Menning og saga

Aleinn á toppnum

Að klífa Everest án súrefnis stappar nærri sturlun. Að klífa Everest án súrefnis og aleinn er hrein sjálfsmorðstilraun. Það eru viðbrögð flestra þegar Ítalinn Reinhold Messner leggur af stað árið 1980 í einhverja ægilegustu raun í sögu fjallamennsku og úrtölumenn hafa næstum á réttu að standa.

BIRT: 04/11/2014

Breska 19. aldar skáldið William Blake ritaði eitt sinn að miklir atburðir eigi sér stað þegar menn og fjöll mætast. Ítalinn Reinhold Messner hefur tileinkað sér þessi spakmæli, en þau eru honum ekki hugleikin þegar hann að morgni 18. ágúst 1980 rankar við sér á botni djúprar jökulsprungu. Skekinn og skelfingu lostinn starir hann í kringum sig, en í myrkrinu grillir hann varla í útlínur í þessu klakagímaldi.

 

Eins og í hægri endursýningu upplifir hann hrapið á ný. Hann minnist hvernig snjórinn brast undan fótunum og líkaminn og bakpokinn skullu mót ísveggnum í fallinu, en hann hefur enga hugmynd um hve langt er um liðið. Kaldur sviti sprettur fram á enni hans meðan hann fálmar um með höndunum í von um að skynja umhverfið. Svo virðist sem hann hafi stöðvast á lítilli syllu og hann veltir því fyrir sér hvort hann eigi sér undankomu auðið úr greipum fjallsins.

 

„Ef aðeins ég væri með talstöð. Þá gæti ég náð í Nenu,“ segir hann með eftirsjá. Reinhold Messner hafði lagt einn af stað frá efstu búðum í 6.500 m hæð. Eftir í búðunum var bandarískur klifurfélagi hans, hin þrítuga Nena Holguin. Og þrátt fyrir að Messner sé staddur í aðeins 500 m fjarlægð, er það of mikið til að hann geti kallað til hennar. Hann bölvar sjálfum sér. Hvers vegna hafði hann krafist þess að klífa án talstöðvar? Þá minnist hann þess að þetta er einn þáttur í því samkomulagi sem hann hafði náð við sjálfan sig: Aleinn skyldi hann sigrast á Everest með einungis allra nauðsynlegasta búnaði, án talstöðvar og súrefnistækja. Baráttan skyldi vera milli manns og fjalls, milli manneskjunnar og náttúru.

 

Óttasleginn fálmar Messner eftir lukt á hjálmi sínum. Honum til mikils léttis kviknar á henni og hann sér hvar hann er staddur á þunnri veikburða ísbrú sem liggur milli blágrænna ísveggjanna. Átta metrum ofar greinir hann holuna sem hann féll í gegnum og í enn meiri fjarlægð blikar stjarna á næturhimninum. Botn sprungunnar fær hann ekki greint, beggja vegna brúarinnar blasir hengiflugið við.

 

Messner hryllir sig og meðan líkami hans er á hæsta viðbúnaðarstigi einbeitir heilinn sér að mögulegum undankomuleiðum. Hann heitir sjálfum sér að takist honum að komast upp, muni hann hætta við fjallgönguna og aldrei framar klifra einn í svo mikilli hæð. Þetta örvæntingarfulla loforð reynist vera skammlíft, enda leggur hann á ný til atlögu við tindinn þrem dögum síðar.

 

Súrefnisskortur gæti valdið heilaskaða í Messner

 

Reinhold Messner er maður heimsmetanna. Tveimur árum áður, í maí 1978 tókst honum ásamt austurríkismanninum Peter Habeler að klífa Mount Everest án súrefnisbúnaðar, og það afrek – ólíkt hefðbundnum ofhlöðnum og kostnaðarsömum leiðangrum – var talið vera frammistaða sem yrði seint toppuð.

