Lifandi Saga

Dans indíána orsakaði blóðbaðið við Wounded Knee

Undir lok 19. aldar stigu Sioux-indíánar nýjan andadans sem eins konar tákn um baráttuna við að vinna slétturnar aftur úr höndum hvítu mannanna. Bandaríkjamenn túlkuðu dansinn sem stríðsyfirlýsingu og réðust á indíánana við Wounded Knee. Hér fjöllum við um blóðbaðið sem á svo hrottalegan hátt stöðvaði indíánastríðin.

BIRT: 18/05/2024

Rödd töfralæknisins Gula fugls hljómaði skýrt yfir snævi þakta sléttuna:

„Óttist ei, heldur styrkið hjörtu ykkar. Margir hermenn hafa umkringt okkur og hafa margar byssukúlur en ég er sannfærður um að kúlur þeirra komast ekki í gegnum okkur.“

 

Guli fugl var staddur í grennd við Wounded Knee-lækinn þar sem nú er Pine-Ridge-friðland indíána. Ásamt honum voru þarna um 350 indíánar af Lakota-ættbálknum sem var hluti af Sioux-þjóðinni. Það var nístandi kaldur vetrarmorgun, 29. desember 1890.

 

Kvöldið áður höfðu 500 hermenn úr riddaraliði 7. herfylkis stöðvað för indíánanna. Hermennirnir lutu forystu James W. Forsyth undirofursta. Forsyth hafði fengið skipun frá stjórnvöldum um að þefa uppi og berja niður hvaðeina sem mögulega gæti orðið að uppreisn indíána.

Safn í Wounded Knee byggt nálægt fjöldagröf Lakota indíána sem drepnir voru 29. desember árið 1890. Það var í þessu hæðótta landslagi sem fjöldamorðin fóru fram.

Hermennirnir voru að leita að vopnum í indíánatjöldunum þegar Guli fugl hóf upp raust sína.

 

Töfralæknirinn óttaðist ekki byssur hvítu mannanna. Eins og margir aðrir Sioux-indíánar trúði hann því nefnilega að sérstakur andadans verndaði indíánana fyrir byssukúlunum.

 

Guli fugl kastaði handfylli af mold upp í loftið og hóf að stíga dansinn í snjónum. Fleiri bættust við og stigu dansinn með honum og taugar hermannanna voru þandar. Þeir litu á þennan dans sem stríðsyfirlýsingu.

 

Mikil spenna lá í loftinu og skyndilega heyrðist byssuskot. Nær samstundis náði tryllingurinn tökum á hermönnunum.

 

Þeir skutu á fólkið eins og þeir ættu lífið að leysa og vopnlausir indíánarnir féllu eins og hráviði og lituðu snjóinn rauðan með blóði sínu.

 

Skammt frá hvítum fána sem indíánarnir höfðu reist til að sýna að þeir færu með friði, féll kona til jarðar með ungbarn sitt á brjósti. Kornabarnið hélt áfram að sjúga brjóst móður sinnar þótt hún væri dáin.

 

Of fáir vísundar og of mikið gull

Árið 1890 var vísundurinn í útrýmingarhættu. Þetta endurspeglast greinilega í titlinum á málverki þýsk-bandaríska málarans Alberts Bierstadt frá 1888: "The Last of the Buffalo".

Blóðbaðið við Wounded Knee varð síðasta „orrustan“ milli frumbyggja Ameríku og hvítu nýlenduherranna en langt í frá sú fyrsta.

 

Frá 1492, þegar Kólumbus fann Ameríku og fram til 1890 hafði frumbyggjum álfunnar fækkað úr fimm milljónum niður í um 248.000.

 

Mjög margir urðu fórnarlömb nýrra sjúkdóma sem hvítu mennirnir fluttu með sér til „nýja heimsins“. Fjölmargir týndu líka lífi í bardögum og átökum milli indíána og innflytjenda. Enn aðrir urðu hungursneyð að bráð.

