Rafræn augnlinsa gefur nú eiganda sínum færi á að vafra á netinu án tillits til þess hvar hann er staddur.
Þetta hljómar reyndar líkast vísindaskáldskap, en þróunarstarf við Washington háskóla er á góðri leið með að gera þetta að blákaldri staðreynd.
Linsan virkar eins og venjuleg linsa en er að auki búin næfurþunnri rafrás og rauðum ljósdíóðum.
Nú er verið að reyna linsurnar á kanínum. Þær eru búnar þráðlausu loftneti og geta því átt samskipti við net.
Í framtíðinni sjá vísindamennirnir fyrir sér að linsurnar megi t.d. nota til að horfa á kvikmynd án þess að þurfa skjá.