Ástralía er 7,7 milljónir ferkílómetra en Grænland 2,2 milljónir. Samt má vissulega finna ýmis landakort þar sem stærðin virðist vera nokkuð áþekk. Skýringin er sú að það er ógerningur að teikna yfirborð þrívíðs hnattar á tvívíðan pappír. Það er heldur ekki hægt að pakka epli inn í pappír án þess að fellingar myndist í pappírnum.
Hið fullkomna kort er auðvitað hnattlíkan en það er óþjálla í meðförum og þess vegna hafa menn fundið upp meira en 200 aðferðir til að teikna jörðina á pappír. Allar aðferðirnar fela þó í sér málamiðlun. Mercator-aðferðin en ein þeirra sem eru mest notaðar. Hún var sett fram árið 1569 og er á marga lund fyrirtaks lausn.
Með Mercator-kort fyrir framan sig er t.d. auðvelt að ákveða stefnuna á sjó, því með þessari aðferð eru allar gráður teiknaðar sem beinar línur og því einfalt að draga línu til ákvörðunarstaða með reglustiku. Lengdar- og breiddargráður mynda alls staðar rétt horn en gallinn er sá að það bitnar á flatarmálinu, jafnvel þótt útlínur lands séu rétt teiknaðar.
Stærst verður skekkjan við pólana og m.a. þess vegna verður Grænland afar breitt á Mercator-kortum og fjarlægðir verða því ónákvæmar. Þýskur kortateiknari, Arno Peters þróaði fyrir nokkrum árum aðferð til að sýna flatarmál í réttum hlutföllum en þá verður gallinn sá að meginlöndin virðast óeðlilega löng og mjó.