 

Einna óhugnanlegastar voru ofveiðar hvítu mannanna á vísundum sem heita mátti að væri útrýmt. Indíánar voru mjög háðir vísundum og nýttu ekki aðeins kjötið heldur líka húðirnar í fatnað og tjöld.

 

Vísundaveiðar Evrópumannanna fóru sívaxandi og náðu hámarki á síðari hluta 19. aldar. Á 17. öld voru vísundar á sléttum Norður-Ameríku ekki færri en 25 milljónir en rúmum 200 árum síðar voru aðeins eftir um 100 vísundar í öllum Bandaríkjunum.

 

Árið 1830 skrifaði Andrew Jackson Bandaríkjaforseti undir lög um flutning allra indíána til verndarsvæða vestan Mississippifljóts. Margir neituðu að yfirgefa lendur sínar með þeim afleiðingum að mörg þúsund indíánar voru skotnir niður í hernaðaraðgerðum sem ekki er unnt að kalla annað en fjöldamorð.

 

Það var ekki að ástæðulausu sem Jackson forseti fékk heitið Beitti hnífur í munni indíána.

 

Þrjú hundruð ára indíánastríð

Í orrustunni við Little Bighorn stráfelldu allt að 3.000 indíánar Custer undirofursta og alla 250 hermenn hans.

Blóðbaðið við Wounded Knee varð síðasta skiptið sem kom til vopnaviðskipta milli landnema og indíána að einhverju ráði. Í nærri þrjú hundruð ár börðust indíánar gegn ofureflinu undir stjórn höfðingja sinna, þeirra á meðal kappanna Óða hests (Crazy Horse) og Sitjandi tarfs (Sitting Bull).

 

Fyrstu aldirnar ríkti að mestu friður milli landnema og indíána í Norður-Ameríku.

 

Fram eftir 17. öld fjölgaði landnemum til muna, einkum Englendingum og Frökkum og Evrópumenn fóru að leggja undir sig lönd frumbyggjanna sem eðlilega leiddi til árekstra við ættbálka indíána.

 

Allmörg stríð voru háð milli indíána og Englendinga eða Frakka allt fram að sigri hinna nýju Bandaríkja í frelsisstríðinu 1783. Um það leyti voru um 2,8 milljónir evrópskra landnema búsettar í nýlendunum.

 

Eftir sigur Bandaríkjanna streymdu milljónir Evrópubúa til Norður-Ameríku í von um landspildu og betri tilveru.

 

Og eftir að gull fannst í Kaliforníu 1848 jókst aðflutningur samviskulausra gróðamanna sem ráku indíána af landi sínu og eyðilögðu landnot þeirra.

 

Stríðshöfðingjar á borð við Óða hest, Sitjandi Tarf og Rauða ský (Red Cloud) stunduðu margvíslegan skæruhernað gegn hvítu mönnunum á síðari hluta 19. aldar.

 

Indíánar réðust gjarnan að landnemum úr launsátri og höfðu sjaldnast skýr herfræðileg markmið. Þeir vildu í rauninni aðeins fá að halda landi sínu og lifa í friði fyrir stöðugu ofbeldi hvíta mannsins.

Hefnd indíána

Alls staðar þar sem gull fannst spratt upp gullgrafaraþorp. Mikill fjöldi þessa aðkomufólks hafði mikil áhrif á lifnaðarhætti indíána.

 

Klappir voru sprengdar, jarðvegur sundurgrafinn og vatnsfarvegir eyðilagðir í ákafanum við gullleitina. Þetta spillti möguleikum indíána til að afla sér fæðu með dýraveiðum, landbúnaði og fiskveiðum.

Frumbyggjar Norður-Ameríku gátu ekki túlkað gullleit landnema sem annað en ágang á land þeirra. Hér má sjá á í Kaliforníu sem breytt var árið 1850 í leit að gulli sem hugsanlega var á árbotninum.

