Lifandi Saga

Barsmíðar og sektir Rómverja sköpuðu ósigrandi hersveitir

Í meira en 700 ár þóttu rómverskar hersveitir þær skelfilegustu í fornöld. Með járnaga, snjöllum herforingjum og salti var sérhver mótspyrna óvina barin miskunnarlaust á bak aftur.

BIRT: 31/08/2024

Ósigrar Rómverja á vígvellinum vor svo fágætir að menn minnast þeirra enn þann dag í dag: Varus-bardaginn og bardagarnir við Carrhae og Cannae er meðal þeirra alræmdustu, einmitt vegna þess að Rómverjar þurftu að lúta í lægra haldi.  Enda var sigurganga þeirra nær óslitin í einhver 700 ár.

 


Þennan árangur Rómverja má vafalítið þakka getu þeirra til að draga lærdóm af ósigrum sínum og að tileinka sér jafnframt bestu hugmyndir óvinanna. Í vel skipulögðu stjórnveldi rómverskra var slík þekking samviskusamlega skráð niður í handbók um almenna hernaðarlist og ungir liðsforingar þurftu að kynna sér hana til þrautar.

 


Rómverskur hershöfðingi gat þannig haldið í stríð fullviss um að ef þessum leiðbeiningum yrði fylgt samkvæmt bókinni, þá myndi her hans nánast alltaf standa uppi sem sigurvegari. Þannig bar honum að ráðast fyrst á höfuð slöngunnar, forðast vatnasvæði og berja járnaga í menn sína, sem segja má að hafi skipt sköpum fyrir velgengni Rómverja.

 

Ráðist á höfuð slöngunnar

Eftir því sem orðspor ósigrandi hersveita Rómverja barst út reyndust sífellt færri fjandmenn reiðubúnir til að berjast við þá á opnum vígvelli, en samkvæmt handbók þeirra var samt sem áður hægt að neyða andstæðinginn í mikinn bardaga.

 

Áður en lagt var í herleiðangur var herforinginn búinn að afla sér upplýsinga um veikustu hliðar óvinarins. Þannig vissi hann gjörla hvar höfuðborg þeirra og kornhlöður væri að finna.

 


Með því að stefna her sínum rakleiðis í átt að svæðum, sem andstæðingurinn mátti síst missa, gat hann þvingað hermenn þeirra út á opinn vígvöll. Í slíkum bardaga áttu Rómverjar jafnan sigurinn vísan.

 

Þessa miklu sigursæld má einkum þakka því hversu vel rómverskir hermenn voru búnir undir ofsafengin átök í miklu návígi. Í skjóli þéttrar skjaldborgar gátu hermenn Rómar stungið óvinaliðið niður með stuttum sverðum sínum – án þess að gefa höggstað á sér.

 


Sumir sigrar gátu verið afar torsóttir og þegar rómverskur hershöfðingi átti von á mikilli mótspyrnu stillti hann gjarnan mönnum sínum upp í djúpri fylkingu. Þá vissu hermennirnir í fremstu víglínu að þúsundir félaga þeirra studdu við bakið á þeim.

 

Þetta herbragð veitti einnig velþjálfuðum hermönnum annan möguleika, sem var sjaldan á valdi fjandmannanna: Unnt var að leysa vígamóða og særða hermenn í fremstu víglínu af þegar bardaginn geisaði hvað harðast.

Þegar boðað var til herferðar tók herforinginn þátt í að fórna nauti.

Innyfli spáðu fyrir um gengi hersins

Hjátrúarfullir Rómverjar létu ekki kylfu ráða kasti þegar haldið var í stríð. Áður en hersveitirnar yfirgáfu Róm þurfti að blíðka guðina samkvæmt settum reglum.

 

Þá þegar meðan Róm var konungsríki (fyrir 509 f.Kr.) var prestur sendur út af örkinni til að vara nágranna um að stríð væri í vændum yrðu þeir ekki við kröfugerð Rómverja. Að því loknu hafði óvinurinn 33 daga til að verða við kröfunum.

