Lifandi Saga

Barbarossa: Illskeyttur sjóræningi soldánsins fór ránshendi á Miðjarðarhafi

Ottómanar voru landkrabbar en með því að ráða til sín sjóræningja tókst þeim að ná stjórn yfir Miðjarðarhafinu. Hinum grimmilega sjóræningjaskipstjóra Barbarossa tókst að stækka til muna ríki soldánsins á meðan hann beið þess að geta hefnt bræðra sinna.

BIRT: 03/12/2023

Floti soldánsins Súleimans mikla lá í vari í Artaflóanum við vesturströnd Grikklands. Flotinn taldi alls 122 skip og yfirstjórn yfir þeim hafði maður sem allir Evrópubúar óttuðust og kölluðu Barbarossa, þ.e. Rauðskegg.

 

Í Ottómanveldinu bar yfirflotaforinginn hins vegar hið virðulega heiti Khayr al-Din (verndari trúarinnar), því Ottómanar háðu heilagt stríð gegn kristnum mönnum í Evrópu og Barbarossa var járnkrumla soldánsins á hafinu.

 

Barbarossa hafði skipað svo fyrir að flota hans skyldi siglt inn á Artaflóann en innsiglingar þessarar þröngu siglingaleiðar var gætt úr tveimur víggirtum virkjum Ottómana: Preveza og Actium.

 

Stór floti kristinna manna umkringdi skipin en áhafnirnar þorðu ekki að voga sér inn á flóann af ótta við fallbyssurnar í virkinu. Að nokkurra daga biðtíma liðnum kaus sjóræninginn lævísi að ráðast til atlögu á hagstæðu augnabliki.

 

Algert logn var að morgni þess 28. september 1538 og slíkt veður hentaði vel galeiðum Ottómananna sem róið var af þrælum. Stór hluti hins kristna flota samanstóð af risavöxnum seglskipum sem lágu hreyfingarlaus í logninu úti á sjónum, án þess að haggast.

Ottómanaveldið árið 1516: Preveza (1) er staðsett á grísku vesturströndinni og tilheyrði konungsríki soldánsins. Barbarossa fæddist á eyjunni Lesbos (2) og kom síðar til Konstantínópel (3). Sem sjóræningi réðst hann meðal annars á Ródos (4), Fondi (5) og Túnis (6). Ásamt bræðrum sínum lagði hann undir sig ríki með Algeirsborg (7) sem höfuðborg þess.

Barbarossa fyrirskipaði að stefnistrjónunum á galeiðum hans skyldi siglt inn í skip óvinarins til að brjóta á þau göt og síðan skyldu hermenn sendir um borð í skip þeirra kristnu og freista þess að ná völdum yfir þeim.

 

Hinn gríðarstóri kristilegi floti sem páfinn hafði lofað að myndi hreinsa Miðjarðarhafið af þeim múslimum sem þar væri að finna, leystist upp og þegar vind tók að hreyfa á nýjan leik flúðu áhafnir skipanna.

 

Barbarossa hafði séð soldáninum fyrir mikilvægasta sigrinum á hafi til þessa.

 

Bardaginn við Preveza tryggði Ottómönum yfirráð yfir Miðjarðarhafinu næstu þrjá áratugina og gerði Barbarossa kleift að ná fram þeirri blóðugu hefnd sem hann alla ævi hafði þráð en kristnir menn höfðu myrt bræður hans.

 

Sonur pottagerðarmannsins gerðist sjóræningi

Barbarossa fæddist á eynni Lesbos í Eyjahafi nærri árinu 1478. Faðir hans var uppgjafahermaður úr riddaraliði Ottómana og framfleytti sér sem pottagerðarmaður.

 

Fjórða og jafnframt yngsta son sinn, nefndi faðirinn Hizir en ekkert benti til þess að sonurinn ætti eftir að verða „helsti sjóræningjaforingi heims“, sá sem margir sagnfræðingar í dag kalla Rauðskegg.

 

Þegar Hizir óx úr grasi hóf hann, ásamt bræðrum sínum, að selja potta og krukkur föðurins til Konstantínópel (sem síðar meir kallaðist Istanbúl) þar sem hægt var að selja varninginn á mörkuðum.

Í Konstantínópel hitti Barbarossa sjóræningja sem seldu þræla. Sjóræningjarnir rændu kristnum skipum – sérstaklega meðfram ströndum Spánar – og sigldu herfangi sínu til helstu verslunarborga Ottómanveldis.