En frumbyggjarnir gáfust ekki upp baráttulaust og 1876 kom hefndin. Indíánar undir forystu Óða hests og Sitjandi tarfs (Crazy Horse og Sitting Bull) komu öllum Bandaríkjamönnum á óvart með því að gjörsigra Custer undirofursta og her hans í stórorrustu við Little Bighorn. Ekki einum einasta hermanni var þyrmt.

 

Árið 1869 hafði Sitjandi tarfur verið kjörinn höfðingi allra Sioux-indíána en fjölmargir ættbálkar þeirra höfðust við á svæðinu milli Minnesota og Klettafjalla.

 

„Ég hata alla hvíta menn. Þeir eru þjófar og lygarar. Þeir hafa stolið landi okkar og gert okkur að útlögum,“ sagði Sitjandi tarfur um óvini sína.

 

Eftir hrakfarirnar við Little Bighorn var hatrið fyllilega endurgoldið. Sitjandi tarfur fékk að finna fyrir því þann 15. desember 1890 þegar hann var handtekinn heima hjá sér, á verndarsvæðinu Standing Rock. Ákæran? Að leyfa fólki sínu að dansa andadansinn.

 

Andadans gegn byssukúlum

Málarinn Frederic Remington kom til Pine Ridge friðlandsins skömmu eftir fjöldamorðin í Wounded Knee. Myndirnar af andadönsurum sem hann gerði fyrir Harper's Magazine í New York segja hins vegar ekkert um slátrun á Lakota indíánum. Indíánarnir höfðu líka tapað stríðinu um sannleikann.

Andadansinn var eins konar trúarathöfn og hluti af trúarvakningarhreyfingu sem breyddist út meðal Sioux-indíána upp úr 1870.

 

Á þessum tíma voru um 18.000 Sioux-indíánar í Norður-Ameríku og af þeim aðhylltust um 4.000 þessa nýju trúariðkun.

 

Andadansinn átti að vekja dauða stríðsmenn til lífsins, þannig að þeir gætu komið nauðstöddum indíánum til bjargar.

 

Saman áttu lifandi og dauðir að eyða hvítu mönnunum og færa indíánum slétturnar og vísundana aftur.

 

Bandarísk stjórnvöld óttuðust að þessi trúarstefna og andadansinn gætu leitt til uppreisna og margir hvítir menn litu á dansinn sem beina stríðsyfirlýsingu.

 

Blöðin ólu á ótta almennings með því að skrifa um uppþot undir forystu „blóðþyrstra villimanna“, jafnvel þótt engin illvirki hefðu verið framin.

 

Þann 13. nóvember 1890 sendi Benjamin Harrison forseti þriðjung af öllum herafla Bandaríkjanna til verndarsvæða Sioux-indíána með fyrirskipun um að berja niður allar tilraunir til uppþota sem landnemunum gæti stafað ógn af.

Tvær af aðalpersónunum atburðanna í aðdraganda fjöldamorðanna. Vinstra megin Spotted elg (einnig kallaður Big Foot), sem var höfðingi Lakota ættbálksins og var myrtur við Wounded Knee. Hægra megin, hinn goðsagnakenndi Sioux-höfðingi Sitting Bull, sem var skotinn 14 dögum fyrir fjöldamorðin þegar hann mótmælti handtöku sinni.

Í samræmi við þessa fyrirskipun vöktu lögregluþjónar verndarsvæðisins (indíánar, ráðnir til lögreglustarfa af bandarískum stjórnvöldum) hinn 59 ár Sitjandi tarf snemma morguns 15. desember 1890. Hann skyldi handtekinn og ákærður fyrir að hvetja fólk sitt til uppreisnar.

 

Indíánarnir mótmæltu handtökunni harkalega og í hamaganginum skaut einn lögreglumaðurinn Sitjandi tarf til bana.

 

Morðið á æðsta leiðtoga Sioux-indíána olli mikilli ólgu á verndarsvæðunum og um 200 af fylgjendum Sitjandi tarfs flúðu inn á verndarsvæðið Cheyenne River til að ganga til liðs við höfðingjann Yrjótta elg.

