Vatn gufar ekki aðeins upp við suðu. Uppgufun stafar líka frá köldu vatni og jafnvel ís gefur frá sér dálitla uppgufun. Uppgufun vatns við lágt hitastig má t.d. sjá þegar þvottur er hengdur til þerris. Þvotturinn þornar einmitt vegna þess að vatnið í honum gufar upp.
Baðherbergið fyllist af gufu vegna þess að uppgufun vatns eykst með hitastiginu. Sé horft á vatnssameindirnar sjálfar, þurfa þær allar sömu orku til að rífa sig lausar úr vökvanum og taka að svífa um loftið sem gufa. Orka dreifist á hinn bóginn aldrei alveg jafnt um vökva og raunar ekki heldur um fast efni né loftkennt. Sumar vatnssameindir rekast á aðrar og öðlast þannig viðbótarorku.
Í vissum tilvikum er þessi viðbótarorka næg til að sameindirnar slíti sig lausar og mynda þá gufu. Þegar meðalorkan í vatninu – sem sagt hitinn – eykst, þá aukast jafnframt líkur á því að einstakar sameindir öðlist næga orku til að slíta sig lausar. Þannig fyllist baðherbergið á endanum af gufu.
Þurreiming nefnist það þegar vatnssameindir gufa beint upp úr ís. Þetta fyrirbrigði veldur því t.d. að ísteningar í opnum bakka í frystinum minnka smám saman – en að vísu ofurhægt.