Hlátur er ákveðið tjáningarform, sem m.a. sýnir afstöðu okkar til annarra.
Þótt vissulega sé hægt að hlæja með sjálfum sér, hafa rannsóknir sýnt að fólk er 30 sinnum líklegra til að hlæja þegar það er í hópi með öðru fólki.
Yfirleitt gefur hláturinn til kynna traust og samkennd gagnvart þeim sem hlæja með okkur. En öfugt við aðra prímata sem aðeins brosa til gamans, getur hlátur mannsins líka táknað létti, háð, samkennd eða aðrar tilfinningar. M.a. getur hláturinn nýst sem útrás fyrir samúð eða sorg.
Svo virðist sem allmargar heilastöðvar eigi þátt í hlátri. Bresk heilaskannatilraun, sem gerð var 2001, sýndi þannig að lítil svæði hægra og vinstra megin í ennisblaðinu eiga þátt í að greina lokahnykk brandara, en mismunandi gerðir brandara fara ekki til úrvinnslu í alveg sömu heilastöðvum.
Þegar brandarinn hafði verið túlkaður, virtist sem enn ein heilastöð í miðju ennisblaðinu tæki ákvörðun um hvort hann hefði verið fyndinn eða ekki. Allt bendir svo til að enn ein heilastöð, efst í ennisblaðinu, leysi svo hláturinn úr læðingi.
Það sýndu bandarískir vísindamenn fram á árið 1998, þegar þeim tókst að fá 16 ára stúlku til skella upp úr með rafboðum einum saman.