Anakondan er stærsta slanga heims
Græna anakondan er þyngsta slanga heims.
Hún getur vegið rösklega 200 kíló og stærstu slöngur þessarar tegundar eru með ummál á stærð við dráttarvélarhjólbarða.
Anakondan verður hins vegar að lúta í lægra haldi fyrir netpýtonslöngunni, Python reticulatus, hvað lengdina snertir. Netpýtonslangan er nefnilega lengsta slanga heims og getur orðið allt að tíu metra löng.
Myndband: Byggingaverkamenn rákust á risavaxna anakondu í helli einum
Árið 2016 rákust byggingaverkamenn í Brasilíu á risavaxna slöngu eftir að hafa sprengt upp helli. Anakondan vó að sögn mannanna 400 kg og var alls tíu metra löng sem táknar að þarna hafi fundist stærsta kyrkislanga sinnar tegundar. Þess má þó geta að aldrei tókst að staðfesta sannleiksgildi stærðarinnar.
Stærsta anakonda sem vitað er um er sú sem var skotin í suðurhluta Brasilíu árið 1960.
Sú var 8,45 metrar á lengd, 1,11 metrar í ummál og vó alls 227 kíló.
Staðreyndir um grænu anakonduna
- Vísindaheiti: Eunectes murinus.
- Ætt: Kyrkislanga.
- Fæða: Kjötæta.
- Ævilengd: 10 ár úti í náttúrunni en allt að 30 ár í búri.
- Lengd: 6-8,45 metrar.
- Þyngd: Allt að 200 kíló.
- Búsvæði: Suður-Ameríka.
- Sérlegir eiginleikar: Getur haldið í sér andanum í vatni í allt að 45 mínútur og deyðir bráðina með því að þrýsta svo fast að hjartað hættir að dæla blóði um líkamann.
HVAR LIFA ANAKONDUR?
Anakondur lifa fyrst og fremst í mýrlendi í grennd við stærstu árnar í frumskógum og regnskógum Suður-Ameríku.
Fjórar helstu tegundirnar:
- Bólivísk-anakonda
- Svartflekkótt anakonda
- Gul anakonda
- Græn anakonda.
Stóra, græna anakondan lifir í norðanverðri Suður-Ameríku í löndunum Venesúela, Kólumbíu, Brasilíu, Ekvador, Bólivíu, Perú, Gvæana og Trínídad.
Gula anakondan lifir á suðlægari slóðum en sú græna og er hana að finna í Bólivíu, Paragvæ, Úrúgvæ, vesturhluta Brasilíu og norðanverðri Argentínu.
Svartflekkótta anakondan lifir í norðanverðri Brasilíu og Frönsku Gvæjana en bólivíska anakondan lifir hins vegar, líkt og heitið gefur til kynna, í Bólivíu.
Anakondan er lengsta slanga heims og getur vegið rúmlega 200 kg. Anakondur verða að öllu jöfnu ekki eldri en tíu ára úti í náttúrunni en geta náð 30 ára aldri í búrum.
Frá árinu 2003 hafa græna og gula anakondan einnig tekið sér búsetu í mýrlendinu Everglades í Flórída í Bandaríkjunum.
Sennilegt þykir að tegundirnar tvær hafi sloppið úr búrum í Bandaríkjunum og náð að fjölga sér í Everglades.
Árið 2019 voru samþykkt ný lög í Flórída sem banna innflutning á anakondum og þá er enn fremur bannað að hafa þær sem gæludýr.
Á kortinu má sjá náttúrulegt kjörlendi anakondunnar. Slöngur þessar er einkum að finna í mýrlendi í grennd við stærstu árnar á Amasónsvæðinu.
HVAÐ ÉTA ANAKONDUR?
Græna anakondan á gríðarlega stærð sína að þakka fjölbreyttri fæðu sem samanstendur af allt frá fuglum og skjaldbökum yfir í dádýr, tapíra og jafnvel krókódíla og jagúara.
Þrátt fyrir að slöngurnar kallist kyrkislöngur drepa þær ekki bráðina með því að kyrkja hana.
Þess í stað þrýstir slangan svo fast utan um bráðina að æðarnar lokast. Mesti þrýstingur sem mælst hefur af völdum anakondu nam 90 psi sem samsvarar því að við værum með kyrrstæðan, lítinn strætisvagn ofan á brjóstkassanum.
Þessi gríðarlegi þrýstingur kemur í veg fyrir að hjartað geti dælt blóðinu um líkamann og að lokum stöðvast það. Þegar svo anakondan hefur murkað lífið úr bráðinni, opnar hún skoltinn upp á gátt og gleypir hana í heilu lagi.
Anakondur geta gleypt bráð sem er helmingi stærri en þær sjálfar. Sé bráðin nægilega stór getur hún enst anakondunni sem fæða í heilt ár.
Myndband: Hér má sjá anakondu gubba aftur upp kú
Anakondur geta étið nánast hvað sem er en þó var þessi kýr meira en anakondan réð við. Til eru dæmi um anakondur sem hafa sprungið og drepist eftir að hafa reynt að innbyrða allt of stóra krókódíla.
LEGGJA ANAKONDUR MENN SÉR TIL MUNNS?
Engar sannanir eru til fyrir því að anakondur hafi drepið og étið menn, þrátt fyrir sögusagnir um að fólk hafi endað í maganum á anakondum, einkum í Suður-Ameríku.
Miðað við stærð dýranna sem anakondur geta drepið er hins vegar ýmislegt sem gefur til kynna að þessi stærsta slanga heims geti hæglega drepið fullvaxinn mann.
