Nú er kvikasilfur notað til að binda gull og soga það út þar sem erfitt er að komast að. En kvikasilfur er eitrað og vísindamenn leita því nýrra leiða til að vinna gull á óaðgengilegum stöðum. Nú kynni lausnin að vera fundin.
Bakterían C. metallidurans hefur þróað sína eigin aðferð til að meðhöndla þungmálma og lifir þess vegna af þar sem aðrar lífverur halda sér fjarri.
Engin samkeppni
Án samkeppni frá öðrum örverum þrífast bakteríurnar vel í jarðlögum þar sem mikið er um þungmálma. Öfugt við aðrar örverur getur C. metallidurans losað sig við þungmálma, sem fyrir bragðið safnast ekki upp í lífverunni.
Hópur þýskra og ástralskra vísindamanna hefur nú uppgötvað hvernig bakterían fer að. Um er að ræða flókið samspil sérstakra ensíma bakteríanna og málmanna kopars og gulls.
Ensími dælir út gulli
Rétt eins og önnur dýr þarf bakterían á kopar að halda til að halda lífi, en mikið magn er hins vegar eitrað. Þegar mikið af kopar berst inn í bakteríuna dælir hún honum út og notar til þess sérstakt ensím. En séu gullfrumeindir líka til staðar, bregst bakterían öðru vísi við.
Gull- og kopar-blandan er eitraðri en málmarnir eru hvor um sig og því kemur annað ensím til sögunnar. Þetta ensím breytir formi málmanna þannig að eituráhrif þeirra minnka og þeir komast ekki jafnlangt inn í bakteríuna.
Þess í stað er koparnum dælt beint út og hann dregur gullið með sér. Þannig safnast gullið í litla, en vinnanlega klumpa á yfirborði bakteríunnar.