 


Þegar fresturinn var útrunninn snéri prestur aftur og kastaði blóði drifnu spjótin yfir landamærin og lýsti þannig yfir stríði. Athöfnin átti að sjá til þess að Rómverjar nytu velþóknunar guðanna og að stríðsgæfan væri þeim hliðholl.


Þegar Rómaveldi hafði þanist svo mikið út að ógjörningur var fyrir prest að snúa aftur eftir 33 daga var spjóti kastað í jarðarskika í Róm, sem átti að tákna óvinaríkið.

 

Þegar lögformlega var búið að lýsa yfir stríði voru boð látin út ganga. Áður en herforingi hélt af stað í leiðangur var þó nauðsynlegt að rýna í afstöðu guðanna með því að fórna fullvöxnu nauti.

 

Prestar – svonefndir haruspices – grandskoðuðu síðan innyfli dýrsins í leit að svörum.
 Ef eitthvað misjafnt var að finna í innyflum fórnardýrsins, eins og t.d. merki um sjúkdóma eða vansköpun, þá var herförinni frestað. Herinn lagði þá fyrst af stað þegar innyflin boðuðu færsæld fyrir hermennina.

Fremstu og þreyttustu hermennirnir þrýstu skjöldum sínum fram og stigu eitt skref til hliðar, þannig að bróðir þeirra að baki gæti tekið við stöðu þeirra. Herkænska þessi krafðist mikillar þjálfunar, en tryggði að óvinur stóð sífellt frammi fyrir óþreyttum Rómverjum.

 

Særðir og örmagna hermenn gátu því leitað skjóls aftar í fylkingunni og fengið viðeigandi aðhlynningu.
Þessi herkænska reyndist Rómverjum sérlega skilvirk, því andstæðingar þeirra tefldu jafnan fram sínum reyndustu og bestu hermönnum í fremstu víglínu gegn skjaldborgum Rómverja.

 

Þegar búið var að ráða niðurlögum þeirra riðlaðist einatt fylking andstæðingsins. Þegar svo bar við var riddaraliði telft fram, sem reið niður flýjandi óvini og tók þúsundir til fanga.

 

Sesar þakkaði aðföngum sigursældina

Hernaðarsnillingurinn Júlíus Sesar viðurkenndi að flestir sigrar hans hafi einfaldlega fengist vegna þess að aðfangakeðjur Rómverja voru ákaflega skilvirkar, enda er hungraður hermaður bágborinn hermaður. Sesar ritaði sjálfur að hermenn „óttuðust ekki svo óvininn, heldur þröngar vegleysur og skóga, enda höfðu þeir mestar áhyggjur af því að matur bærist þeim ekki í tæka tíð“.

 


Meðan flestir herir á þessum tímum rændu og rupluðu akuryrkjusvæði og borgir sem þeir lögðu undir sig, þá fluttu rómverskir hermenn með sér nauðsynlegar birgðir og matvæli. Fyrir vikið gátu þeir einbeitt sér að sjálfum orrustunum í stað þess að þurfa sífellt að leita að næstu máltíð.

 


 Matvæli, vatnsbirgðir og stórskotalið var flutt til hermannanna, ýmist með skipum eða eftir undraverðu vegakerfi Rómverja. Rómverskir herforingjar kusu jafnan að marsera eftir vegum, enda gat þrautþjálfaður hermaður gengið 40 km á degi hverjum með 30 kg þungan bakboka og annan búnað sinn.

 


Ætla mætti að einfaldara hefði verið að fragta allar þessar vistir og hermenn frá Róm með skipum til staðar nærri átakasvæðum. En rómverskir hermenn voru landkrabbar og sannarlega alls engir sægarpar.

 

Fjölmörg dæmi er að finna í sögu Rómverja, sem greina frá hörmulegum afdrifum slíkra sjóferða.
 Í fyrsta púnverska stríðinu einu saman (frá 264 til 241 f.Kr.)  sendi flotinn samkvæmt sumum heimildum allt að 250.000 hermenn beint út í opinn dauðann – vegna þess að þeir lentu í óveðri á hafi úti.
 

