Hellaristur í Skandinavíu voru einkum gerðar af bronsaldarmönnum á árabilinu 2000-500 f.Kr. Heilabú þeirra var nákvæmlega jafn þroskað og hjá núlifandi mönnum. Ástæða þess að myndirnar skuli ekki vera vandaðri og eðlilegri er sem sagt ekki skortur á hæfileikum, heldur fremur sú að heimsmynd þessa fólks hafi verið önnur en okkar. Miklu eldri hellamálverk t.d. Lascaux í Frakklandi eru mun nær veruleikanum. Skandinavísku hellamyndirnar eru ristar og frumstæð áhöld hafa vissulega sett mönnum þrengri takmörk en við að mála myndir.
Hellaristurnar hafa trúlega heldur ekki verið gerðar frá fagurfræðilegum sjónarmiðum, heldur liður í ákveðnum athöfnum og á grundvelli vissra hugmynda, t.d. ferðar sólarinnar yfir himininn, sjóferða og frjósemi. Það má ímynda sér að hellaristurnar hafi verið gerðar á samkomustöðum fólks úr fleiri byggðarlögum, sem sameiginlegar hugmyndir tengdu saman.
Myndirnar voru fyrst og fremst tákn og merking þeirra táknræn og auðskilin fólki á svipaðan hátt og við notum ýmis tákn nú til dags. Um merkinguna er nú einungis hægt að setja fram tilgátur en tæpast verður hún nokkurn tíma afhjúpuð að fullu. Skip, fólk, dýr, hand- og fóttákn, nautgripir og sólartákn koma víða fyrir en þurfa ekki alls staðar að merkja hið sama. Sums staðar má sjá stakt skip, en annars staðar eru risturnar mun samsettari, líkt og samfelld frásögn ætluð fyrir einhvern sérstakan atburð, sem þá hefur líkast til verið trúarlegs eða menningarlegs eðlis.
Skandinavískar hellaristur eru íburðarmestar bæði í innihaldi og formi á fátækari jaðarsvæðum. Vísindamenn telja ástæðuna þá að þar hafi risturnar fólgið í sér alla athöfnina, en þar sem meiri velmegun ríkti komu t.d. fórnarathafnir og skrúðgöngur til viðbótar.