Kjarnorkusprengja losar ótrúlega orku á mettíma. Orkan hitar loftið á sprengistaðnum svo gífurlega að það verður miklu þynnra en loftið í kring. Hin heita loftsúla stígur beint til himins, rétt eins og reykur í reykháfi. Hitasúlan fer upp í gegnum allt veðrahvolfið og dregur með sér jarðveg, ryk, reyk og sitthvað af öllu því sem beinlínis verður að ösku og dufti í sprengingunni. Af þessu leiðir að hitasúlan verður afar sýnileg.
Loftið svalnar eftir því sem ofar dregur, allt þar til kemur upp úr veðrahvolfinu og upp í heiðhvolfið, en þar uppi er nokkru hlýrra loft sem hægir á risi hitasúlunnar og skýið tekur nú að breiðast út til hliðanna. Þannig myndast svepphatturinn uppi í heiðhvolfinu. Allt ferlið tekur afar stuttan tíma. Þremur og hálfri mínútu eftir sprenginguna er sveppahatturinn fullmótaður.
Það eru reyndar ekki aðeins kjarnorkusprengjur sem mynda ský af þessari gerð. Þau geta líka myndast þegar mjög stórar sprengjur úr hefðbundnum sprengiefnum springa og náttúran getur líka átt til að mynda slík ský í miklum eldgosum. Elsta frásögnin um sveppaský er frá eldgosinu í Vesúvíusi árið 79.