Lifandi Saga

Björgun Stalíns kostaði blóðbað 

Sumarið 1941 ryðjast hersveitir Hitlers gegnum Eistland. Í miklum flýti flytja Sovétmenn 42.000 manns frá Tallinn en skipalestin lendir í verstu fyrirsát styrjaldarinnar til sjós.

BIRT: 11/08/2023

„Ég lagði kapal og spilin sögðu að þetta skip kæmist aldrei til Leningrad,“ andvarpar Kalju skipstjóri á S/S Naissaar.

 

Vélstjóri fraktskipsins horfir áhyggjufullur á hann en hvorugur þeirra hefur nokkur ráð. Í ágúst 1941 er S/S Naissaar að leggja upp í hættulegustu ferð sína.

 

Herir Hitlers hafa umkringt Tallinn, höfuðborg Sovétlýðveldisins Eistlands. Nú á að flytja á brott 40.000 hermenn og alla embættismenn Sovétveldisins, ásamt fjölskyldum þeirra. Öll tiltæk skip eru tekin til að sinna því verkefni.

 

Meðan skipstjórinn og vélstjórinn ræða saman streyma rússneskir hermenn um borð. Hundruð örþreyttra manna ganga upp landganginn og leggjast svo fyrir í lestum skipsins.

 

Þjóðverjar eru þegar búnir að leggja undir sig stóra hluta borgarinnar og hersveitir Sovétmanna hætta götubardögum hver á fætur annarri og hermennirnir hraða sér niður að höfninni. Að baki þeim stígur svartur reykur frá brennandi húsum, því Stalín hefur skipað svo fyrir að allt skuli eyðilagt til að það gagnist ekki Þjóðverjum.

Flutningaskipið S/S Naissaar (fremst á myndinni) var í eigu hins opinbera sovésk-eistneska skipafélags.

Hermennirnir hefðu sennilega neitað að stíga um borð hefðu þeir vitað hvað beið þeirra á flóttanum til Leningrad. Skipalestin sem S/S Naissaar var hluti af, varð fórnarlamb blóðugustu árása styrjaldarinnar á hafi úti.

 

Fallbyssum miðað lágt

Segja má að örvænting hafi einkennt ástandið í Tallinn í lok ágúst 1941. Vikum saman hafði Rauði herinn árangurslaust reynt að stöðva framrás Þjóðverja. Rússar og eistneskir kommúnistar neyddust á endanum til að flýja til Leningrad sem var 350 kílómetrum austar.

 

Við höfnina í Tallinn ríkti ringulreið. Eystrasaltsfloti Sovétríkjanna var utan við höfnina og skaut úr fallbyssum að Þjóðverjum. Eftir því sem Þjóðverjar færðust nær, þurfti að lækka miðið og að lokum var svo komið að sprengikúlurnar þutu rétt yfir höfninni þar sem hermenn og embættismenn voru sem óðast að koma sér um borð í skip.

Þýskir hermenn á leið yfir landamæri Sovétríkjanna 1941. Innrásin kom Stalín algerlega á óvart.

Rússar hröktust undan Þjóðverjum

Áður en seinni heimsstyrjöldin braust út höfðu Hitler og Stalín samið um skiptingu Austur-Evrópu. Eistland lenti á áhrifasvæði Sovétríkjanna og hersveitir þeirra hertóku landið sumarið 1940.

Á sama tíma lagði Hitler Belgíu undir sig ásamt Hollandi og Frakklandi en árið eftir sneri hann sókn sinni að Stalín.

 

Þann 22. júní 1941 hófst verkefnið „Barbarossa“ – innrás Þjóðverja í Sovétríkin. Þegar þýskar hersveitir réðust inn í Eistland sættu sovéthermenn þar þegar árásum.

 

Margir Eistar litu á innrás Þjóðverja sem kærkomið tækifæri til að losna við einræði Stalíns og hátt í 50.000 föðurlandsvinir réðust á Rauða herinn og höfðu frelsað suma landshluta áður en Þjóðverjar komu.

 

Þjóðverjar reyndust hins vegar engir frelsarar komnir til að endurreisa sjálfstæði Eistlands.

 

Samkvæmt áætlunum Þjóðverja átti að flytja helming þjóðarinnar úr landi og skapa þannig rými fyrir þýska bændur sem þar áttu að setjast að.

Hundruð særðra voru borin um borð og hjúkrunarliðar reyndu að draga úr sársauka þeirra.