 

Rómverski sagnaritarinn Svetóníus greindi frá því að jafnvel þegar engir mannskaðar væru til sjós, þá var ástand hermanna vegna sjóveiki slíkt að þeir voru algerlega ófærir að berjast. Þannig skráði hann eftirfarandi frásögn um sjálfan Ágústus keisara:

 


 „Hann var gjörsamlega ófær um að kanna ástand manna sinna. Hann lá endilangur á bakinu og starði örvinglaður upp til himins. Hann gat ekki einu sinni skjögrast á fætur til að sýna að hann væri með lífsmarki“. Margir hershöfðingjar kusu því eðlilega fremur að fara landleiðina.

 

Grimmur dauðdagi beið hugleysingja

Meðan margir andstæðinga Rómverja áttu í miklum vanda við að hemja sókndjarfa liðsmenn sína sem vildu ráðast strax til atlögu á Rómverja, þá ríkti allt annar agi meðal hermanna Rómaveldis.

 

Herir þeirra voru þrautskipulagðir þar sem algert stigveldi ríkti. Á botninum voru óbreyttir hermenn, legóíónerar, sem lutu skipunum misháttsettra liðsforingja.
 Svonefndur centurion var yfirmaður 100 hermanna og helsta verkefni hans fólst í að temja mönnum sínum jarnaga. Það gerði hann bókstaflega með gildum lurki, en eins gat hann dregið laun frá málanum vegna yfirsjóna þeirra eða beitt öðrum refsingum.

 


Hundraðsforingjar gátu einnig stefnt liðsmönnum sínum fyrir herrétt, þar sem yngri liðsforingjar skipuðu dóminn. Á þessu dómstigi var hermönnum refsað með húðstrýkingu fyrir að vanrækja skyldur sínar.

 


Hugleysi var hengt með öllu grimmilegri hætti. Ef hundrað-manna sveit var talin hafa kinokað sér við að taka þátt í bardaga var hún dæmd til tíundar-refsingar, eða svokallaðri „decimeringu“. Eins og nafnið gefur til kynna var tíunda hverjum hermanni refsað með dauðadómi og félögum þeirra skipað að berja þá til bana.

Járnaginn var slíkur að Títus Manlíus konsúll lét taka son sinn af lífi í herför einni árið 340 f.Kr. Sonurinn hafði ráðist til atlögu án leyfis.

Af þessum sökum var hundraðshöfðingja mikið í mun að koma fram við liðsmenn sína af réttvísi. Þegar við bar að hundraðshöfðingjar þóttu of miskunnarlausir og rangsleitnir í langan tíma áttu þeir á hættu að glata virðingu hermanna sinna með skelfilegum afleiðingum. Rómverski sagnaritarinn Tacítus lýsti þannig uppreisn hjá setuliði við landamærin nærri Rínarfljóti:

 


 „Hermennirnir réðust af miklum ofsa á hundraðshöfðingjana, sem þeir höfðu fyrirlitið um langt skeið vegna óstjórnar þeirra“.

 

Mikilvægi njósnaranna kemur í ljós

Frammi fyrir skelfilegri hernaðarmaskínu Rómverja reyndu sumir óvinir þeirra að lokka þá í umsátur á stöðum, þar sem Rómverjar gátu trauðla skipað liði sínu í fylkingu. Slíkt henti t.d. hershöfðingjann Varus í Teutoburger-skógi árið 9 e.Kr. Þar tókst Germönum að sundra Rómverjum og drepa þá alla sem einn.


Til þess að koma í veg fyrir að slíkar hörmungar gætu endurtekið sig var bætt við nýjum kafla í handbók hermannanna. Nú skyldu njósnarar fara fremstir og þefa uppi möguleg fyrirsát. Skammt að baki þeirra fylgdu fótgönguliðar, sem voru reiðubúnir að slá skjaldborg um njósnarana, ef óvinurinn yrði þeirra og sótti að þeim.

 


Væri allt með kyrrum kjörum fylgdu að baki þeirra verkfræðingasveitir, sem voru þrautþjálfaðar í að byggja brýr og greiða leið sjálfrar hersveitinnar eftir föngum eins og best var á kosið hverju sinni.

