Maðurinn

Aftur barist við banvæna veiru – 103 árum síðar

Lokaðir skólar, samkomubann, félagsforðun. Hljómar þetta kunnuglega? Svipaðar aðferðir og nú eiga að hægja á kórónuveirunni voru víða notaðar gegn spænsku veikinni 1918. Þá dóu 50 – 100 milljónir í einni af mannskæðustu farsótt sögunnar. Nú mætir veirufaraldurinn miklu betur undirbúnum vörnum, þökk sé nútíma læknavísindum og ótrúlegum hraða í samskiptum.

BIRT: 27/01/2021


Á sjúkrahúsinu í Kansas í Bandaríkjunum eru 2.000 legurými en þennan dag liggja þar 8.000 sjúklingar í þéttum röðum og eiga í erfiðleikum við að ná andanum.


Eins og svo fjöldamargt annað fólk eru þessir sjúklingar með spænsku veikina og læknar vita ekki sitt rjúkandi ráð. Sjúklingar deyja í hrönnum en þeir geta ekkert gert annað en að reyna að lina þjáningar þeirra sem enn lifa.


Heimsfaraldurinn er í hámarki og árið er 1918.

Neyðarsjúkrahús í Camp Funston í Kansas í spænsku veikinni 1918.

Á þeirri rúmu öld sem síðan er liðin hefur heimsbyggðinni verið hlíft við svo banvænum heimsfaraldri.


Spænska veikin dó út af sjálfu sér eftir að hafa lagt allt að 5% af íbúum hnattarins í gröfina. En 2019 spíraði ný veira sem nú lamar heimsbyggðina.


Nú á dögum berast veirur á miklum hraða með farþegaflugi og geta náð til allra 550 milljónaborga heimsins á fáeinum vikum.


Með sömu dánartíðni og í spænsku veikinni gæti kórónuveiran kostað 200 milljónir mannslífa. En svo illa fer ekki.


100 ára framfarir í læknavísindum og nútímatækni hafa gert okkur kleift að berjast gegn jafnvel skæðustu veirum með talsverðum árangri.

 

Spænska veikin og Covid-19 (SARS-COV-2)

Spænska veikin (H1N1)

  • Nafn: Spænska veikin fékk nafn eftir því landi,    þar sem blöð fjölluðu fyrst um sjúkdóminn.  Táknunin H1N1 skilgreinir einkenni veirunnar    sjálfrar, t.d. sérstök prótín á ytra borði veirunnar.

 

  • Uppruni: Mögulega herstöð í Kansas í BNA.

 

  • Veirugerð: Inflúensuveira.

 

  • Veiktust mest: Ungir fullorðnir.

 

  • Fjöldi smita: 500 milljónir (ágiskun).

 

  • Fjöldi dauðsfalla: 50-100 milljónir.

 

  • Dánartíðni: Allt að 10% (umdeilt).

 

  • Smitleiðir: Dropasmit frá hósta, hnerra o.þ.h.

 

  • Sérþekking: Læknar þekktu ekki nákvæmlega orsökina.

 

  • Viðvaranir: Blöð birtu ráðleggingar fyrir lesendur.

Kórónuveiran (SARS-COV-2)

  • Nafn: Stytting fyrir Severe Acute Respiratory Syndrome Coronavirus. Önnur svipuð veira fékk heitið SARS-COV árið 2003. Þess vegna er talan 19 í heitinu nú. Heiti sjúkdómsins sem veiran veldur, COVID-19, er stytting fyrir Coronavirus Disease 2019.

 

  • Uppruni: Huanan-markaðurinn í Wuhanhéraði í Kína.

 

  • Veirugerð: Kórónuveira.

 

  • Veikjast mest: Eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

 

  • Fjöldi smita: Um 100 milljónir  og fjölgandi.

 

  • Fjöldi dauðsfalla: Um 3-4%.

 

  • Smitleiðir: Dropasmit frá hósta, hnerra o.þ.h.

 

  • Sérþekking: Erfðamengi veirunnar kortlagt og sú þekking notuð til að þróa bóluefni.

 

  • Viðvaranir: Yfirvöld geta náð til fólks í útvarpi, sjónvarpi, á netinu og í síma.

