Rétt eins og spendýr eru fuglar komnir af skriðdýrum sem höfðu komið sér upp kjálkum og tönnum.
Um 150 milljón ára steingervingar af Archaeopteryx lithographica hafa bæði tennur og fjaðrir, en þessi skepna er frá upphafi þróunar fugla. En síðan hefur þróunin beinst að því að auka flughæfnina sem mest.
Þáttur í þessu ferli var að létta líkamann alls staðar þar sem þess var kostur. Kjálkar og tennur eru úr tiltölulega þungum beinum og tegundir sem þróuðu aðrar lausnir hafa því staðið sig betur og lifað af. Bein og höfuðkúpa hafa líka minnkað og eru orðin mjög létt í fuglum okkar daga.
Fuglarnir urðu sem sé að losa sig við þann munað sem felst í góðum tönnum. Þess í stað minnkuðu kjálkarnir og eru nú klæddir hornhúð og þannig orðnir að goggi.
Án tanna verður að brjóta fæðuna niður í smærri einingar annars staðar í líkamanum og það gera fuglar í fóarninu sem er vöðvastælt hólf í meltingarveginum. Hér nuddast vöðvaplötur saman og mylja þannig fæðuna.
Sumir fuglar gleypa líka smásteina sem setjast að í fóarninu og auka á mulningsgetuna. Fóarnið hefur þannig í þróuninni komið í stað kjálka og tanna og gerir fullkomlega sama gagn.