 

 

Á þeim tíma þegar fjallgöngumenn tóku jafnan með sér 50 kg af súrefni á hvern mann í þunna loftinu, var leiðangurinn fyrirfram talinn feigðarflan og líkt við að ferðast til tunglsins án súrefnis. Samkvæmt læknum áttu þeir á hættu að fá varanlegan heilaskaða ef þeir héldu í meira en 8 km hæð án súrefnis, en þrátt fyrir allar aðvaranir stóðust félagarnir áskorunina án þess að kenna sér meins.

 

Í stað þess að njóta sigurvímunnar hélt Messner ári síðar til Kína og fékk leyfi til að leggja aleinn á Everest og þess vegna er málum svo háttað þennan ágústmorgunn árið 1980, að hann stendur frammi fyrir stærstu áskorun lífs síns sem hefur hafist svo hrapalega.

 

Sálarangistin sem þungur baggi

 

Þegar útlitið er hvað svartast kemur Reinhold Messner auga á mögulega undankomuleið. Á hinum vegg sprungunnar er lítil brún, eins konar rampi, sem liggur upp á við. Hann tryggir sér fótfestu og stekkur yfir að veggnum meðan hann heldur niðri í sér andanum. Gegn öllum líkum tekst honum að ná fótfestu á brúninni og fikrar sig óendanlega varfærnislega upp á við með líkamann sem límdan við vegginn. Nokkrum mínútum síðar er Messner kominn upp úr sprungunni. Með bakpokann á öxlunum og ísöxina í höndinni heldur hann kerfisbundið áfram að klifra rétt eins og ekkert hafi í skorist, en liðinn háski nístir merg og bein svo hann verður ennþá árvökulli.

 

Reinhold Messner upplifir sjálfan sig eins og nútíma Sisyfus, manninn sem í grísku goðsögnunum var dæmdur til að rogast með risastóran stein upp fjallshlíð til eilífðarnóns. Sá steinn sem Messner dragnast með er hans eigið sálarástand. Baráttan við fjallið og mótstöðu þess er drifkraftur hans og meðan hann klífur hærra er hann svo meðvitaður um sérhverja hreyfingu að allt annað hættir að vera til – einnig tilhugsunin um að gefast upp.

 

Þegar geislar morgunsólarinnar feykja morgunþokunni burt á Himalaya erfiðar Messner markvisst gegnum snjó og ís. Hann nær skjótt takti þar sem hann tekur sér hvíld eftir hvert fimmtugasta skref og hallar sér fram á skíðastafina. Nístingskuldinn bítur kinn, en veðurútlitið er gott og með heiðbláan himininn í bakgrunni gnæfa snævi þaktir tindar Everest fram 2 km ofar. Haldist veðrið þarf hann einungis tvo daga til að komast þarna upp að eigin mati.

 

Eftir því sem Messner heldur hærra neyðist hann til að hægja á sér. Hæðarmælirinn sýnir nú 7.360 m og í súrefnissnauðu loftinu tæmist líkaminn skjótt af orku. Sérhver hreyfing verður að mestu þrekraun. Lungun soga í sig loftið og göngutakturinn er nú 30 skref með góðri pásu, þar sem hann leggur sífellt mat á aðstæður. Hann saknar þess að hafa engan félaga. Því ekki aðeins er miklu hættulegra og meira krefjandi að vera einn á ferð heldur er sálræna byrðin miklu meiri. Sérhverja hindrun og hættu þarf hann að yfirvinna aleinn. Sú staðreynd íþyngir honum miklu meira en hinn 18 kg þungi bakpoki með tjaldi og vistum sem hann burðast með.

 

Eftir því sem hærra dregur verður styttra á milli áninga og nú neyðist hann til að setjast niður í sérhvert sinn. Það krefst mikillar áreynslu að standa aftur á fætur en hann talar stöðugt í sig kjark. „Aðeins lengra, þú getur þetta. Þess hærra sem þú kemst í dag því minna þarftu að klifra á morgun,“ messar hann yfir sjálfum sér.