 

Herskipin tóku ekki marga farþega, enda var hlutverk þeirra að verja skipalestina. Þess í stað voru fraktskip á borð við S/S Naissar troðfyllt af fólki – mörg slík skip létu úr höfn með 2-3 þúsund farþega.

 

Auk hermanna og annarra reyndi Rauði herinn líka að koma hergögnum um borð í skipin.

 

„Af hverju í fjandanum flytjið þið þessa kassa um borð? Það er ekki einu sinni pláss fyrir allt fólkið og svo komið þið dragandi þessa kassa frá vígstöðvunum,“ kvartaði eistneskur kranamaður.

 

„Hálfviti! Þetta eru skotfæri. Við þurfum á öllu okkar að halda í Leningrad,“ svaraði einn Rússinn.

 

Allt sem ekki komst um borð fór í sjóinn eða var sprengt í loft upp milli kolahauganna á hafnarbakkanum.

 

Öllum var ljóst að ferðin yrði áhættusöm. Þýskir kafbátar og sérstök tundurduflaskip höfðu dreift tundurduflum um allan Finnska flóa og vænta mátti skothríðar frá fallbyssum á landi auk árása herskipa. Þýskar flugvélar voru líka búnar til árása á þau 190 skip sem voru í skipalestinni.

Lestin var varin af elstu skipum sovéska Eystrasaltsflotans – t.d. Artem frá 1916. Herskipið sökk þegar á fyrsta degi eftir að hafa siglt á tundurdufl.

Skipstjórar fraktskipa á borð við S/S Naissaar höfðu fengið fyrirmæli um að stafla lausu timbri á þilfarið til að fólk gæti frekar haldið sér á floti í sjónum.

 

Allir sótraftar á sjó

Segja má að allir sótraftar hafi verið á sjó dregnir í Tallinn og S/S Naissaar taldist einmitt til þeirra skipa sem ekki voru beinlínis í góðu ástandi.

 

Þetta var gufuskip frá 1911 og fáeinum vikum fyrr hafði staðið til að sökkva því og láta flakið styrkja hafnargarðinn. Þá voru menn settir í að fjarlægja allt nýtilegt en nú átti þessi gamli dallur sem varla gat talist sjófær, að leggja í hina áhættusömu siglingu til austurs.

 

Að morgni 28. ágúst fór skipið á sinn stað í skipalestinni fyrir utan innsiglinguna. 165 farmskipum var skipt upp í fjóra hluta en stærstu skip sovéska Eystrasaltsflotans fóru fyrir skipalestinni og mynduðu eins konar spjótsodd. Aftast voru svo eldri herskip.

Vironia hét upphaflega Hákon konungur og hafði tilheyrt danska skipafélaginu DFDS. Ferjan var smíðuð fyrir 336 farþega en á flóttanum frá Tallinn voru að minnsta kosti 2.300 manns innanborðs.

Klukkan 11.18 lagði fremsti hluti skipalestarinnar af stað og þýsku fallbyssurnar skutu að þeim eins og í kveðjuskini. Litlu munaði að ferjan Vironia yrði fyrir skoti en það hafnaði í sjónum fyrir framan hana og skar á taugina til dráttarbátsins sem átti að koma þessari gufuknúnu ferju út úr höfninni.

 

Og ekki var langt í næstu ógn. Þýskir tundurspillar nálguðust skipalestina frá Helsinki. Tvö stór sovésk herskip héldu þeim þó í hæfilegri fjarlægð með skothríð.

 

Alls teygði skipalestin sig yfir 50 km leið. Tundurduflaslæðarar í fararbroddi reyndu að hreinsa 200 metra breiða rennu í gegnum tundurduflabelti Þjóðverja undan Jumindaskaga um 60 km austan við Tallinn.

 

Á meðan héldu herskipin uppi skothríð á flugvélar Þjóðverja sem réðust á tundurduflaslæðarana.

 

Tundurdufl Þjóðverja voru fest í langa víra sem náðu niður í sökkur á hafsbotni. Hlutverk tundurduflaslæðaranna var að skera á vírana og sprengja duflin. Í mörgum tilvikum tókst þó einungis að klippa á vírinn og þessar sprengjur flutu því lausar og skipstjórar þurftu að skáskjóta skipum sínum fram hjá þeim sem sáust.