Í höfuðborg Ottómanveldisins kynntust bræðurnir sjóræningjum frá Norður-Afríku sem seldu þræla og ránsfeng. Norður-Afríka kallaðist „strönd villimannanna“ en augun ætluðu út úr Hizir og bræðrum hans þegar þeir börðu augum gullið sem sjóræningjarnir höfðu rænt úr spænskum skipum sem voru á leið heim frá Suður-Ameríku.

 

Auðævin um borð í skipum trúleysingjanna freistuðu Hizirs og bræðra hans, með þeim afleiðingum að þeir ákváðu að leggja fyrir sig sjórán árið 1505. Næstu 12 árin eftir þetta kynntust þeir öllum krókum og kimum Miðjarðarhafsins og rændu skip kristinna manna.

 

Þeir höfðu heilmikið upp úr krafsinu en sjónræningjalífið var að sama skapi varhugavert. Einn bræðranna lét lífið snemma á þessu tímabili, áður en elsti bróðirinn Oruç lagði undir sig hafnarborgina Algeirsborg við strönd Norður-Afríku og breytti henni í vel varið sjóræningjabæli.

 

Elsti bróðirinn, Oruç, var rauðskeggjaður og sá fyrsti sem gekk undir heitinu Barbarossa meðal óvinarins en hann sigldi til Konstantínópel árið 1517. Þar bauð hann soldáninum að innlima sjóræningjabæli sitt í keisaradæmið ef hann samþykkti að tilnefna sig sem landstjóra yfir nýja héraðinu. Soldáninn þáði boð hans.

„Oruç barðist eins og ljón þar til yfir lauk.“
Spænski munkurinn Diego de Haedo í króníku sinni árið 1612.“

Með titlinum fylgdi jafnframt ábyrgðin á að verja héraðið og þetta átti eftir að draga tvo eftirlifandi bræður Hizirs til dauða. Ránsferðir þeirra fóru að fara fyrir brjóstið á Karli 1. Spánarkonungi og svo fór að hann sigldi árið 1518 með 10.000 manna her til Afríku.

 

Þeir stigu á land og gengu í átt til Algeirsborgar sem gerði það að verkum að Oruç neyddist til að berjast fjarri sjónum.

 

Hann gerði sér virki í borginni Tlemcen, 500 km vestur af Algeirsborg, ásamt 6.500 hermönnum en Spánverjarnir réðust inn í borgina.

 

„Oruç barðist eins og ljón þar til yfir lauk“, ritaði spænski munkurinn Diego de Haedo í króníku sinni. Þriðji bróðir Hizirs, að nafni Ishak, lá einnig örendur inni í rústunum.

 

Fréttirnar af ósigrinum ollu því að Hizir flúði frá Alsír. Þegar strönd Norður-Afríku var í þann veginn að hverfa sjónum sór hann þess að hefna sín grimmilega á öllum kristnum mönnum. Eiður þessi átti í raun eftir að breyta allri mannkynssögunni.

 

3.000 lík flutu í sjónum

Með sér á flóttanum hafði Hizir einungis tvö skip og nokkra dygga sjóræningja en ekki leið á löngu áður en honum hafði tekist að sanka að sér dugmiklum flota af sjóræningjaskútum.

Hluti Oghuz þjóðarinnar flutti til Litlu-Asíu (1) en settust aðrir að við Kaspíahafið (2). Í Túrkmenistan bjuggu margir þeirra enn í svokölluðum ,,júrtum“ (kringlótt tjöld) í upphafi 18. aldar.

Ottómanar komu frá gresjunum í Asíu

Litla-Asía var hluti af Rómarveldi og austrómverska ríkinu í 1.200 ár. Tyrkneskumælandi þjóðir settust ekki að á svæðinu fyrr en á miðöldum.

 

Svonefndar Oghuz-þjóðir höfðu búið á sléttunum milli Aralvatns og Kaspíahafs svo öldum skipti eða þar til Mongólar stökktu þeim á flótta. Á 11. öld fór svo að bera á tyrkneskumælandi reiðmönnum í Litlu-Asíu.

 

Líkt og Mongólar, bjó Oghuz-þjóðin í hringlaga tjöldum, nærðust á kaplamjólk og átu hrossakjöt. Þeir settust að þar sem nú heitir Anatólía, lögðu hirðingjalífið á hilluna og fóru að stunda landbúnað.

 

Tengslin við Abbasid-kalífadæmið, þar sem íbúarnir voru múslímar og náði yfir stóran hluta af Austurlöndum nær, gerðu það að verkum að Oghuz-þjóðflokkurinn snerist til Múhameðstrúar á 12. öld.

