Frá lokum 19. aldar gátu breskir verkamenn notið nýrra lífsgæða sem fram til þess tíma höfðu einungis tilheyrt yfirstétt samfélagsins: Frítíma. Í staðinn fyrir 90 stunda langa vinnuviku gátu flestir nú látið 56,5 tíma duga – og þessi nýfundni frítími var nýttur á ótal vegu.
Í þéttbýlum breskum iðnaðarborgum fóru margir einfaldlega út í kirkjugarðana og drukku þar te – vegna skorts á grænum svæðum í nágrenni sínu.
Milljónir fóru að fylgjast með fótboltaleikjum og fótboltafélögin urðu brátt svo stöndug að árið 1913 nam velta þeirra 3% af landsframleiðslu Stóra-Bretlands.
Aðrir Bretar héldu niður til strandar þar sem þeir urðu síðan ástríðufullir þangsafnarar.
Hárkúnst
Konur fengu hár á heilann
Heima fyrir bjuggu breskar konur til falleg hálsmen skreytt hárum.
Á miðöldum höfðu aðalsfrúr búið til minjagripi með hárlokkum, jafnan frá einhverjum látnum ættingja sem þær vildu minnast. Gjafvaxta konur höfðu eins sent bréf með hagalegan gerðum hárlokki til vonbiðla sinna – sem tákn um áhuga sinn.
Þegar rómantíkin dreifðist út á 19. öld í Evrópu var þessi gamla hefð endurvakin og Bretar kepptust nú við – bæði háir sem lágir – að búa til hálsmen og nælur puntaðar með haganlega fléttuðu hári. Nú takmarkaðist hárið ekki lengur sem tákn til að tjá sorg eða ást, því að þessi „hártíska“ varð helsta áhugamál fjölmargra.
Viktoría drottning heimsótti árið 1855 frönsku keisaraynjuna Eugénie í Versölum og heiðraði hana með armbandi sem var búið til úr hennar eigin hári. Þessi konunglegi áhugi varð til þess að almenningur tók nú upp þessa iðju í meiri mæli.
Þegar heimssýningin í París var opnuð sama ár gátu sýningargestir notið portretts af Viktoríu í fullri stærð – en það var einvörðungu samsett úr mannshári.
Graskeila
Kráargestir hermdu eftir aðlinum
Skittles, eins konar keiluspil á grasflöt, var leikinn um alla Evrópu á 18. og 19. öld.
Bretar höfðu mikið gaman af keiluspilinu skittles sem gekk út á að rúlla þungum bolta eftir grasflöt og velta um koll níu keilum á enda brautarinnar.
Rithöfundurinn Joseph Strutts skrifaði í stórvirki sínu „The Sports and Pastimes of the People of England“ að skittles væri „ein sú skemmtun sem maður sér einungis utan við krár og knæpur“ og nánast alltaf sem „upphafið að frekari drykkjulátum og gjálífi“.
Skittles varð þannig nær einvörðungu stundað af bjórþyrstum mönnum úr lægri stéttum, þrátt fyrir að leikurinn hafi upphaflega verið vinsæll meðal aðalsins. Fyrir vikið féll skittles úr tísku meðal yfirstéttarinnar sem þess í stað tók upp bandaríska útgáfu af leiknum: Bowling.
Árið 1849 opnaði keilubraut innanhúss með dýrindis mublum, parketi og kristalskertastjökum í miðborg London. Eitt dagblað ritaði:
„Sem skemmtun sem krefst minni líkamlegra krafta en hið grófgerða skittles, þá mun þessi leikur án vafa verða afar vinsæll“.
Fótbolti
Fótaleikur varð stærstur
Fótbolti varð gríðarlega vinsæll þegar Bretar fengu aukinn frítíma.
Reglurnar í fótbolta voru mótaðar í háskólum í Stóra-Bretlandi en verkamannastéttin heillaðist af þessari íþrótt. Eins og ritarinn í enska knattspyrnusambandinu FA orðaði svo haganlega árið 1866:
„Það sem áður var afþreying útvalinna, er nú orðin skemmtun fyrir þúsundir manna“.