Hvort slangan myndi jafnframt geta gleypt mann gegnir hins vegar öðru máli. Margir vísindamenn hafa bent á að breiðar axlir okkar gætu reynst hreyfanlegum kjálkum anakondunnar ofraun.
Árið 2014 ákvað kvikmyndagerðarmaðurinn og slöngufræðingurinn Paul Rosolie að reyna að komast að raun um hvort anakondur gætu hugsanlega gleypt menn.
Líkt og flestar aðrar slöngur er anakondan fær um að losa kjálkana í sundur með teygjanlegum liðböndum þegar bráðin er gleypt. Þessi sveigjanleiki gerir það að verkum að stærsta slanga heims getur gleypt dýr sem eru álíka sver og sverasti staðurinn á bol hennar. Ef við mennirnir byggjum yfir sama eiginleika ættum við að geta gleypt kind í einum bita.
Markmiðið með þessari stórfurðulegu tilraun var jafnframt að taka mynd af innanverðri slöngunni til að rannsaka getu hennar til að kremja bráðina og gera sér betur grein fyrir veiðiaðferð hennar.
„Anakondan er sú slöngutegund sem hvað mestum ótta veldur á gjörvöllu Amasónsvæðinu,“ sagði Paul Rosolie, skömmu áður en hann klæddist sérstaklega útbúnum hlífðarbúningi, útötuðum í svínsblóði sem átti að gera honum kleift að gera tilraunina án þess að honum eða slöngunni yrði meint af.
Tilraunin tókst ekki sem skyldi.
Eftir örfáar sekúndur var anakondan í þann veginn að brjóta á honum handlegginn. Paul Rosolie virkjaði öryggisteymið og tókst „aðeins“ að stinga efsta hluta höfuðsins inn í kjaft slöngunnar.
Fimm stærstu slöngur heims
- Anakondur
- Mesta þyngd: 227 kíló
- Lengd: 6-9 metrar
- Búrmísk pýtonslanga
- Mesta þyngd: 182,8 kíló
- Lengd: 2-5,6 metrar
- Netpýtonslanga
- Mesta þyngd: 160 kíló
- Lengd: 3-10 metrar
- Klettapýtonslanga
- Mesta þyngd: 113 kíló
- Lengd: 2,5-7,5 metrar
- Tígrispýtonslanga
- Mesta þyngd: 91 kíló
- Lengd: 4,6-6,4 metrar
ERU ANAKONDUR Í ÚTRÝMINGARHÆTTU?
Anakondur eru allra efst í fæðukeðjunni og eiga sér enga náttúrulega fjendur.
Þessi stærsta slanga heims er ekki í útrýmingarhættu sem stendur og stærð stofnsins helst nokkuð stöðug. Þetta táknar þó ekki að þessi risavaxna kyrkislanga geti lifað óttalausu lífi.
Anakondur eru reglulega drepnar af mönnum. Sumir drepa slöngurnar vegna skinnsins sem er notað í skreytingar eða sem leður.
Aðrir drepa slöngurnar af ótta við að þeir sjálfir kynnu ella að verða þeim að bráð.
Helsta ógnin sem steðjar að anakondunum er þó fólgin í stöðugri eyðingu regnskógarins á Amasónsvæðinu en búsvæði slangnanna hverfa um leið og skógunum er eytt.
Frá því í ágúst 2020 þar til í júlí 2021 var 10.476 km2 af regnskógunum á Amasónsvæðinu eytt. Þetta var 57 prósent aukning frá því árinu áður.
TÍTANÓBÓSLANGA - STÆRSTA SLANGA SEM LIFAÐ HEFUR
Enginn vafi leikur á því að anakondan sem vegur rösklega 200 kíló, er stærsta núlifandi slangan en þessi risaslanga bliknar þó í samanburði við forsögulega tröllaslöngu sem hlykkjaðist í gegnum regnskógana í Kólumbíu fyrir einum 60 milljón árum.
Risaslangan vó heilt tonn
Árið 2009 gróf hópur fornleifafræðinga upp nokkra steingervinga sem þeir höfðu fundið í kolanámu í Kólumbíu.
Eftir að hafa rannsakað hryggjarliðina gátu þeir slegið því föstu að steingervingarnir tilheyrðu útdauðri risaslöngu sem hefði verið skyld kóngabóaslöngum, pýtonslöngum og anakondum.
„Við bárum hryggjarliðina saman við nútímaslöngu og enginn vafi lék á því að beinin ættu rætur að rekja til slöngu. Við gerðum okkur síðan grein fyrir að slangan hefði ekki einvörðungu verið löng, heldur hefði verið um að ræða þá stærstu sem fundist hefði,“ sagði steingervingafræðingurinn Alex Hastings í heimildaþættinum „Risaslanga fortíðarinnar“.
Títanóbóaslanga var ekki einatt stærsta slanga sem uppi hefur verið, heldur var hún jafnframt stærsta hryggdýr jarðar eftir að risaeðlurnar hurfu af sjónarsviðinu.
Þessi forsögulega slanga sem kallaðist títanóbóaslanga, var alls 13 metrar á lengd og vó hvorki meira né minna en eitt tonn.
Fornleifafræðingar báru steingerð bein úr títanóbóaslöngu saman við líffæri annarra lifandi og útdauðra slöngutegunda. Með þessu móti tókst þeim að endurgera títanóbóaslönguna í fullri líkamsstærð.