Baðhandklæðið þitt er eins konar hlaðborð með raka næringu fyrir bakteríur sem berast af líkamanum í handklæðið. Þess vegna er mælt með að baðhandklæði séu þvegin oft í viku.
Þessi skýru skilaboð koma frá Philip Tierno sem stundar rannsóknir í örveru- og meinafræði við læknadeild New York-háskóla, í viðtali við Tech Insider.
Bakteríunammi
Baðhandklæði eru yfirleitt kjörstaður fyrir bakteríur: Þau eru þykk og halda því vel bæði hita og raka og ekki síst bera þau í sér mikla næringu í formi dauðra húðfrumna.
Sjálfar bakteríurnar koma af líkama þínum. Í hvert sinn sem þú þurrkar þér með handklæðinu berast í það – auk dauðra húðfrumna – ýmsir vessar, svo sem úr munnvatni, sárum, endaþarmi og þvagrás. Og í þessum vessum er auðvitað talsvert af bakteríum.
Við þetta geta svo bæst smásæir dropar sem berast frá klósettinu þegar þú sturtar niður en slíkir úðadropar berast um allt baðherbergið.
Handklæðið á að vera vel þurrt
Philip Tierno kemst að þeirri niðurstöðu að hafi maður aðstöðu til að þurrka handklæðið vel eftir hverja notkun, sé nægjanlegt að þvo það eftir þriðju hverja notkun.
Hengi maður handklæðið hins vegar bara á snaga í illa loftuðu baðherbergi, þar sem það þornar hægt á kannski hálfum sólarhring, þarf að þvo það oftar eða ekki sjaldnar en í annað hvert skipti sem það er notað.
Sameiginleg handklæði geta borið staffýlókokka
Reyndar fer því fjarri að við séum öll dauð úr kýlapest þótt við þvoum baðhandklæðin ekki eins oft og best væri. Ástæðan er ekki síst sú að það eru fyrst og fremst okkar eigin bakteríur sem fjölga sér í baðhandklæðinu.
Og þótt bakteríurnar dafni þar vel er okkar eigin bakteríuflóra okkur yfirleitt alveg óskaðleg.
Þú getur hins vegar veikst af bakteríum frá öðrum. Noti fleiri sama baðhandklæðið geta t.d. fótasveppir, staffýlókokkar eða bólgur smitast með handklæðinu.
Í þau handklæði sem við notum til að þurrka hendurnar, berast ekki jafn margvíslegar bakteríur en þau ætti samt sem áður að þvo nokkuð oft, því þessum handklæðum deilum við með öðrum.