 

Spænska veikin, 1918


Um miðjan júlí 1918 flytur blaðið Times of India viðvörun: „Sjúkdómurinn dreifist einkum með sýktum líkamsvökva frá nefi og munni. Til að forðast smit á að halda sig frá fjölförnum stöðum, svo sem mörkuðum, leikhúsum og yfirfullum lestarvögnum. Besta lækningin er að halda sig í rúminu og hafa ekki áhyggjur.


Góðar og gildar ráðleggingar fyrir bresku yfirstéttina á Indlandi.


En alveg gagnslausar fyrir milljónir íbúa stórborganna þar sem fólk var í raunverulegri hættu.


Þetta fólk neyðist til að vinna og sofa í mikilli nánd. Það getur ekki tekið sér frí og ekki heldur lesið blöðin.

Í Bandaríkjunum fylktu lögreglumenn liði á götunum 1918 með grímur fyrir vitum. Almenningur var hvattur til að halda sig innandyra og forðast fjölmenni, ekki ósvipað því sem nú er gert.

Á þessum tíma eru aðeins liðnir fáeinir mánuðir frá því að farsóttin tók að breiðast út. Sá fyrsti sem fékk veiruna er talinn hafa verið Albert Gitchell. Hann var kokkur í herstöð í Kansas í Bandaríkjunum og veiktist í mars.


Frá herbúðunum breiðist faraldurinn hratt út um Evrópu og víðar um heiminn. Fyrri heimsstyrjöldin stendur yfir og þótt smitberarnir þurfi að ferðast með gufuskipum, lestum og hestvögnum, nær spænska veikin um allan heim um vorið.


Fyrstu mánuðina grípa yfirvöld ekki til neinna aðgerða og ritstjórar blaða hlýða skipunum. Heimurinn hefur áður komist í gegnum farsóttir og menn hafa fulla trú á að þessi gangi yfir eins og aðrar.


Það er bara hæðst að læknum sem vilja aflýsa samkomum og grípa hnerra í lófann úti undir beru lofti í staðinn en þegar fólk fer að deyja þúsundum saman rennur alvaran smám saman upp fyrir öllum.


Og það er enn bara sumar. Inflúensa lætur yfirleitt ekki á sér kræla fyrr en á haustin.


Hver hin raunverulega ástæða er, veit enginn.


Er þetta kannski lífefnavopn sem Þjóðverjar hafa fundið upp? Á faraldurinn upptök sín í rotnandi líkum í hinum hryllilegu skotgröfum? Eða felst skýringin í flóabiti eða kannski óhreinu drykkjarvatni?

 

Kórónuveiran, 2019-2021

 

Um 8. desember 2019 fá nokkrir Kínverjar óskýranleg inflúensulík einkenni. Þeir hafa farið á fiskmarkaðinn Huanan, þar sem auk fiskjar er hægt að fá „villibráð“, sælkeramat á borð við beltadýr, leðurblökur og broddgelti.

 

Smit kórónuveirunnar eða „Severe Acute Respiratory Syndrome Coronavirus 2 – SARS-COV-2 – má rekja til þessa matvælamarkaðar.

 

Þarna hefur veiran sennilega borist úr dýri og stökkbreyst og út frá þessum litríka miðpunkti hefur hún svo breiðst út og sýkt fólk um allan heim.

 

Í desember uppgötva læknar í Wuhan að æ fleiri smitast af „lungnabólgu af óþekktri ástæðu“ og áður en árið er úti hafa mörg þúsund manns smitast.

Kórónuveiruna má rekja til fiskmarkaðarins Huanan í Wuhan-héraði í Kína. Vísindamenn vita ekki enn með vissu úr hvaða dýri veiran er ættuð en leðurblökur og skeldýr liggja undir grun. Samkvæmt nýrri kenningu gæti veiran verið ný samsetning úr veirum úr fleiri dýrum.

Nákvæmlega eins og 102 árum fyrr hika yfirvöld og leyfa veirunni að breiðast út en læknar nútímans eru betur vopnaðir en langafar þeirra voru.


Í rafeindasmásjá er nú hægt að sjá veiruna sjálfa þótt hún sé einungis þúsundasti hluti af þykkt höfuðhárs og í janúar 2020 vita veirufræðingar um allan heim nákvæmlega hvers konar veira hér er á ferð.

 

Hún tilheyrir þeim flokki veira sem kallast kórónuveirur og eru nefndar svo eftir blómlíkum „kórónum“ prótína á yfirborði. Hún er að líkindum komin úr leðurblökum og hefur þrjá eiginleika sem gera henni kleift að valda hamfarafaraldri um allan heim:


* Veiran er mjög smitandi.


