovo-Glazkovo.
Þeir látnu frá þessu tímabili voru einnig grafnir með haugfé. Í gröfum þeirra hafa einnig fundist litarefnið okkur, veiðarfæri, leirker og skartgripir úr sama efnivið og munirnir í Kitoi-gröfunum. Í yngri gröfunum er einnig að finna ýmsa muni úr málmi, efnivið sem sjaldan er bendlaður við safnara og veiðimenn steinaldar, en hins vegar við síðari tíma bændasamfélög á bronsöld og járnöld.
Skógi vaxið umhverfi Bajkalvatns hentaði hins vegar illa fyrir landbúnað og þetta er sennilega ein af ástæðum þess að íbúarnir hér lifðu jafn lengi sem safnarar og veiðimenn og raun ber vitni. Á sama stað, og aðeins lengra mót norðri, fyrirfinnast enn þann dag í dag hópar sem lifa á hreindýrabúskap ellegar hreindýraveiðum, fiskveiðum og sem safnarar, t.d. buryat og evenki-ættbálkarnir.
Elstu íbúarnir voru fáskiptir
Gerðar eru rannsóknir á beinagrindum, þar sem beitt er ýmsum náttúruvísindalegum aðferðum, í því skyni að reyna að komast að sem mestu um íbúahópana tvo sem lifðu við Bajkalvatn. Gerðar hafa verið DNA-rannsóknir sem miðast við að greina skyldleika hópanna, hvorn við annan og við aðrar þjóðir í Asíu.
Steinefnainnihald beinagrindanna hefur einnig verið rannsakað til að freista þess að komast að raun um hvaða fæðutegundir þeir einkum lögðu sér til munns. Þá voru tennurnar rannsakaðar með tilliti til strontíuminnihalds, en strontíum er frumefni sem getur sagt ýmislegt til um þær jarðfræðilegu aðstæður sem eigendur tannanna lifðu við. Hvernig voru jarðvegurinn og vatnið og þannig einnig dýrin og jurtirnar sem íbúarnir lifðu á? Með því að mæla strontíum í tönnum beinagrindanna hefur fornleifafræðingunum tekist að komast að ýmsu um atferli þessara forfeðra.
Eldri hópurinn, Kitoi, virðist hafa lifað í allstórum hópum sem ekki höfðu mikið samneyti við aðra safnara og veiðimenn á Bajkalsvæðinu. Hóparnir fluttu sig um set allt eftir framboði náttúruauðlinda, á borð við vatn og tinnustein í axir og áhöld, en einnig eftir ferðum bráðarinnar og möguleikum á að safna jurtafæðu. Þeir héldu þó einnig kyrru fyrir í mjög langan tíma í senn. Svo virðist sem Kitoi-fólk hafi búið á sama stað talsvert lengi í senn og að þeir hafi haldið í styttri veiðiferðir og safnferðir frá þessum samastað sínum.
Einstaklingar geta þó mætavel hafa flutt sig um set frá einum íverustað til annars sökum giftinga ellegar vegna þess að þeim sinnaðist við aðra meðlimi hópsins.
Hluti af fæðu Kitoi-búanna var fólginn í fiski en þó ekki í eins miklu magni og vænta mætti af íbúum á bökkum stöðuvatns. Kjöt af villibráð og jurtir sem safnað hafði verið skiptu minnst jafnmiklu máli hvað fæðuna varðaði. Á tímabilum er greinilegt að Kitoi-fólk hefur soltið en það má sjá af skemmdum glerungi beinagrindanna. Síðustu greftranirnar sýna fram á stöðnun, því nánast engin börn var að finna í gröfunum, og aðallega ungar, fullvaxta konur, svo og eldri konur og talsvert eldri menn.
Þeir framtakssömu spjöruðu sig best
Íbúarnir sem tilheyrðu Serovo-Glazkovo hafa sennilega ræktað einstaka plöntur á dvalarstöðum sínum. Þetta er einnig þekkt hjá sumum söfnurum, veiðimönnum og hirðingjum sem ferðast milli staða nú á dögum og gerðu það í náinni fortíð.