 

Í 7.800 m hæð kemur Messner auga á ágætt tjaldstæði þar sem hann trampar niður snjóinn og slær upp sínu 2 kg þunga Goretex tjaldi fyrir nóttina. Klukkan er 3 um eftirmiðdaginn og Messner er harla sáttur við dagsverkið. Hann hafði fyrirhugað að leggja 1.200 m að baki fyrsta daginn en í reynd hefur honum tekist að klífa 1.300 m. Sitjandi í svefnpoka sínum á glerhörðu undirlagi hefst hann handa við að bræða snjó og sjóða vatn í te og súpu. Heldur hefur aukið í vindinn sem lemur nú tjaldið meðan ískristallar skella eins og hagl á ytra byrðinu. Stundum grípur vindurinn í tjaldbotninn og lyftir honum upp og Messner sér ekki fram á að eiga svefnsama nótt. Ekki bætir úr skák að hann getur einungis legið hálfuppréttur á þessari heljargnípu svo hann bíður þess að svefninn yfirbugi hann og frelsi undan óhugnanlegum hugsunum sem blandast saman við myrkrið. Óttinn við snjóflóð hrjáir hann stöðugt og hverfur ekki fyrr en slokknar á honum eins og ljósi undir lágnættið.

 

Rödd hvetur hann til að snúa við

 

Að morgni 19. ágúst er veðurútlitið gott. Vindinn hefur lægt, himinninn er heiðskýr og Messner liggur úthvíldur í tjaldi sínu og gæðir sér á tebolla meðan hann fer yfir verkefni dagsins í huganum.

 

Til að létta sér gönguna hyggst hann skilja eftir allnokkuð af birgðum og búnaði, en þegar hann um níuleytið pakkar niður í bakpokann virðist engu að síður sem hann sé orðinn þyngri en í gær. Skorturinn á súrefni veldur honum síþreytu og þennan morgun tekur það óendanlega langan tíma að koma sér af stað. Messner setur sjálfstýringuna á – hann neitar að hlusta á umkvartanir líkamans og djöful þann sem stöðugt hvíslar í eyra hans að best væri að snúa við. Vonin um að uppfylla ævilangan draum hefur knúið hann upp fjallið og þeim draumi verður hann að fylgja alla leið.
Eins og fjórfætlingur með skíðastafina sem framfætur rogast hann áfram í snjónum sem dýpkar stöðugt þar til hann nær honum upp að mitti. 15 skref, pása, 15 skref, pása. Þrátt fyrir að hann sé ekki enn kominn að brattasta áfanganum gengur ferðin óendanlega hægt. En útsýnið til efstu tinda Everest laðar hann til sín og knýr hann áfram.

 

Of þreyttur til að óttast snjóflóð

 

Þegar líða tekur á daginn skellur þoka á fjallið og þurrkar út helstu kennileiti svo Messner óttast hvað eftir annað að hafa villst af leið. Engu að síður heldur hann ótrauður yfir norðurvegginn þar sem snjóflóð eru tíð. Messner er sér algjörlega meðvitaður um að geta á sérhverri sekúndu þeyst niður fjallið en þar sem hann er svo gjörsamlega örmagna orkar hann ekki einu sinni að hafa áhyggjur af þeirri hættu.

 

Síðla dags er hann orðinn svo aðframkominn að hann nær vart að halda sér uppréttum. Allan daginn hefur hann erfiðað en þó einungis tekist að leggja 400 metra að baki, svo hann er nú staddur í 8.200 m hæð – 650 óendanlega löngum metrum frá toppnum. Með allra síðustu kröftum sínum nær hann þó að slá upp tjaldi á klettasyllu meðan bætir í snjóhríðina, sem eykur á snjóflóðahættuna.