* Hún veldur fórnarlambinu erfiðum sjúkdómi sem getur orðið banvænn.


* Og hún er algerlega ókunn ónæmiskerfi mannsins, þannig að allir geta smitast og smitað aðra.

 

Eigi að koma í veg fyrir að þessi nýja veira leggi milljónir manna að velli, þarf að draga hratt úr smiti og vinna þannig tíma meðan vísindamenn þróa bóluefni.

Kórónuveiran er alþakin smásæjum prótínum sem skaga út, svonefndum gaddprótínum. Það eru einmitt þessi gaddprótín sem kórónuveirurnar draga nafn af. Gaddarnir þykja minna á kórónu – corona á latínu.

Spænska veikin, 1918


Enginn veit að spænska veikin er veirusjúkdómur. Með allra nýjustu smásjám má nú með naumindum sjá bakteríur en veirur eru aðeins þúsundasti hluti á við bakteríur að stærð og því ógerlegt að greina þær. En afleiðingarnar af smiti verða fljótlega ljósar.


Frá því að vera alheilbrigður, verður svo fárveikur á jafnvel aðeins hálftíma, að maður er hvorki fær um að standa né ganga. Og meðan sjúklingurinn liggur svona veiklaður vikum saman fá aðrir sjúkdómar frítt spil.


Fái sjúklingurinn lungnabólgu er engin lækning til og dauðinn er líklegasti endirinn.


Yfir sumarið herjar faraldurinn á heiminn en síðan virðist hann losa tökin. Í ágúst og september er lítið um veikindi en um haustið keyrir um þverbak.

Í bestu smásjám var hægt að sjá bakteríur árið 1918. Veirur eins og sú sem olli spænsku veikinni eru aðeins þúsundasti partur af bakteríustærð.

Enginn hefur fulla yfirsýn yfir hversu margir smitast og hve margir deyja en það eru margar milljónir.


Í þróaðri ríkjum er enn ekki til nema dálítill vísir að heilbrigðisþjónustu en í fátækari löndum ná viðvaranir um smitvarnir ekki einu sinni til fólks fyrr en um seinan.


En samfélögin standa saman um að lina þjáningar hinna sjúku.


Frískt fólk gengur milli sjúkra til að hughreysta þá en grunar ekki að það beri sjálft smitið áfram – áður en það veikist sjálft.


Verst af öllu er þó að sjúkdómurinn leggst þyngst á þá sem ættu að vera sterkastir fyrir. Ungt fólk á milli tvítugs og þrítugs sem annars kennir sér aldrei meins, fær nú skyndilega hita, deyr og skilur eftir sig börnin sín sem eiga nú mjög óvissa framtíð.

Kórónuveiran, 2021

 

Til að undirbúa sig undir næsta heimsfaraldur hafa vísindamenn í hundrað ár reynt að læra sem allra mest um heimsfaraldurinn 1918.

 

Árið 1997 tókst meinafræðingi á eftirlaunum, Johan Hultin, að grafa upp fórnarlömb spænsku veikinnar úr sífrera við Brevig Mission í vesturhluta Alaska og ná úr þeim sýnum.

 

Fáum árum síðar voru líffræðingar búnir að kortleggja þessa gömlu veiru í smáatriðum en það er þó enn ráðgáta hvers vegna ungt og hraust fólk varð svona hart úti.

 

Mögulega gæti skýringin verið sú að sjúkdómurinn hafi valdið svonefndum cýtókínastormi.

 

Ónæmiskerfi líkamans ræðst til atlögu við framandi veiru, rétt eins og því er ætlað.
En veiran er svo framandleg að ónæmiskerfið ræðst gegn líkamanum sjálfum. Öflugt ónæmiskerfi getur þannig skyndilega orðið helsti veikleikinn.

Árið 1997 tókst meinafræðingnum Johan Hultin sem þá var kominn á eftirlaun, að ná sýnum úr fórnarlömbum spænsku veikinnar sem grafin voru í sífrera í vesturhluta Alaska. Sýnin notaði hann til að kortleggja þessa banvænu veiru.

Erfðaefni nýju kórónuveirunnar hafði verið raðgreint fáeinum vikum eftir upphaf faraldursins og ekkert bendir til að hún valdi cýtókínastormi.