 

Yrjótti elgur var höfðingi Menniconjou-indíána, eins af alls sjö aðalættbálkum Sioux-þjóðarinnar.

 

Af ótta við að hljóta sömu örlög og Sitjandi tarfur, lét Yrjótti elgur taka upp tjöldin og hélt með sitt fólk í átt að verndarsvæðinu Pine Ridge, um 320 km suður af Cheyenne River.

 

Þar var ætlun hans að hitta annan Sioux-höfðingja, Rauða ský og ræða hvernig væri unnt að binda enda á stöðugar ofsóknir og dráp á þessum þjóðflokkum.

 

En Yrjótti elgur og fólk hans komust aldrei svo langt.

 

Hermenn skutu konur og börn

Bandarískir hermenn ásamt njósnaskátum af ættum indíána stilla sér upp við Hotchkiss-byssuna sem dældi skotum yfir indíánana við Wounded Knee.

Nú er óvíst hver hleypti af fyrsta skotinu við Wounded Knee.

 

Hermennirnir héldu því fram að það hefðu verið indíánar en indíánarnir fullyrtu að það hefðu verið hermenn Forsyths sem skutu fyrst.

 

Hitt er víst að fyrsta skotið sprengdi í loft upp þá spennu sem fyrir var milli hermannanna og Sioux-indíánanna.

 

Hermennirnir skutu á vopnlausa indíánana hver í kapp við annan og úr vélbyssunni sem stóð uppi á hæðinni dundi skothríðin á varnarlausu fólkinu. Konur og börn sem í örvæntingu reyndu að forða sér, voru miskunnarlaust skotin niður.

 

Meðal fárra sem lifðu af var 13 ára stúlka, Alice Ghost Horse sem tókst að finna sér skjól í skurði. Báðir foreldrar hennar voru drepnir.

 

„Tvær riddarasveitir komu ríðandi að okkur og skutu á allt sem hreyfðist. Skothríðin yfirgnæfði allt annað og fólk æpti og kallaði á börnin sín,“ rifjaði hún upp mörgum árum síðar.

 

Fjöldamorðingjarnir heiðraðir

Forsyth undirofursti laug eiðsvarinn
Hækkaður í tign

Eftir yfirheyrslu strax eftir fjöldamorðin, var Forsyth undirofursti leystur frá störfum, þótt hann fullyrti að hann hefði fengið beinar skipanir um að drepa Sioux-indíánana við Wounded Knee. Forsyth var þó ekki lengi úti í kuldanum og var síðar hækkaður í tign upp í undirhershöfðingja. Opinber stjórnvöld, undir forystu forsetans, ákváðu að rannsókn lokinni að afgreiða fjöldamorðin sem „óhapp“.

20 fengu heiðursorður
Heiðraðir

Bandaríkjaþing sæmdi 20 hermenn heiðursorðum (Medal of Honor) fyrir framgöngu sína í „orrustunni“ við Wounded Knee. Slík orða er æðsta heiðursmerki sem veitt er í bandaríska hernum. Á þessari mynd sjást hermenn stilla sér upp við fjöldagröf við Wounded Knee, skömmu eftir blóðbaðið en ekki er vitað hvort einhverjir þeirra fengu orðu.

Baráttan fyrir réttlæti stendur enn yfir
Eftirlifandi

Árið 1990 samþykkti Bandaríkjaþing opinbera afsökunarbeiðni vegna blóðbaðsins við Wounded Knee. 2019 var í fulltrúadeildinni lögð fram tillaga um að draga til baka orðuveitingar hermannanna en hún var ekki samþykkt. Barátta fyrir réttlætinu stendur hins vegar enn. Á þessari mynd eru þrír Lakota-bræður sem misstu foreldra sína og þrjú systkini við Wounded Knee. Þeir veittu baráttunni forystu áratugum saman.

„Þar dó draumur þjóðar“

Fjöldamorðin voru afstaðin eftir nokkrar mínútur. Lík kvenna, barna og karla lágu á víð og dreif í snjónum og blóðið fossaði enn úr skotsárunum. Alls myrtu hermennirnir 153 indíána, þeirra á meðal Yrjótta elg sem lá eftir í snjónum.