 


Á eftir þeim komu síðan viðkvæmastu sveitirnar: Birgðaflutningaliðar og stundum hermenn með þungar umsátursvélar. Lestina rak síðan hershöfðinginn og herráð hans. Þeir voru síðan studdir af meginhernum, sem taldi um 5.000 hermenn.

Hermenn fengu greitt með salti

Lífið í rómverska hernum var bæði slítandi og hættulegt, en sæmilegur máli og góður lífeyrir gerði starfið eftirsóknarvert fyrir lágstéttina í ríkinu.

 

Um árið 104 f.Kr. var ákvað öldungaráðið í rómverska lýðveldinu að hermenn landsins skyldu vera launaðir. Hermennirnir fengu þannig laun, vopn og annan búnað.

 

Hluti launanna var greiddur með salti og því eru hermenn í dag oft nefndir soldátar eftir latnesku orðunum sal dare „að gefa salt“. Samkvæmt annarri kenningu stafar nafngiftin að því að hermennirnir hafði fengið hluta málans greiddan með gullmynt, sem nefndist solidus.

 

Laununum fylgdu margvíslegar skyldur: Nýir hermenn skrifuðu undir samning sem fól í sér að þeir þurftu að sinna herskyldu í heil 20 ár.

 

Þeir hermenn sem gátu lifað af svo langan tíma í hermennsku sáu þannig fram á góðan lífeyri að henni lokinni.  Þegar lýðveldið varð að keisaradæmi innleiddi Ágústsus keisari tilskipun árið 13 e.Kr. sem tryggði uppgjafahermönnum 14 ára mála, sem þakklætisvott fyrir trúmennsku þeirra.

 

Auk þess sáu margir herforingar til þess að hermönnum þeirra var úthlutað landareignum á svæðum sem þeir höfðu lagt undir Rómaveldi.

 

Með því að gera hermennina þannig að landeigendum tryggði herforinginn jafnframt minni mótspyrnu innlendra við hernám Rómverja.

 

Þá fengu erlendir málaliðar sem gengið höfðu til liðs við rómverska herinn einnig nokkuð í sinn hlut. Að þjónustu lokinni gátu margir þeirra orðið rómverskir borgarar, sem veitti þeim meira skjól undir lögum og réttindum Rómverja, sem og rétt til þess að setjast að í hvar sem var í Rómaveldi.

Útlendingum var fórnað fyrst

Rómverskir herleiðangrar samanstóðu ekki bara af innfæddum Rómverjum því fjölmargir erlendir málaliðar voru einatt með þeim í för – oftar en ekki voru þetta hraðskreiðir fótgönguliðar eða léttvopnað riddaralið, sem var telft fram í fremstu víglínu. Það var vegna þess að þessi liðsauki var oft einfær um að brjóta á bak aftur veikburða mótspyrnu.


Ef í ljós kom að andstæðingurinn reyndist vera mun öflugri en ætla mátti, töldu Rómverjar miklu betra að fórna þessum útlenda lisðauka, fremur en rómverskum borgurum.

 

Rómverjar biðu þá átekta til að bregðast sem skjótast við fyrstu atlögu óvinaherjanna, en herforingjar þeirra áttu oftar en ekki í fullu fangi með að stýra sínum mönnum, enda ríkti enginn rómverskur járnagi innan raða þeirra. Þá fylktu Rómverjar sér í sína hefðbundnu og skipulegu skjaldborg.

Þrátt fyrir mátt Rómverja lutu þeir stundum í lægra haldi – oft vegna þess að herforingi ofmat eigin snilli og getu.

Vanhæfir herforingjar guldu afhroð

Þrátt fyrir að herleiðangrar Rómverja hafi jafnan verið eins og vel smurð maskína, sem gjörsigraði óvinaherinn, þá var sigur aldrei sjálfgefinn. Vanhæfir herforingjar voru ein alvarlegasta ógn rómverskra hermanna.

 

Þegar rómverski auðmaðurinn og konsúllinn Crassus hafði brotið þrælauppreisn Spartacusar á bak aftur, var hann settur árið 53 f.Kr. yfir herleiðangur til höfuðs Parther-ríkinu, þar sem nú er Íran og Írak.