Af öllum áhugamálum Breta varð fótbolti langvinsælastur meðal verkamannastéttarinnar – hvort heldur var um að ræða leikmennina sjálfa eða áhorfendur sem hrópuðu og klöppuðu saman höndum og hvöttu þá áfram.
Þangsöfnun
Áhugamenn um jurtaríkið héldu til strandar
Meðfram breskum ströndum vaxa meira en 40 mismunandi tegundir af þangi – nóg fyrir safnara.
Charles Darwin og aðrir náttúruvísindamenn efldu mjög áhuga manna á dýrum og plöntum með vísindalegum rannsóknum sínum á 19. öld. Áhugi þessi varð til þess að fjölmargir tóku nú að fylgjast grannt með fuglum, fanga skordýr og jafnvel safna þangi.
Húsmæður og fjölskyldufeður héldu til breskra stranda til að safna þangi en síðan var það tegundagreint, þurrkað og límt inn í bók. Áhugamál þetta var ódýrt – einkum fyrir þá sem bjuggu nærri ströndinni og vildu leita uppi plöntur sem safn þeirra skorti.
Árið 1881 lagði rithöfundurinn A.B. Hervey til að safnarar tækju með sér eftirfarandi græjur á ströndina:
„Töng, skæri, langt prik með öngli á endanum (til að krækja í fljótand þang, ritstj.), tvo til þrjá hvíta diska (til að leggja þangið á meðan það var þvegið, ritstj.) og pappír eða gamalt bómullarefni til að þurrka plönturnar með“.
Samkvæmt Hervey var farsælast að koma plöntunni fyrir á sínum stað í safnarabókinni strax á ströndinni.
Kórsöngur
Hjartnæmur kórsöngur sameinaði Bretana
Karlakórar, kvennakórar barnakórar, kirkjukórar – allt fram til dagsins í dag hafa Bretar verið heillaðir af margradda kórum.
Sæmilega stór salur með píanói var það eina sem þurfti til að fólkið gæti sungið saman og það varð skjótt mjög vinsæl tómstundaiðja á 19. öld.
Kórsöngur var ein af örfáum tómstundum sem gat sameinað hið stéttskipta Stóra-Bretland – og ekki leið á löngu þar til finna mátti verksmiðjueigendur, kennara og heimavinnandi húsmæður í sama kórnum. Yfirstéttin hélt sig þó í tilhlýðilegri fjarlægð.
Kórfélagar kepptust um að syngja sem best og æfingarnar máttu alls ekki leysast upp í einhverjum drykkjulátum og rugli. Umburðarlyndið var þó aðeins meira hjá Huddersfield Choral Society en mörgum öðrum en þar var hófleg drykkja leyfð:
„Á mánaðarlegum æfingakvöldum má hver meðlimur drekka að hámarki þrjú gills af öli (sem nemur 0,4 lítrum, ritstj.),“ sagði í reglubók þeirra.
Upp úr 1850 tóku kórar að safnast saman og keppa um hver þeirra gæti sungið sem listilegast. Áhugamannakórar kepptu hver við annan á fjölmennum hátíðum úti um allar sveitir sem drógu til sín þúsundir áhorfenda. Síðar urðu til landsmót í þessari göfugu tómstundaiðju.
Baðdagurinn mikli
Lestarferðir löðuðu fólk til stranda
Harðbannað var að baða sig nakinn og því voru bæði menn og konur í efnismiklum baðfatnaði.
Eftir því sem járnbrautarkerfið stækkaði lækkaði fargjaldið og þá fengu fleiri færi á að halda til strandar og skella sér út í öldurnar.
Á meðan ferðalagið frá London til baðstrandabæjarins Brighton gat tekið heila sjö tíma í hestakerru, gat lest farið sömu leið á einungis tveim tímum 40 árum síðar. Og fargjaldið var þriðungur þess sem kostaði að fara með hestakerrunni.