Tundurdufl leyndust undir yfirborðinu

Seint í ágúst lögðu Þjóðverjar út tundurdufl í Finnska flóa. Markmiðið var að tortíma skipum í Eystrasaltsflota Sovétríkjanna sem hafði höfuðstöðvar í Tallinn.

 

Þjóðverjar gerðu ráð fyrir að þegar þeir nálguðust Tallin myndu Rússar rýma höfnina og flytja skipin til Leningrad. Ríflega 2.000 „Ankertauminen“ eða akkeristundurduflum var raðað í vandlega úthugsað mynstur til að ekkert skip kæmist óskaddað í gegn.

Rúllað út á kerrum

Akkerisduflin stóðu á litlum kerrum sem einfaldlega var rennt út af þilfarinu.

Akkeriskerra

Tundurdufl fljóta en kerrurnar voru þungar og drógu þau niður. Lengd vírsins sem tengdi kerru og dufl var nákvæmlega sniðið að dýpinu.

Ósýnilegar sprengjur

Væri sjávardýpið rétt mælt leyndust tundurduflin rétt undir yfirborðinu og voru þar með ósýnileg. Þegar skipskrokkur rakst á einhvern af göddum sprengjunnar, sprakk hún.

Strax fimm mínútum eftir að skipalestin náði inn í tundurduflabeltið varð fyrsta sprengingin. Kl. 17.05 hurfu 700 manns í djúpið með litlu gufuskipi sem sigldi á tundurdufl og sökk. Jafnframt dundi fallbyssuskothríð frá ströndinni og Stuka og Junker Ju88-flugvélar vörpuðu sprengjum yfir skipalestina úr lofti.

 

Eina leiðin til að forðast sprengjur úr lofti var fólgin í stöðugum sikksakkbeygjum en með því móti lentu skipin ógnvænlega utarlega í rennunni sem tundurduflaslæðararnir höfðu hreinsað.

 

Gamall eistneskur ísbrjótur lenti of utarlega í einni beygjunni og sökk með um 100 manns innanborðs.

 

Neyðarópin þagna

Um borð í Vironia hafði áhöfnin borið kvöldmat á borð þegar þýsku flugvélarnar birtust. Stefnunni var breytt og fyrsta sprengjan lenti 50 metrum frá skipshliðinni. Næsta sprengja sprakk líka í sjónum en örskömmu síðar stöðvaðist Vironia.

 

Þrýstingurinn frá sprengingunum hafði eyðilagt stýrið og þótt loftvarnarbyssur væru um borð, varð ferjan nú auðvelt skotmark sem þýsku flugmennirnir nýttu sér strax.

 

Þegar Vironia varð fyrir sprengju var sovéski stríðsfréttaritarinn Nikolaj Mikhailovskí um borð. Mikil sprenging dundi og augnabliki síðar var hann í sjónum.

 

Meðan hann leit í kringum sig, fann hann blóð renna úr sári á enninu. Allt í kringum hann lágu lík í yfirborðinu. Hann þekkti þarna unga konu frá Leningrad. Hún var með svartar fléttur og þau höfðu kynnst um borð.

 

„Öldurnar báru lík hennar burtu en ég sá lengi í höfuðið og þessar vönduðu fléttur,“ sagði hann síðar.

 

Þýskar flugvélar skutu úr vélbyssum að þeim sem enn lifðu í sjónum og börðust þar fyrir lífi sínu.

,,Smám saman fækkaði neyðarópunum og að lokum þögnuðu þau alveg”.
Sovéski stríðsfréttaritarinn Nikolaj Mikhailovskí

Mikhailovskí þorði ekki að snúa sér á bakið til að spara kraftana fyrr en flugvélarnar voru horfnar.

 

Ég lá lengi á bakinu og horfði upp í óendanlegan himinblámann. Ég synti rólega baksund á móti bylgjunum. Það er auðveldara því þannig gleypir maður minni sjó. Smám saman fækkaði neyðarópunum og að lokum þögnuðu þau alveg.

 

Hann var stífur af kulda þegar hann var loksins tekinn um borð í hraðbát sem hélt áfram flóttanum til Leningrad.

 

Lagst við akkeri

Um borð í öflugasta herskipinu, beitiskipinu Kirov, var yfirmaður Eystrasaltsflotans. Vladimir Tributs flotaforingi átti umfram allt að komast heilu og höldnu til Kronstadt, flotahafnar Sovétmanna rétt hjá Leningrad.