 

Fjölmörgum tebollum síðar snýr tilfinningin smám saman í útlimina og þrátt fyrir að finna vart til svengdar neyðir hann sjálfan sig til að borða dálítinn ost, brauðmola og lítinn skammt af kjúklingi í karrýsósu. Tómar umbúðirnar leggur hann undir svefnpokann enda getur hann pissað í þær um nóttina. Hann skríður í gönguskónum ofan í svefnpoka og mókir. Þegar hann vaknar eftir fremur svefnlausa nótt næsta morgun er hann nánast jafn úrvinda sem fyrr. Liðirnir eru aumir og hálsinn þurr en ekki er hægt að kvarta yfir útsýninu úr tjaldinu: Fyrir ofan hann rís pýramídalagaður tindur Everest, baðaður rauðgullnum töfrablæ.

 

 

„Ætla, ætla ekki. Það er núna eða aldrei. Á morgun er ég of veikburða til að ná toppnum. Annaðhvort – eða. Annaðhvort fer ég upp eða niður.“ Í morgunsárið rökræðir Messner við sjálfan sig um hvort halda skuli förinni áfram og fyrst rétt eftir áttaleytið tekur hann ákvörðun. Tjald, skíðastafir, svefnpoki, bakpoki, allt þetta skilur hann eftir og vopnaður ísöxi og myndavél tekur hann stefnuna á toppinn.

 

Í landslagi af úfnum klöppum, snjó, ís, þoku og skýjum tapar Messner stundum áttum og þegar það gerist metur hann aðstæður í spjalli við ísöxina sem hefur nú leyst bakpokann af hólmi sem ímyndaður klifurfélagi. Brattinn er nú svo mikill að hann skríður bókstaflega niður á við meðan hann heggur þrep í ísinn. Í fyrsta sinn frá því að hann féll í jökulsprunguna finnst honum hann vera í geigvænlegri lífshættu. Sérhver röng hreyfing gæti reynst banvæn og nú virðist sem þyngdaraflið sé sterkara en nokkru sinni. Hann spyrnir broddunum á kaf í klakavegginn og mjakast upp á við.

 

Faðmar myndavélafót á toppnum

 

Án þess að hafa hugmynd um hvaðan kraftarnir koma klifrar Messner tímunum saman. Honum líður eins og vélmenni sem hefur verið forritað til þess eins að halda áfram. Á sérhverju augnabliki vonast hann til að standa á toppnum en hvass fjallshryggurinn virðist endalaus. Nú hefur hann ekki lengur krafta í þær hreyfingar sem þarf til að setjast niður og slappa af. Hann lætur sig bara falla aftur á bak í snjóinn þar sem hann liggur eins og liðið lík.

 

Nú eru liðnar sjö klukkustundir frá því að Messner hélt úr tjaldi sínu og út frá reynslunni fyrir tveimur árum veit hann að tindurinn er skammt undan. Hann getur ekki séð hann, grillir varla í höndina fyrir framan sig og mjakast áfram í blindni meðan snjókoman þurrkar út fótspor hans. Skyndilega er hann nær dottinn um myndavélafót sem kínverskir fjallgöngumenn höfðu skilið eftir á hæsta punkti Everest árið 1975. Rétt eins og það væri langþráð kærasta hans grípur Messner um fótinn og faðmar hann. „Nú er ég hér, það er það eina sem skiptir máli,“ hugsar hann og lítur á klukku sína. Hún sýnir 15.20.

 

Eins og uppvakningur sem lýtur innri rödd bindur hann myndavélina fasta við ísöxi sína svo hann geti tekið mynd af sjálfum sér og varðveitt þetta augnablik til eilífðar. Yfirkominn af þreytu gerir Messner sér vart grein fyrir þessari sögulegu stund, þar sem hann í annað sinn stendur á toppi heims. Í þetta skipti sá fyrsti til að gera það aleinn. Stærsti draumur hans hefur nú ræst en hann finnur hvorki til gleði eða sigurvímu. Það eina sem hann óskar sér er að leggjast niður og gleyma öllu í kringum sig.