Þessir síðari íbúar hafa engu að síður verið á meiri hreyfingu en Kitoi-fólkið. Þeir hafa lifað í minni hópum, flust oftar úr stað og um allt svæðið sunnan við Bajkalvatn. Þeir hafa, andstætt því sem við átti um Kitoi, aðallega sótt sér maka utan frá. Fleira fólk hefur búið á svæðinu og meira jafnvægi hefur verið í íbúasamsetningunni en tíðkaðist hjá Kitoi. Þeir hafa jafnframt átt fleiri börn og jafnara hlutfall hefur verið milli karla og kvenna. Fæðan á tímabili Serovo-Glazkovos hefur verið fjölbreyttari en Kitoi-tímabilinu og íbúarnir hafa orðið eldri, en margir þeirra voru yfir fimmtugt. Serovo-Glazkovo-samfélagið leið engu að síður einnig undir lok u.þ.b. eitt þúsund árum fyrir Krist.
Íbúar flokkanna tveggja hafa sem sé lifað mjög ólíku lífi, þó svo að þeir hafi búið á sama svæðinu og báðir lifað sem safnarar og veiðimenn. Kitoi-fólk bjó saman í stórum hópum, sem höfðu nánast fasta búsetu, en það má greina af innihaldi steinefna, einkum strontíums, í tönnum og beinum. Þeir virðast einnig hafa gifst innbyrðis í stað þess að sækja sér kvonfang til nágrannabyggðarlaga. Serovo-Glazkovo-fólkið virðist hafa verið meira á ferðinni og félagslyndara. Margir virðast hafa sótt sér maka til annarra hópa. Þannig hefur þeim tekist að koma í veg fyrir úrkynjun og fengið bæði nýtt blóð og nýjar hugmyndir.
Grafirnar eru einnig líkar
Þó svo að hóparnir tveir hafi byggt tilveru sína á ólíkum þáttum áttu þeir engu að síður margt sameiginlegt. Hvorki Kitoi- né Serovo-Glazkovo-fólkið lifði sem eiginlegir hirðingjar þó svo að þeir síðarnefndu hafi í raun gerst víðreistari en Kitoi-fólkið. Báðir hóparnir voru svo nátengdir heimbyggð sinni við stöðuvatnið að þeir jarðsettu látna ástvini sína þar.
Sumir grafreitirnir voru staðsettir í nágrenni við áberandi náttúrufyrirbæri, t.d. klettamyndanir. Serovo-Glazkovo-fólk merkti meira að segja grafirnar með steinum sem virðast hafa gegnt hlutverki eins konar minnisvarða. Grafreitirnir kunna enn fremur að hafa gegnt hlutverki samkomustaða þar sem lögð var stund á helgiathafnir, t.d. tilbeiðslu til forfeðranna.
Sameiginleg með hópunum tveimur er jafnframt umhyggjan fyrir þeim látnu og örlögum þeirra eftir andlátið. Fundist hafa grafir með höfuðlausum beinagrindum og í einni gröfinni hafði úlfur verið grafinn með þeim látna. Þetta, ásamt haugfé á borð við litarefnið okkur, bendir til þess að helgiathafnir hafi tíðkast, en okkur var á ýmsum menningarsvæðum notað til að lita líkamann í tengslum við helgiathafnir. Hver lífsskoðun þessara tveggja hópa nákvæmlega var, og viðhorf þeirra til lífs eftir dauðann, er enn vandsvarað. Það eru hins vegar meðal annars þessi atriði sem vísindamennirnir vonast til að geta varpað ljósi á með rannsóknum sínum á svæðinu á komandi árum.