 

Þegar hið kristna býsanska ríki leið undir lok settu Oghuz-þjóðirnar á laggirnar eigin furstadæmi meðfram Svartahafinu.

 

Einn helsti furstinn hét Ósman (1280-1299) en ríki hans teygði sig í átt suður frá Konstantínópel. Græðgi réð því að stríðsmenn söfnuðust um hann og lögðu upp í ránsferðir með honum á býsönskum svæðum.

 

Ránsferðirnar báru það ríkulegan ávöxt að afkomendum Ósmans tókst að leggja undir sig alla Litlu-Asíu og suðurhluta Balkanskaga á 14. og 15. öld.

 

Þetta sívaxandi ríki kallaðist stundum Ósmanska ríkið í höfuðið á Ósman en kallast nú oftast Ottómanveldið eða einfaldlega Tyrkjaveldi.

Auk þess að erfa eftir bróður sinn sjóræningjaskip erfði Hizir jafnframt sjóræningjaheiti hans og varð þannig hinn nýi Barbarossa, þrátt fyrir að skarta alls ekki rauðu skeggi. Og þarna hófst hann handa við að herja á skip á Miðjarðarhafinu.

 

„Hann réðst inn á strendur Spánar, brenndi, rændi og ruplaði, auk þess að taka þræla“, segir í króniku Diego de Haedos.

 

Þúsundir sjóræningja gengu til liðs við Barbarossa en ári síðar sneri hann aftur til Alsír og hrakti Spánverjana þaðan. Alls 3.000 kristnir menn voru teknir til fanga og þegar spænski konungurinn bauðst til að greiða lausnargjald fyrir þá hafnaði Barbarossa boði hans og lét taka þá alla af lífi. Líkunum lét hann kasta í sjóinn.

 

Þrátt fyrir sigurinn gerði Barbarossa sér grein fyrir að hann þyrfti að mynda sterkt bandalag við aðra þjóð ef honum ætti að takast að halda Spánverjum frá Norður-Afríku og í því skyni leitaði hann á náðir soldánsins, líkt og eldri bróðir hans á sínum tíma.

 

„Hann sendi skip til Konstantínópel með bréf til soldáns Ottómana, svo og dýrmætum gjöfum til hans, helstu ráðgjafa hans og einnig handa eftirlætishjákonum hans“, ritaði de Haedo.

 

Soldáninn Selim 1. útnefndi Barbarossa sem landstjóra og sjóræninginn fagnaði nafnbótinni með því að ráðast á franskar hafnarborgir meðfram frönsku suðurströndinni og ræna þar og rupla.

Málverk frá 16. öld af Barbarossa eftir óþekktan evrópskan listmálara. Listamaðurinn hafði greinilega aldrei hitt sjóræningjann því hann málaði hann með rautt skegg.

Árið 1520 erfði Súleiman mikli krúnuna eftir dag föður síns og hinn nýi soldán ákvað að ögra Evrópu á sjó úti. Barbarossa átti eftir að gegna lykilhlutverki í áætluninni.

 

Ræningjar hraktir á flótta

Áratugum saman höfðu Ottómanar mannað fátæklegan flota sinn með því að pína þegna frá þeim svæðum Balkanskagans sem keisaradæmið hafði lagt undir sig, til að gerast áhafnarmeðlimir. Áhafnirnar samanstóðu þá gjarnan af Grikkjum, Albönum og Króötum úr fjallahéruðunum sem margir hverjir höfðu enga reynslu af sjómennsku.

 

Með því að tengja Barbarossa enn frekar soldáninum gátu Ottómanar nú nýtt sér reynslu hans af stríðsrekstri til sjós. Soldáninn fór að ráðum Barbarossa og lét bæði smíða sér stór stríðsskip, svo og minni skip með stefnistrjónu að framanverðu og nokkrum fallbyssum. Óvinunum reyndist erfitt að hæfa hraðskreið fleyin með fallbyssum sínum.

 

Nýi flotinn hans Súleimans var mannaður gamalreyndum sjóræningjum en honum var fyrst beitt árið 1522 gegn Jóhannesarriddurum.

5 ástæður fyrir vexti Tyrkjaveldis

Ottómanveldið breyttist úr litlu konungdæmi rétt fyrir sunnan Konstantínópel yfir í Ottómanveldið og á 16. öld var ríkið í raun orðið að stórveldi. Stórveldi soldánsins náði yfir 20 milljón km². Ástæða þessa mikla vaxtar var ekki hvað síst silkið.

