Meðal stangveiðimanna eru skiptar skoðanir á því hvort fiskar bíti frekar á agnið í rigningu eða eftir hana, enda reynsla þeirra misjöfn. Trúlegast er að þetta fari eftir því hvar verið er að veiða, því rigningin getur haft mismunandi áhrif.
Sums staðar getur mikið regn leitt til þess að jarðvegur skolist út í vatnið, sem þá verður gruggugt og veldur því að fiskurinn sér síður beituna á öngli veiðimannsins. Þannig getur rigning í sumum tilvikum leitt til þess að verr veiðist. En í öðrum tilvikum getur regnið þvert á móti aukið matarlyst fiskanna og fyrir því eru ýmsar ástæður.
Í ám og fljótum leiðir rigningin til þess að vatnsborðið hækkar og straumhraðinn vex.
Þetta getur gert fiskana athafnasamari.
Fiskar koma sér iðulega fyrir í skjóli fyrir straumnum, t.d. hlémegin við stóra steina, en einmitt þar hefur ýmis fæða tilhneigingu til að safnast fyrir. Þegar straumurinn vex berst meira af bráð fram hjá fiskinum og það getur aukið á veiðigleði hans. Sjálft regnið veldur því líka að meira af skordýrum og öðrum smádýrum berst út í ána ofan af þurrlendinu.
Þegar regndroparnir skella á vatninu getur það líka valdið því að súrefni aukist í yfirborðinu. Við þær aðstæður geta fiskarnir orðið fjörugri og gráðugri gagnvart beitunni. Sumir fiskar kjósa líka að koma fram úr felustöðum sínum í ætisleit þegar rökkva tekur eða að næturlagi. Dimm regnský geta þannig orðið til að lokka fiskana fram úr felustöðum sínum og út í opið vatn, þar sem beita stangveiðimannsins bíður hans.
Loks mætti svo gera sér í hugarlund að regndropar sem skella á yfirborðinu, gætu komið ungum og óreyndum fiskum til að halda að hér séu skordýr á ferð. Þetta gæti átt þátt í að þeir grípi beituna á önglinum.