 

Í Moskvu fylgdist leiðtogi Sovétríkjanna, Jósef Stalín, persónulega með skipalestinni.

 

Á fyrsta degi slapp Tributs tiltölulega vel, því þýsku flugmennirnir einbeittu sér að þeim skipum sem voru verst vopnum búin. Enginn gat þó andað léttar fyrr en ágústnóttin breiddi myrkur yfir Finnska flóa.

Vladimir Filippovich Tributs aðmíráll (1900-1977) var ábyrgur fyrir rýmingu Tallinns og flotavörnum í Leníngrad.

Flotaforinginn skipaði svo fyrir að skipin skyldu liggja við akkeri yfir nóttina. Það var of hættulegt að halda áfram í myrkrinu án þess að geta greint milli tundurdufla og braks í sjónum. Tributs var nú staddur við litlu eyjuna Vainloo um 100 km austur af Tallinn.

 

Eistar flýja norður

Eistneskir sjómenn sem nauðugir höfðu verið skráðir á dráttarbátana Paldiski og I-18, gripu tækifærið til að flýja í myrkrinu. Eins og margir aðrir Eistar litu þeir á hersveitir Stalíns sem fjandmenn og höfðu engan áhuga á að liðsinna þeim.

 

Þótt báðir dráttarbátarnir væru fullir að vopnuðum hermönnum, ákváðu Eistarnir að taka stefnuna á frelsið. Sovéskir hermenn gættu að vísu bæði brúarinnar og vélarrúmsins en í myrkrinu tóku þeir ekki eftir stefnubreytingunni.

 

Um miðja nótt fundu finnsk varðskip dráttarbátana. Sovésku hermennirnir munduðu byssur sínar en þorðu ekki að skjóta, enda við fallbyssur að eiga. Varðskipin fylgdu dráttarbátunum svo norður að strönd Finnlands.

Finnskir fall​​byssubátar og önnur herskip vörðu flóann og leituðu að skipum sem höfðu villst frá skipalestinni.

Meðan skipalestin lá við akkeri heyrðust áfram sprengingar. Laus tundurdufl bárust að skipunum með straumi og þótt sjóliðar kepptust við að ýta þeim frá með stjökum, tókst það ekki alltaf.

 

Ferjan Vironia var reyndar enn á floti en mikið sködduð og hafði verið tekin í tog. Um miðja nótt gat hún ekki lengur storkað örlögunum. Tundurdufl rak að henni og sprakk.

 

„Í sjónum var mikil ringulreið. Allir reyndu að bjarga lífinu og skeyttu engu um aðra. Sjálfur varð ég oftar en einu sinni undir og tróðst á kaf,“ sagði Rafail Beltsikov sem verið hafði túlkur fyrir Rauða herinn í Tallinn.

 

Rússneskir hermenn rifu af honum björgunarvestið en Beltsikov lifði af – um 2.300 fórust.

 

Umfljótandi tundurdufl ollu líka skelfingu annars staðar. Rússneski hjúkrunarliðinn Olga Pugina var á sökkvandi skipi og særðir menn um borð reyndu að koma sér upp úr lestinni.

 

Skipið sökk þó svo hratt að Olga sá ekki tækifæri til að hjálpa þeim neitt.

Vikurnar eftir brottflutningin í Tallinn ráku fljótandi tundurdufl að finnsku ströndinni.

Í örvæntingu sinni greip hún til skammbyssunnar sem yfirmaður hennar hafði látið hana fá í öryggisskyni áður en lagt var af stað. Hún ætlaði að skjóta sjálfa sig, á síðasta augnabliki sló sjóliði vopnið úr höndum hennar og öskraði:

 

„Farðu úr stígvélum, jakka og buxum og stökktu fyrir borð. Stökktu eins langt frá skipinu og þú getur!“

 

Olga Pugina stökk hálfnakin út í sjóinn og náðist skömmu síðar um borð í annað skip. Sjóliðarnir fengu henni bláan klæðisstranga sem hún gat vafið um sig.

 

Hún komst þannig í öryggi en það stóð ekki lengi, því hálftíma síðar sökk þetta skip líka.

 

Aftur hafnaði Olga Pugina í sjónum. Nú reif hún bláa klæðið í ræmur og ásamt nokkrum sjóliðum notaði hún það til að binda saman planka sem voru á reki. Þannig tókst þeim að búa til frumstæðan fleka þar sem þau tóku sér aðsetur.