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Jóhannesarriddararnir á Ródos voru sjóræningjar af verstu gerð sem rændu ógrynni verslunarskipa af Ottómönum og höfðu ránsfengi sína með sér í virki sitt á eynni. Ránsferðir þeirra urðu til þess að Súleiman mikli sá sig knúinn til að senda stórmeistara riddaranna, Philippe de Villiers de L’Isle-Adam, eftirfarandi bréf:

 

„Þolinmæði mín er á þrotum. Ég hef fengið mig fullsaddan af móðgunum þínum og fólk mitt er orðið þreytt á árásum þínum. Ef þú lætur mér eftir Ródos mun ég þyrma lífi þínu en veljir þú stríð verður lífi þínu ekki þyrmt“.

 

Þegar stórmeistarinn brást ekki við sendi soldáninn hinn nýja flota sinn sem samanstóð af 100.000 hermönnum, til eyjarinnar. Eftir sex mánaða fyrirsát neyddist stórmeistarinn til að taka upp viðræður en þeim lyktaði á þann veg að Jóhannesarriddararnir yfirgáfu Ródos.

 

Allur austurhluti Miðjarðarhafsins laut nú yfirráðum soldánsins og herstyrkur til sjávar var ein helsta forsenda þess að heyja mætti stríð. Vegir voru bæði fáir og vondir þegar þarna var komið sögu og fyrir vikið þurfti iðulega að flytja fallbyssur, hermenn og birgðir sjóleiðina.

Skip Barbarossa sigldu m.a. úrrvalssveitum soldánns, svokölluðum janisörrum, til Ródos.

Á meðan páfinn formælti Súleiman og kallaði hann „fjandmann Krists“, réðust Ottómanar inn í Ungverjaland og árið 1529 lögðu þeir Vínarborg undir sig um stundarsakir. Að tveimur vikum liðnum neyddust hersveitir soldánsins hins vegar til að lúta í lægra haldi og hörfa.

 

Spænski konungurinn gerði sér grein fyrir að hann yrði að stökkva Ottómönum á flótta á haf út ef honum ætti að takast að tryggja stórveldi sitt.

 

Konungurinn var jafnframt keisari yfir þýsk-rómverska ríkinu sem auk Spánar fól í sér Austurríki, hluta Þýskalands, Holland, suðurhluta Ítalíu, svo og nýlendur í hinni nýfundnu Ameríku.

 

Fögur greifynja skyldi handtekin

Í því skyni að veikja varnir Súleimans mikla þurfti að koma Barbarossa fyrir kattarnef. Árið 1531 sendi keisarinn fyrir vikið flotaforingjann Andrea Doria og 40 skipa flota af stað frá Genúa á Ítalíu til Alsír með það í huga að leggja undir sig hérað sjóræningjans.

 

Alls 1.500 hermenn réðust inn í hafnarborgina Cherchell sem er í 85 km fjarlægð frá Algeirsborg. Hermennirnir biðu með að ræna borgina þar til þeir hefðu náð völdum yfir henni allri en þá veittu sjóræningjar viðspyrnu sem átti eftir að kosta eina 900 Genúabúa lífið.

 

Stuttu síðar hörfaði floti þeirra kristnu og Barbarossa gat haldið ránsferðum sínum áfram. Þetta sama haust réðst hann á Miðjarðarhafsströnd Spánar, svo og eyjar úti fyrir Toulon í Suður-Frakklandi.

Undir stjórn Sultan Süleyman hins mikla (1520-1566) höfðu tyrknesk skip yfirráð yfir Miðjarðarhafinu sem og Rauðahafinu og Persaflóa.

Árið 1533 var Barbarossa svo kallaður til Konstantínópel. Stórvesír Ottómana (annar valdamesti maður ríkisins) mælti með því að soldán tilnefndi sjóræningjann sem „Kapudan-ı Derya“ en svo kallaðist yfirflotaforinginn yfir gjörvöllum flota Ottómana:

 

„Þetta er svo sannarlega maður hafsins. Hikið ekki við að gera hann að yfirmanni flotans“.

 

Sjóræninginn fagnaði nafnbótinni með djarflegri ránsferð er hann sigldi 200 skipum inn í Napólíflóann.

 

„Vesalings kristnu mönnunum sem töldu sig vera algerlega óhulta, brá verulega í brún. Margar borgir, bæir og þorp voru rænd og ógrynni manna, kvenna og barna, svo og brjóstmylkinga, var rænt og þau hneppt í skelfilega ánauð“, ritaði Diego de Haedo.