Flestir sem smitast eru reyndar karlmenn öðru hvoru megin við fertugt en langflest af því fólki sem deyr er í hópi hinna eldri og með fremur ótraust ónæmiskerfi, hjartasjúkdóma eða aðra sjúkdóma áður en það smitast – nákvæmlega eins og gildir um hina venjulegu, árstíðabundnu inflúensu.


Stærsta breytingin á þeim 103 árum sem liðið hafa, er sú að nú er hægt að leggja veikasta fólkið inn á nútímasjúkrahús við góðar aðstæður, lækka hitann með lyfjum, gefa þeim súrefni eða jafnvel hjálpa öndun með öndunarvélum og beita sýklalyfjum ef hefðbundin lungnabólga lætur á sér kræla.

Slæm ráð halda smitinu við


Veirusýkingar á að meðhöndla samkvæmt ráðum lækna – en ekki einhverjum hugdettum nágrannans. Ekkert af þessum ráðum virkar. En hver eru frá 1918 og hver frá 2020? Svörin eru aftast í greininni.


1. Ef þú skolar kverkarnar með edikblönduðu saltvatni, drepur það veirurnar í kokinu og þú veikist ekki.


2. Drekktu vatnssopa á 15 mínútna fresti. Það skolar veirunum niður í magann, þar sem magasýrurnar drepa þær.


3. Smáar silfuragnir verka á sýkla og ef þú tekur sopa af „silfurvatni“ getur það haldið veirunni frá.


4. Börn ættu að sjúga salt upp í nefið. Saltáhrifin eru öflug og valda því að veiran smitast ekki.


5. Hófleg áfengisdrykkja virkar sótthreinsandi og kemur í veg fyrir að veiran nái fótfestu.


6. Reyktu sem oftast pípu eða vindla. Veirur eiga ekki möguleika á að lifa af svo stækan tóbaksreyk.

En ef allir veikjast samtímis hrynur heilbrigðiskerfið undan álaginu og ekki er rými fyrir alla sem veikjast.


Þess vegna hefur víða verið lögð höfuðáhersla á að draga úr útbreiðsluhraðanum og í því sambandi hafa sjónvarp og tölvunet haft afgerandi þýðingu.


Til að ofhlaða ekki heilbrigðiskerfið hafa stjórnvöld víða reynt að fletja smitkúrfuna sem mest.


Þetta má t.d. gera með því að loka skólum og banna samkomur. Með stafrænum miðlum er unnt að deila slíkum boðskap til milljóna manna á fáeinum mínútum og þetta er til muna áhrifaríkara en þegar auglýsingar í blöðum eða plaköt á torgum voru einu færu leiðirnar.


En það fylgja ekki allir reglunum og það hefur ekki tekist að ráða alveg niðurlögum þess vandamáls.

Spænska veikin, 1918


Eftir hryllingshaustið 1918 dregur mjög úr smitum undir lok ársins. Þegar annar faraldur gengur yfir 1919 smitast miklu færri en þá eru mörg þorp og smærri eyjasamfélög orðin býsna mannfá af völdum spænsku veikinnar.


Í Kyrrahafsnýlendunni Þýsku Samóaeyjum er um þriðji hver íbúi fallinn í valinn fyrir inflúensunni.


Norðurlönd sleppa almennt fremur vel. Hérlendis létust um 500 manns og í Danmörku um 15.000.


En sums staðar eru eyjasamfélög svo einangruð að sjúkdómurinn berst ekki þangað. Bandarísku Samóaeyjar – örskammt frá þeim Þýsku – hafa t.d. verið í algerri einangrun og ekkert smit hefur borist þangað.


Þar sem spænska veikin hefur herjað geta íbúar nú andað léttar en fólk situr eftir í verulegu áfalli.


Milljónir látinna foreldra skildu eftir sig munaðarlaus börn. Efnahagslíf í rústum eftir heimsstyrjöld og síðan drepsótt.


Samfélag sem nú þarf að reisa úr rústum.

Kórónuveiran, 2021


Við höfum haft meira en 100 ár til að búa okkur undir heimsfaraldur bráðsmitandi, alvarlegrar og óþekktrar veiru.


Þegar þetta er skrifað stöndum við enn í stríðinu miðju og það er enn ógerlegt að átta sig á hversu mörg mannslíf hin nýja kórónuveira kostar.


