Ljósleitur börkur er hentugur trjám sem vaxa norðarlega. Börkurinn endurkastar þannig meira sólarljósi og fyrir bragðið er trénu auðveldara að halda jöfnu og lágu hitastigi yfir veturinn.
Það kann að virðast mótsagnakennt en í köldu loftslagi getur verið mikilvægt að halda hitastiginu lágu. Ef hitinn í trénu sveiflast upp og niður fyrir frostmark á hverjum sólarhring er hætta á frostskemmdum, t.d. djúpum sprungum í börkinn. Slíkar sprungur auðvelda meindýrum og sjúkdómum aðgang og geta þannig kostað tréð lífið. Hvítur eða ljós börkur getur þannig aukið lífslíkurnar til lengri tíma litið og því sennilegt að náttúruúrval þróunarinnar hafi valdið þessum ljósa lit. Tré með dekkri börk hafa lifað skemur og þar af leiðandi eignast færri afkomendur.
Það er ekki alveg ljóst hvað veldur þessum ljósa lit. Sú tilgáta hefur verið sett fram að dauðar frumur yst í berkinum endurkasti ljósinu á ákveðinn hátt. Sá eiginleiki á yfirborði efnis veldur því að mannsaugað greinir litinn sem hvítan eða ljósan.