Bajkal-verkefnið hefur aflað nýrrar vitneskju um þessar gömlu steinaldarþjóðir með víðtækum athugunum á bæði beinagrindum og munum sem fundist hafa. Til dæmis hafa strontíumrannsóknirnar sagt ýmislegt til um búsetu- og flutningsmynstur íbúa beggja hópa og hægur vandi er að bera þessar niðurstöður saman við veiðimenn, safnara og fiskimenn í dag eða náinni fortíð. Áður fyrr var söfnurum og veiðimönnum lýst sem hirðingjum sem reikuðu um í leit að bráð og jurtum til átu, án þess að hafa fasta búsetu. Bajkal-hóparnir völdu að halda meira kyrru fyrir. Hvað þetta varðar líkjast þeir meir indíánum á norðvesturströnd Kanada, sem höfðu aðgang að svo miklum auðlindum í hafinu að þeir bjuggu kyrrir á sama stað og héldu meira að segja hinar víðfrægu potlatch-hátíðir, þar sem allt snerist um að gefa stærstu gjafirnar.
Greining á beinagrindunum við Bajkalvatn hefur engu að síður leitt í ljós að því eru takmörk sett hversu lengi íbúarnir gátu haldið kyrru fyrir á sama staðnum, þannig að vel mætti vera. Þetta styrkir þá almennu skoðun sérfræðinga að of mikil einangrun samfélags geti leitt til hnignunar og að genablöndun og hugmyndir annars staðar frá séu af hinu góða. Hluti skýringarinnar á því hvers vegna Kitoi-fólk hvarf og að mörg hundruð ár liðu þar til íbúar Serovo-Glazkovo gerðu vart við sig, kann einmitt að vera fólginn í því hvernig þeir fyrrnefndu skipulögðu samfélag sitt.
Mörgum spurningum ósvarað
Kitoi-fólkið bjó í stórum hópum, sem höfðu lítil samskipti við umheiminn og íbúunum barst því engin vitneskja um önnur svæði með betri fæðumöguleikum né heldur fengu þeir hugmyndir um hvernig nýta mætti umhverfið á vænlegri hátt. Hjónabönd innan hópsins hafa jafnframt haft í för með sér ættgenga sjúkdóma, svo og tíð fósturlát.
Serovo-Glazkovo-fólkið var á meiri hreyfingu og þeir blönduðu geði við íbúa nærliggjandi héraða í meira mæli en Kitoi. Þeir sóttu sér maka annars staðar frá, sem gerði það að verkum að þeir eignuðust fleiri og heilbrigðari börn. Mikill fjöldi barnabeinagrinda í grafreitum Serovo-Glazkovo er nefnilega ekki vísbending um að barnadauði hafi verið algengari en á tímum Kitoi, því þá var dánartíðni einmitt mjög há, heldur til marks um að hátt hlutfall íbúanna hafi verið börn. Barnabeinagrindurnar gefa til kynna að mörg börn hafi fæðst og samsetning íbúanna með jöfnu hlutfalli jafnaldra karla og kvenna ýtir jafnframt stoðum undir þessa tilgátu. Fæðan á tímabili Serovo-Glazkovo var jafnframt betri, því þeir voru meira á hreyfingu og vissu jafnvel betur hvar hægt væri að afla fæðu vegna þess að þeir urðu fyrir áhrifum frá öðrum.
Kitoi tímabilið minnir í raun á tiltekna hópa safnara og veiðimanna sem lifðu á síðustu öld, sem sífellt fækkaði vegna þess að þeir höfðu úr of litlu að moða. Búskmenn í suðurhluta Afríku eru einmitt dæmi um þess háttar fámenna þjóðflokka sem eignuðust einfaldlega færri börn af því að lifnaðarhættir þeirra voru í of mikilli hnignun og þeir höfðu engin tök á að bæta þá né breyta þeim. Lifnaðarhættir þeirra samrýmdust illa nútímaþjóðfélagi og það var einmitt þess vegna sem þeir urðu að láta af lifnaðarháttum sínum. Samfélag þeirra var í stöðugri hnignun og það er hugsanlega einmitt skýringin á því hvers vegna Kitoi-menningin leið undir lok.
Bundnar eru miklar vonir við að hægt verði að finna svör við þessum spurningum vegna þess mikla fjölda gagna sem vísindamenn sem starfa að Bajkal-verkefninu hafa úr að moða og vegna fjölda ólíkra starfsstétta sem eiga þar samstarf. Enn sem komið er hefur þó einungis tekist að lyfta hulunni af litlum hluta af atferli þessara síberísku veiðimanna.