Verkamenn höfðu jafnan aðeins efni á að fara eina slíka ferð á sumri en þá var slíkt ferðalag niður á ströndina, þar sem menn og konur gátu spókað sig í efnismiklum baðfatnaði í fersku lofti og sól, talið vera hápunktur ársins í lífi þeirra.
Þessar miklu vinsældir urðu til þess að margvíslegar skemmtanir spruttu upp í strandbæjum meðfram suðurströnd Englands. Hljómsveitir léku listir sínar á ströndinni og litríkir skemmtigarðar með alls konar tækjum reyndu að laða til sín sem flesta gesti.
Þá gátu ferðalangarnir einnig farið í útsýnisturna í mörgum bæjum sem þótti sérlega góð skemmtun á þessum tíma.
Hjólaferðir
Pedalatramparar könnuðu landið
Öryggisreiðhjól án stangar gerði konum kleift að hjóla íklæddar siðsamlegum kjólum.
Svonefndur veltipétur hafði verið reiðhjól yfirstéttarinnar – dýrt og nokkuð hættulegt farartæki, enda erfitt að halda jafnvægi. Þegar Bretinn John Starley kynnti til sögunnar svokallað öryggisreiðhjól árið 1885 – með keðjuhlíf og tveimur jafn stórum hjólum – greip um sig mikið reiðhjólaæði í Stóra-Bretlandi.
Auðveldara var að hjóla á þessu nýja reiðhjóli og með fjöldaframleiðslu á því lækkaði verðið verulega. Það var einkum miðstéttin sem heillaðist af þessum nýja járnhesti, því nú var hægt að nota frídagana til þess að kanna nánasta umhverfið betur. Margir gengu í klúbba sem skipulögðu lengri sunnudagsferðir.
Að vera staddur í margra kílómetra fjarlægð á mosagrónum hæðum, þar sem maður getur bara sest niður og kveikt sér í pípu og spjallað við ágæta félaga sína í klúbbnum – það er helsti kosturinn við reiðhjólið – skrifaði einn ánægður meðlimur.
Fyrir aldamótin 1900 hafði verkamannastéttin enn ekki efni á reiðhjólum en í breskum strandbæjum gátu þeir leigt slík hjól og spreytt sig á þessu nýja farartæki.
Kvennatennis
Korselett og tennisspaðar fóru saman hönd í hönd
Tennis á 19. öld var leikinn með spöðum sem líktust einna helst teppabönkurum.
Flóðbylgja verkamanna í leit að tómstundum riðlaði hinu stéttskipta samfélagi Bretlands. Hvað var nú til ráða fyrir fordómafulla yfirstéttina – án þess að þurfa að komast í tæri við „einfaldan almúgann“?
Svarið fólst í tennis sem hafði verið þekkt í mismunandi útgáfum allt frá 12. öld. Árið 1873 rissaði hinn breski Walter C. Wingfield upp reglurnar fyrir tennis nútímans og yfirstéttin tók þessu útspili hans fagnandi.
Eftir tilkomu garðsláttuvélarinnar gátu Bretar leikið á sléttri og snyrtilegri grasflöt og þar sem íþrótt þessi fól ekki í sér líkamlegt návígi, náði tennis miklum vinsældum meðal kvenna.
Konurnar þurftu þó að gæta að öllu velsæmi því að siðaboðskapur Viktoríutímans var harla strangur og forboðið var að sýna bera handleggi og fætur. Konurnar þurftu þannig að vera íklæddar ermasíðum kjólum sem náðu niður á ökkla.
Árið 1884 var í fyrsta sinn keppt í tennis kvenna á hinu virðulega Wimbledon-móti og nú töldu hæfileikar meira en göfugt ætterni. Í úrslitaleiknum sigraði hin 19 ára prestsdóttir Maud Watson systur sína – báðar þurftu þær að klæðast korseletti og stífðum pilsum til að ganga ekki fram af sómakærum aðlinum.
Lesið meira um tómstundir Breta
- Robert Malcolmson: Popular Recreations in English Society 1700-1850, Cambridge University Press, 2010.