 

Skipalestin heldur áfram

Klukkan 04.40 voru akkerin hífð upp og þýskar flugvélar hófu loftárásir að nýju einum og hálfum tíma síðar. En nú var tekið að grynnka á skotfærabirgðum fyrir loftvarnarbyssurnar.

Allt frá 1704 hefur flotastöðin Kronstadt varið innsiglinguna til St. Pétursborgar sem á árunum 1924-1991 bar nafnið Leningrad.

Leningrad hélt velli vegna björgunarleiðangursins

Flóttinn frá Tallinn varð Eystrasaltsflota Sovétríkjanna dýrkeyptur en átti eftir að hafa afgerandi þýðingu fyrir úthald Rússa í umsátrinu um Leningrad sem skipti gríðarlegu máli varðandi gang stríðsins.

 

Eftir að hafa tapað Tallinn voru höfuðstöðvar sovéska flotans fluttar til Kronstadt á Kotlineyju um 30 km vestan við Leningrad. Eyjan er um 19 ferkílómetrar, á borð við eina og hálfa Heimaey en þar höfðu allt upp í 125 þúsund hermenn aðsetur í styrjöldinni.

 

Til varnar flotastöðinni voru 22 fallbyssuhreiður auk fallbyssna um borð í 140 stærri og smærri herskipum.

 

Mikilvægastur var þó flugvöllurinn en þarna geymdu Sovétmenn meira en 600 flugvélar. Þrátt fyrir fjölda loftárása og umsáturstilrauna héldu Sovétmenn eyjunni allt til loka.

 

Umsátur Þjóðverja um Leningrad stóð í 900 daga og á þeim tíma voru 80 þúsund hermenn fluttir þangað frá Kronstadt til að styrkja varnir borgarinnar.

 

Sovéskir kafbátar frá Kronstadt réðust á aðflutninga Þjóðverja og flugvélar þaðan réðust hvað eftir annað að umsáturshernum.

 

Þjóðverjar svöruðu með flugárásum og fallbyssum. Mörg þúsund sprengjum rigndi yfir Kotlineyju en hún hélt stöðu sinni og mikilvægi allt þar til stríðsgæfan snerist og Rauði herinn hrakti Þjóðverja á flótta 1944.

Það voru aðeins stóru herskipin, svo sem beitiskipið Kirov sem enn gátu varið sig og hrakið Þjóðverjana frá. Stórt flutningaskip varð fyrsta fórnarlamb dagsins og skömmu síðar sökk S/S Naissaar með 1.500 manns. Spil skipstjórans reyndust sannspá.

 

Síðdegis þennan dag, þann 29. ágúst, einum og hálfum sólarhring eftir brottförina frá Tallinn, náði beitiskipið Kirov og Tributs flotaforingi alla leið til flotastöðvarinnar Kronstadt á Kotlineyju.

 

Þjóðverjar héldu hins vegar áfram loftárásum á þau hægfara skip sem enn voru á siglingu og nú orðin troðfull eftir að tekist hafði að bjarga fjölda manns upp úr sjónum. Síðustu skipin náðu ekki til hafnar fyrr en tveimur dögum síðar og hafði þá enn fækkað verulega.

 

Auk herskipanna voru 165 skip í skipalestinni og af þeim var 68 sökkt. Það urðu líka örlög 16 herskipa af 25, enda hefur þessum björgunarleiðangri verið líkt við björgun Breta frá Dunkerque.

 

Menn greinir á um mannfjöldatölur en eistnesku sagnfræðingarnir Mati Öun og Hanno Ojalo segja 42.000 manns hafa lagt af stað frá Tallinn en aðeins 27.000 hafi komist á leiðarenda. 15.000 fórust á Finnska flóa.

 

Samkvæmt þeirri niðurstöðu urðu flóttamennirnir frá Tallinn fyrir blóðugustu árás á skipalest í síðari heimsstyrjöld.

Lestu meira um flótta skipalestarinnar

P. Grooss: The Naval War in the Baltic 1939-1945, Pen & Sword, 2017


C. Bergström: Barbarossa: The Air Battle July-December 1941, Midland, 2007

HÖFUNDUR: ALO LÕHMUS , JANNIK PETERSEN

© Torusw/Wikipedia,© Johannes Hähle,© Public domain,© Wrecksite.eu,© Shutterstock & Carsten Yttesen, © Ministry of Defence of the Russian Federation,© SA-kuva,© David Rumsey Map Collection

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is