 

Barbarossa var ekki aðeins á höttunum eftir þrælum fyrir þrælamarkaðinn í Konstantínópel, heldur gerði hann jafnframt tilraun til að ræna fegurstu konunni í allri Evrópu, Giulia Gonzaga.

 

Ætlunin var að sigla með 21 árs gamla greifynjuna af Fondi til Konstantínópel og færa hana soldáninum að gjöf en konan komst undan, þrátt fyrir að sjóræningjarnir hefðu umkringt bæinn hennar um miðja nótt. Frásagnir herma að hún hafi stokkið upp á hest sinn hálfnakin og riðið niður einn af hermönnum Ottómananna.

Giulia Gonzaga varð ung ekkja þegar eiginmaður hennar, greifinn af Fondi, lést. Orðrómur um fegurð hennar og mikla hæfileika náði alla leið til Konstantínópel.

Barbarossa varð æfur af reiði en tilgangurinn með ránsferðinni var í raun mikilvægari: Hann hugðist slá ryki í augun á leiðtoga Túnis, kalífanum, með því að sjá honum fyrir endalausum sögusögnum af ránsferðum á Ítalíu. Áform hans tókust.

 

Í ágúst árið 1534 var allur skipafloti Barbarossa skyndilega staddur úti fyrir Túnis og kalífinn flúði af hólmi.

 

Margra ára hefndir Barbarossa áttu eftir að verða þýsk-rómverska keisaranum svo dýrkeyptar að hann reyndi tveimur árum síðar að múta sjóræningjanum og fá hann til liðs við sig. Útsendari einn var sendur til Algeirsborgar með fyrirmæli um að kaupa sjóræningjann á sitt band ellegar láta myrða hann í laumi.

 

Líkt og ávallt svaraði Barbarossa stutt og skorinort: Hann hjó sem sé höfuðið af útsendaranum með brugðnu sverði sínu.

 

Þegar hann hafði sigrað skipaflota þeirra kristnu við Preveza árið 1538 má segja að yfirflotaforinginn hafi verið á hátindi frægðar sinnar. Hann var sá maður sem mestan ugg vakti á gjörvöllu Miðjarðarhafi og ein helsta ástæða þess að þýsk-rómverski keisarinn neyddist til að undirrita afar niðurlægjandi friðarsamkomulag við Súleiman mikla árið 1544.

Barbarossa var lagður til hinstu hvílu í grafhýsi í Konstantínópel sem hinn mikli arkitekt Ottómana Mimar Sinan hannaði.

Barbarossa var orðinn 66 ára gamall þegar þarna var komið sögu og dró sig í hlé til að njóta ævikvöldsins í Konstantínópel, þar sem hann lét byggja sér höll. Þegar hann andaðist árið 1546 sendi hirð soldánsins frá sér svohljóðandi tilkynningu:

 

„Leiðtogi hafsins er allur“

Lesið meira um Ottómana

Ernle Bradford: The Sultan’s Admiral: Barbarossa: Pirate and Empire Builder, Tauris Parke Paperbacks, 2009


Halil Inalcik: The Ottoman Empire: The Classical Age 1300-1600, Phoenix, 2001

HÖFUNDUR: Natasja Broström & Jannik Petersen

© Shutterstock,© William Allan/Wikimedia Commons,© Garagoz88/Wikimedia Commons & Shutterstock,© Louvre Museum/Wikimedia Commons,© Gentile Bellini/Wikimedia Commons,© After Titian/Wikimedia Commons,© Titian/Wikimedia Commons,© Darwinek/Wikimedia Commons,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Gallerí: Baráttan við náttúruöflin

Lifandi Saga

Miðaldir voru tími svikahrappanna: Sérfróðir í svikum og prettum 

Lifandi Saga

Hversu margir bjuggu í Ameríku þegar Kólumbus bar að garði?

Lifandi Saga

Öll von slokknaði í fangelsum 19. aldarinnar

Maðurinn

Streita veldur ofþyngd

Maðurinn

Svartir punktar afhjúpa getgátur heilans

Alheimurinn

Hvað ef jörðin væri í öðru sólkerfi?

Náttúran

Skoðið myndirnar: Úlfar hegða sér eins og allt önnur dýr

Alheimurinn

Ótrúlegt afrek: Nemendur slá nokkur heimsmet með heimagerðri eldflaug

Náttúran

Hversu stór gátu skorkvikindi orðið?

Lifandi Saga

Olíuborpallur springur: Eldhaf í Norðursjó

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.