 


Þrátt fyrir að herforinginn Crassus hafi búið yfir nokkurri reynslu var langt síðan hann hafði beitt sér á vígvellinum gegn öðrum en uppreisnargjörnum þrælum. Hann kann því að hafa vanmetið andstæðinga sína – með hrapalegum afleiðingum.

 

Helsta klúður hans fólst í að halda ekki uppi njósnum um fjölda Partha og styrk þeirra. Þess í stað hraðaði hann sér yfir fljótið Efrat í von um að koma óvininum í opna skjöldu. Crassus bjóst við að hitta fyrir hefðbundinn her með fótgönguliðum og riddaraliði, en í orrustunni við Carrhae í sunnanverðu Tyrklandi óðu þeir í flasið á 9.000 þrautreyndum bogmönnum og 1.000 þungvopnuðuðum riddurum.

 

Í stað þess að skipa hermönnum sínum í breiða fylkingu til að hindra óvininn að umkringja her sinn, þá lét hann þá mynda ferhyrning. Klukkustundum saman létu bogaskytturnar örvum sínum rigna yfir rómversku hermennina og 30.000 menn af 40.000 manna her Crassusar lét þar lífið. Sjálfur var Crassus myrtur í miðjum friðarviðræðum við Partha.

Á síðustu blaðsíðunum í handbók rómverskra hermanna varðandi hernaðarkænsku hefur vafalítið verið fjallað um mikilvægi þess að sérhverjum herforingja bæri ævinlega að hugsa til allra þeirra fórna sem hermenn hans færðu honum til að tryggja sigur.

 

Þegar hlúð var að særðum og lemstruðum sáu þá liðsforingjar hans til þess að þeim væri greiddur umsamdur máli, sem elfdi baráttuþrek félaga þeirra.

 

 Í þau fáu skipti sem Rómverjar lutu í lægra haldi í herleiðöngrum sínum í mörg hundruð ára sögu sinni datt Rómaveldi aldrei í hug að gefast upp.


 Þegar ótal óvinaherir þeirra voru þurrkaðir út gáfust hershöfðingjar þeirra jafnan upp og játuðu sig sigraða í þeirri trú að stríðinu væri þar með lokið. Rómaveldi gafst aldrei upp.


Um aldaraðir voru Rómverjar sérfræðingar í því að smala saman ótrúlega öflugum her á örskömmum tíma og senda í bardaga. Með þrautseigju sinni og þolinmæði gátu þeir á endanum brotið á bak aftur óvini sína og sannað þannig þá viðteknu staðreynd að Rómaveldi væri ósigrandi.

Lestu meira um herleiðangra Rómverja

Stephen Dando-Collins: Legions of Rome – The Definitive History of Every Imperial Roman Legion, Thomas Dunne Books, 2012

 

Philip Matyszak: Legionary – The Roman Soldier’s (Unofficial) Manual, Thames & Hudson, 2018.

 

HÖFUNDUR: BENJAMIN CHRISTENSEN & JANNIK PETERSEN

© DEA/G. Dagli Orti/Getty Images,© Classic Image/Imageselect,© Viktor1/Shutterstock,© Otto Albert Koch/Wikimedia Commons

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hanukkah: Kraftaverkahátíð gyðinga

Náttúran

Hvað eru eldur og logar?

Náttúran

Hvernig stendur á því að bæði heitt vatn og kaldur ís fljóta á vatni?

Alheimurinn

Hvað eru norðurljós?

Heilsa

Tilraun: Langvarandi fasta getur haft neikvæð áhrif

Náttúran

Hvað eru heimsálfurnar margar?

Maðurinn

Draumráðningar – Hvað þýða draumar þínir?

Náttúran

Vetrardvali tryggir lífsskilyrði dýra

Maðurinn

Góðir erfðavísar gera andlitið skakkt: Fögnum ósamhverfu!

Tækni

Ný rafhlöðutækni fyrir rafbíla dregur verulega úr hleðslutíma

Maðurinn

Fólk fætt í sveit er betur áttað.

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is