Eftir tvo daga af erfiðu ferðalagi um hina snævi þöktu amerísku sléttu fékk hafði Sioux-höfðinginn Spotted Elk alvarlega lungnabólgu en hann var meðal fórnarlamba fjöldamorðanna.

Margir fleiri dóu á næstu dögum, ýmist af sárum sínum, sulti eða kulda. Giskað hefur verið á að af alls 350 Sioux-indíánum í búðunum hafi 300 látið lífið við Wounded Knee.

 

Mannfall í röðum hermannanna var miklu minna. 25 létu lífið og 39 særðust. Í flestum tilvikum höfðu þessir hermenn orðið fyrir skotum sinna eigin félaga.

 

Eftir blóðbaðið skipaði Forsyth mönnum sínum að taka það fólk sem enn var á lífi og setja á hestvagna sem voru með í för.

 

Fáeinum tímum eftir að hermennirnir voru farnir, kom Sioux-indíáninn Svarti elgur til Wounded Knee.

 

Í bókinni Black Elk Speaks frá árinu 1932 segir hann frá þeirri sjón sem blasti við honum.

 

„Alveg jafn skýrt og ég sá þá með mínum ungu augum, get ég enn séð fyrir mér lík kvenna og barna sem brytjuð höfðu verið niður og lágu dreifð þarna í gjánni. Og ég sé líka að fleira dó í þessu blóðbaði. Þar dó draumur þjóðar. Það var fallegur draumur.“

 

Uppreisn við Wounded Knee 1973

Oscar Bear Runner, einn afkomenda frumbyggja, með hlaðið skotvopn í uppreisninni við Wounded Knee árið 1973.

Árið 1973 var aftur dramatísk atburðarás við Wounded Knee þegar um 200 Sioux-indíánar settust upp á staðnum þar sem fjöldamorðin voru framin meira en 80 árum fyrr.

 

Þann 27. febrúar 1973 settu um 200 herskáir meðlimir AIM-samtakanna (American Indian Movement) niður búðir við Wounded Knee.

 

AIM-samtökin börðust fyrir réttindum innfæddra í Bandaríkjunum. Markmið mótmælanna var tvíþætt: Annars vegar átti að knýja spilltan yfirmann verndarsvæða, Richard Wilson, til að víkja en hins vegar var sú krafa gerð að bandarísk stjórnvöld virtu þá samninga sem höfðu verið gerðir við þjóðflokka indíána á 19. öld en brotnir höfðu verð hvað eftir annað.

 

Eftir 71 dag féllust Sioux-indíánarnir á að yfirgefa svæðið gegn því að samningaviðræður yrðu hafnar. Þá höfðu tveir indíánar og einn FBI-lögreglumaður fallið í vopnaviðskiptum milli fylkinga.

 

En vana sínum trútt stóð þingið ekki við loforð sín. AIM-samtökin héldu áfram baráttu sinni næstu árin en þau leystust upp 1978 eftir að allir helstu forystumenn þeirra höfðu verið fangelsaðir.

HÖFUNDUR: ANDREAS EBBESEN JENSEN

© Shutterstock,© Historical/Getty Images,© Public domain,© Public domain/Library of Congress,© Wikimedia Commons,© Bettmann/Getty Images

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Ofvirkni í heilastöð veldur stami

Maðurinn

Rannsókn: Þetta er ástæðan fyrir því að börn læra hraðar en fullorðnir

Maðurinn

Heilinn kortlagður: Smásæ vefsýni sýna stórbrotin smáatriði

Náttúran

Af hverju er kalt í mikilli hæð?

Maðurinn

Hversu oft segjum við ósatt?

Lifandi Saga

Kjarnorkuógnin: Sovéskur kafbátur í skerjagarðinum

Alheimurinn

Lítið eitt um þyngdarkraftinn

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.