Fyrr eða síðar deyr hún væntanlega út af sjálfu sér. Það er ekki óvanalegt að veirur stökkbreytist þannig að þær verði ekki jafn hættulegar og missi þá styrk sinn smám saman þegar fólk verður ónæmt fyrir hættulegri afbrigðunum.


En vísindamenn hafa að sjálfsögðu ekki hugsað sér að bíða bara eftir því að faraldurinn gangi yfir. Um allan heim hafa vísindamenn unnið hörðum höndum að því allt árið að finna nothæf bóluefni sem allra fyrst. Og nú þegar eru komin fram nokkur bóluefni sem farið er að nota.

Svokölluð gaddprótín á yfirborði kórónuveirunnar hafa stökkbreyst þannig að veiran á auðveldara með að komast inn í mannsfrumur.


Yfirborðsprótín veirunnar og sá hluti þess sem tengist mannsfrumum (litaður grænn), er það sem bóluefnin beinast að.

Þann 9. nóvember skýrðu þýska líftæknifyrirtækið BioNTech og bandaríski lyfjaframleiðandinn Pfizer opinberlega frá því að bóluefni þeirra veitti 90% fólks vörn gegn kórónuveirunni. Og nú er byrjað að dreifa því um heimsbyggðina.


Innan við viku síðar kom svipuð yfirlýsing frá bandaríska líftæknifyrirtækinu Moderna. Það bóluefni veitir 95% vörn.


Bæði þessi bóluefni hafa farið í gegnum lokatilraunir á mönnum, svonefndar þriðja fasa tilraunir. Það er þó enn talsverður tími þar til kórónuveiran verður yfirbuguð.

Einmitt núna gengur þriðja bylgja faraldursins yfir heiminn og allar spár gera ráð fyrir að við þurfum áfram að búa við þennan vágest fram á haustið.


En þegar heimsfaraldurinn verður loksins yfirstaðinn stöndum við sterkari en eftir spænsku veikina.


Ríkisstjórnir hafa lagt fram gríðarháar fjárhæðir til að tryggja að þótt efnahagskerfi heimsins sé nú í tómagangi, þá hrynji það ekki.


Og með þeirri þekkingu sem við höfum á viðbrögðum og meðferð sjúkra frá kórónuveirufaraldrinum, erum við miklu betur undirbúin þegar næsta banvæna veira breiðist um heiminn eftir 12, 60 eða 102 ár.

Fáðu svörin: Slæm ráð halda smitinu við

 

1. Ef þú skolar kverkarnar með edikblönduðu saltvatni, drepur það veirurnar í kokinu og þú veikist ekki. (2020).

 

2. Drekktu vatnssopa á 15 mínútna fresti. Það skolar veirunum niður í magann, þar sem magasýrurnar drepa þær. (2020).

 

3. Smáar silfuragnir verka á sýkla og ef þú tekur sopa af „silfurvatni“ getur það haldið veirunni frá. (2020).

 

4. Börn ættu að sjúga salt upp í nefið. Saltáhrifin eru öflug og valda því að veiran smitast ekki. (1918).

 

5. Hófleg áfengisdrykkja virkar sótthreinsandi og kemur í veg fyrir að veiran nái fótfestu. (1918).

 

6. Reyktu sem oftast pípu eða vindla. Veirur eiga ekki möguleika á að lifa af svo stækan tóbaksreyk. (1918).

HÖFUNDUR: Ebbe Rasch

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hanukkah: Kraftaverkahátíð gyðinga

Náttúran

Hvað eru eldur og logar?

Náttúran

Hvernig stendur á því að bæði heitt vatn og kaldur ís fljóta á vatni?

Alheimurinn

Hvað eru norðurljós?

Heilsa

Tilraun: Langvarandi fasta getur haft neikvæð áhrif

Náttúran

Hvað eru heimsálfurnar margar?

Maðurinn

Draumráðningar – Hvað þýða draumar þínir?

Náttúran

Vetrardvali tryggir lífsskilyrði dýra

Maðurinn

Góðir erfðavísar gera andlitið skakkt: Fögnum ósamhverfu!

Tækni

Ný rafhlöðutækni fyrir rafbíla dregur verulega úr hleðslutíma

Maðurinn

Fólk fætt í sveit er betur áttað.

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is