Felix Baumgartner var fyrsti maðurinn rauf hljóðmúrinn í frjálsu falli þegar hann stökk úr loftbelg nærri 39 km hæð árið 2012. Nú hafa vísindamenn við Tækniháskólann í München reiknað út hvernig hann gat náð svo miklum fallhraða.
Galli Baumgartners var sérhannaður, loftþéttur þrýstingsgalli, en ekki tiltakanlega straumlínulagaður. Þvert á móti gátu myndast fellingar á ytra byrðinu og það krumpast.
Hraðinn kom á óvart
Það er erfitt að segja fyrir um það hvernig loftstraumar myndast þegar fallandi hlutur nálgast hljóðhraðann. Loftið hegðar sér öðruvísi en venjulega og myndar höggbylgjur og iðustrauma sem hafa hemlunaráhrif.
Öllum að óvörum sýndu þó útreikningarnir að krumpað yfirborð gallans dró ekki úr hraðanum, heldur þvert á móti.
Flugvélar framtíðar
Hemlunaráhrifin hefðu átt að tvöfaldast ef búningurinn hefði verið alveg sléttur, en í þessu tilviki héldust þau nánast óbreytt. Yfir sig hissa neyddust þýsku vísindamennirnir til að viðurkenna að krumpað yfirborð er afar hentugt ef maður ætlar sér að ná meiri hraða en hljóðið.
Það er þetta ójafna yfirborð, sem væntanlega á heiðurinn að því að Baumgartner náði hljóðhraðanum mun fyrr en búist var við. Niðurstöðurnar eru athyglisverðar fyrir flughönnuði, sem þurfa að hanna framtíðarflugvélar þannig að þær nálgist hljóðhraðann.
Metið er 42 km
Hljóðhraðinn er um 1.200 km/klst,
Baumgartner náði 1.357,64 km hraða.
Metið stóð í tvö ár, en Alan Eustace sló það 2014 þegar hann stökk úr 42 km hæð.