Húðin er þriggja laga.
Yst er húðþekjan. Hún er gerð úr prótínríkum frumum sem skapa húðinni hið þétta og vatnshelda yfirborð.
Undir húðþekjunni er leðurhúðin. Hún er úr bandvef og teygjanlegum vef og veitir húðinni þanþol.
Innst er svo undirhúðin úr laustengdum bandvef og fitu.
Litunum í húðflúri er sprautað um 1 mm inn í húðina og þeir setjast að í leðurhúðinni þar sem frumuskipti eru ekki mjög tíð, öfugt við húðþekjuna þar sem frumur endurnýjast mánaðarlega eða svo.
Tattóvering getur þannig enst alla ævi, þótt hún fölni vissulega og máist dálítið með tímanum.
Móskulegt útlit gamals húðflúrs stafar að hluta til af því að leðurhúðin endurnýjast líka að nokkru leyti, en önnur ástæða er sú að frumur ónæmiskerfisins ráðast að litarefnunum.
Í þriðja lagi deyfir svo sólskinið litina.