Þetta virðist einföld spurning, en í rauninni er mjög erfitt að svara því hvers vegna geimurinn er svartur. Segja má að svörin séu tvö. Einfalda svarið er að úti í geimnum sé umhverfið svart vegna þess að ekki er þar neinn lofthjúpur til að dreifa ljósinu. Frá jörðu sýnist himinninn blár vegna þess að sameindir í loftinu dreifa sólarljósinu.
Öllu flóknara svar byggist á samhenginu við uppbyggingu alheimsins. Væri alheimurinn óendanlega stór og óendanlega gamall, sæjum við ljós frá óendanlega mörgum stjörnum, hvert sem litið væri. Næturhiminninn væri þess vegna bjartur. Reyndar bærist hingað þá svo mikil geislun utan úr geimnum að tilvist okkar væri ómöguleg.
Sú staðreynd að himinninn er í rauninni svartur, kallast „Þversögn Olberts“. Nú telja vísindamenn að lausnin á þessari þversögn sé sú að hinn sýnilegi alheimur er hvorki óendanlega stór né óendanlega gamall. Alheimurinn varð til fyrir um 13,7 milljörðum ára og af þeim sökum sjáum við ekki lengra út í geiminn en 13,7 milljarða ljósára. Þetta takmarkar mjög fjölda sýnilegra stjarna og ljósið frá þeim.