 

Rennur niður fjallið eins og í svefni

 

Eftir tæpa þrjá stundarfjórðunga heldur Messner vélrænt niður fjallið. Til að halda sér vakandi leitast hann við að finna lyktina af snjónum, skynja lit bergsins og njóta þeirra ljósgeisla sem þrengja sér endrum og eins milli laga af skýjum og þoku. Hann þarf að hafa hraðann á til að ná til tjaldsins fyrir sólsetur. En þurr hóstinn rífur í lungun og neyðir hann til að æja með fárra metra millibili.

 

Það má vart tæpara standa að hann nái á áfangastað, nokkrum mínútum áður en myrkrið skellur á Everest. Gegn betri vitund hefur hann enga orku til að nærast. Þess í stað lætur hann sér nægja ylinn af gaslogunum meðan hann liggur eins og lifandi lík og íhugar hversu þægilegt það væri nú að gefa sig kuldanum og örmögnuninni á vald.

 

Í morgunskímunni þann 21. ágúst gefst Messner upp á því að sofa. Hann skilur allt eftir í tjaldinu nema bakpokann, skíðastafina og ísöxi og heldur af stað niður á við til Nenu sem bíður í efstu grunnbúðum í 6.500 m hæð.

 

Rétt eins og svefngengill, skeytingarlaus um eigið öryggi lætur hann sig nokkrum sinnum renna á bakinu niður fjallið án þess að hafa hugmynd um hvað er framundan. Morgunsólin hefur mýkt snjóinn og þrátt fyrir að hann sjái fyrir hugskotsjónum sínum blikkandi snjóflóðaviðvaranir skeytir hann engu um þær. Hann vill bara komast niður og það strax. Síðasta áfangann til Nenu rennur Messner heila 120 m niður fjallið áður en hann nær að stöðva sig með ísöxinni. Reikull stígur hann upp og kemur í sama mund auga á Nenu sem hleypur í átt til hans.

 

„Reinhold, hvernig hefur þú það?“ spyr hún áhyggjufull, en fær einungis snökkt sem svar. Sú manneskja sem að Nena faðmar er á heljarþröm. Grátandi fellur hann á hnén og grúfir andlitið í höndunum.

 

„Allt er í lagi, Reinhold. Allt er í lagi. Tjaldið er hér rétt hjá,“ segir Nena róandi og stýrir félaga sínum inn í tjaldið.

 

Það er ekki fyrr en eftir nokkrar klukkustundir sem Messner hefur náð sér að því marki að hann fái mælt. Fyrstu orðin sem hann mælir fram hljóma eins og bergmál frá því fyrir þremur dögum þegar hann stóð á ísbrúnni í jökulsprungunni djúpu: „Þetta geri ég aldrei aftur. Ég klíf aldrei aleinn fjall á ný – ég hef náð mínum mörkum.“

 

 

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hanukkah: Kraftaverkahátíð gyðinga

Náttúran

Hvað eru eldur og logar?

Náttúran

Hvernig stendur á því að bæði heitt vatn og kaldur ís fljóta á vatni?

Alheimurinn

Hvað eru norðurljós?

Heilsa

Tilraun: Langvarandi fasta getur haft neikvæð áhrif

Náttúran

Hvað eru heimsálfurnar margar?

Maðurinn

Draumráðningar – Hvað þýða draumar þínir?

Náttúran

Vetrardvali tryggir lífsskilyrði dýra

Maðurinn

Góðir erfðavísar gera andlitið skakkt: Fögnum ósamhverfu!

Tækni

Ný rafhlöðutækni fyrir rafbíla dregur verulega úr hleðslutíma

Maðurinn

Fólk fætt í sveit er betur áttað.

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is