Lifandi Saga

Dauði Maó olli harðri valdabaráttu

Í nærri 30 ár stjórnaði Maó Kína með harðri hendi en eftir dauða hans 1976 stóð eins flokks kommúnistaríkið á tímamótum. Efnahagslífinu hrakaði og einn vængurinn krafðist meiri stéttabaráttu en annar vildi opna landið fyrir vesturlöndum. Fyrsta tilraun Kína til að nútímavæðast fór hins vegar algjörlega út um þúfur.

BIRT: 24/09/2024

Þriðjudaginn 5. október 1976 sefur 62 ára gömul ekkja Maós formanns á heimili sínu þegar útsendarar kínversku öryggisþjónustunnar banka upp á. Þegar hún opnar rétta þeir henni handtökuskipun. „Hvernig dirfist þú að vera með uppsteyt og leiðindi á meðan líkami Maós formanns er ekki kólnaður?“ hrópar hún reiðilega. En mótmæli Jiang Qing, fyrrverandi forsetafrúar koma ekki lengur að gagni.

 

Jiang Qing hitti Maó árið 1937, skömmu eftir að hin 23 ára gamla fegurðardís hafði gefið efnilegan leikferil sinn í Shanghai upp á bátinn vegna innrásar Japana.

 

Hún flúði til Yan’an, þar sem Maó stjórnaði baráttu kommúnista gegn innrásarliðinu.

 

Ástin kviknaði og Maó leitaði til flokksforystunnar um skilnað við þáverandi eiginkonu sína. Hjónabandið var samþykkt gegn því skilyrði að Jiang Qing lofaði að hafa engin afskipti af stjórnmálum.

 

En hin nýja frú Maó var eldheitur kommúnisti og gat ekki stillt sig. Undir stjórn Maós fékk hún sífellt meiri völd. Jiang Qing hélt því sjálf fram að á dánarbeði sínu hafi Maó heimilað henni að halda byltingunni áfram ásamt þremur öðrum. Þetta eru þau fjögur sem síðar urðu þekkt sem fjórmenningaklíkan. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að skýring hennar eigi sér stoð í raunveruleikanum þar sem samband Maós við eiginkonu sína var afar stirt.

 

Á sama tíma og hún var færð í fangaklefa handtók öryggislögreglan aðra meðlimi fjórmenningaklíkunnar sem voru grunaðir um að vilja nýta sér valdatómið eftir dauða hins einvala Maós. Framtíð Kína veltur á því hverjir ná völdum í kommúnistaflokknum.

 

Verði fjórmenningaklíkan ekki stöðvuð mun kommúnistatilraun Maós þróast yfir í ofbeldisfullt uppgjör. En dagar byltingarinnar eru liðnir. Það er kominn tími á breytingar. Á þessum tímapunkti mun ráðast hver verði stefna Kína sem er í dag leiðandi efnahagsveldi í heiminum.

 

Rauðu varðliðarnir yfirbuguðu gagnrýnendur Maós

Árin undir forystu Maós formanns (1949-1976) höfðu boðið upp á miklar sviptingar en litlar framfarir í lífskjörum Kínverja. Milljónir höfðu dáið úr hungri í svokölluðu „framfarastökki“ Maós á árunum 1958 og 1959, og formaðurinn sjálfur greiddi mistök sín háu verði.

 

Snemma á sjöunda áratugnum setti kommúnistaflokkur Kína hann til hliðar og eftirlét hinum raunsærri Deng Xiaoping og hægri armi flokksins allar mikilvægar ákvarðanir.

 

Árið 1966 endurheimti Maó völd sín í annarri miskunnarlausri herferð – „Menningarbyltingu verkalýðsins“. Opinberlega átti hún að hreinsa í burt það sem eftir var af borgaralegum gildum.

Hungursneyð lamaði heilu þorpin. Í örvæntingu sinni gripu sumir til mannáts.

Hið raunverulega markmið herferðarinnar var hins vegar að hreinsa; fangelsa og útrýma andstæðingum Maós.

 

Til að framkvæma hreinsunina höfðu Maó og eiginkona hans, Jiang Qing sem var nú orðin ein af þeim sem mestu réðu í kommúnistaflokknum, allt að 11 milljónir rauðvarðliða sem voru ungir stúdentar í einkennisbúningum og búnir vopnum. Þeir fóru um landið og leituðu uppi stjórnmálamenn, embættismenn, kennara og aðra sem grunaðir voru um að styðja Deng-vænginn.

 

Þeir sem voru handteknir voru barðir og niðurlægðir opinberlega áður en réttað var yfir þeim og þeir dæmdir í réttarhöldum sem voru hrein skrumskæling á sanngjörnum réttarhöldum. Einn af mörgum sem upplifðu þessa niðurlægingu var faðir núverandi leiðtoga Kína, Xi Jinping.

 

Innan skamms tíma tilheyrðu Deng og aðrir hægrisinnar fortíðinni – Maó og vinstri menn tóku við forystu landsins. Valdabaráttan kostaði eina til tvær milljónir Kínverja lífið og enn fleiri sátu í fangelsum árum saman.

Um allt Kína spruttu upp frumstæðir bræðsluofnar en þeir framleiddu járn af svo lélegum gæðum að ekki var hægt að nota það.

Bræðsluofnar kostuðu Maó völd

Sennilega muna margir eftir Mao Zedong sem óumdeildum leiðtoga og einræðisherra Kína í tæp 30 ár frá 1949 en svo var ekki. Eftir alvarlega kreppu árið 1959 var Maó ýtt til hliðar.

 

Árið 1958 hóf Maó formaður „Stóra framfarastökkið“ – efnahagsáætlun sem fól í sér að koma á fót þúsundum svokallaðra alþýðusamfélaga. Hér þurftu Kínverjar að búa, sofa, borða og leggja fram vinnu sína. Í staðinn fengu þeir fæði, húsnæði, fatnað og læknishjálp. Í sveitarfélögum fólksins voru byggðir litlir bræðsluofnar til að framleiða járn.

 

Samkvæmt áætlun Maós átti iðnvæðing Kína ekki aðeins að eiga sér stað í borgunum heldur einnig á landsbyggðinni. Áróðurinn lýsti áætluninni sem frábærlega árangursríkri en vegna þess að bændur þurftu að bræða járn og veiða það sem Maó kallaði hinar miklu plágur Kína (rottur, flugur, moskítóflugur og spörva), var uppskeran vanrækt og matvælaframleiðsla landsins dróst saman.

 

Milli 20 og 55 milljónir Kínverja dóu úr hungri en öðrum tókst að lifa af með því að borða börk, skordýr og grasrót.

 

Hamfarirnar kostuðu Maó völdin árið 1959. Kommúnistaflokkurinn leyfði honum að halda formannstitlinum en tók af honum öll eiginleg völd. Næstu sjö árin bar keppinautur Maós, Deng Xiaoping, ábyrgð á endurreisn efnahags Kína.

 

Það var ekki fyrr en árið 1966 sem Maó endurheimti stöðu sína sem óumdeildur leiðtogi Kommúnistaflokksins og Kína.

Maó var veikur þegar arftaki hans lést

Deng Xiaoping slapp við fangelsi en var sendur í útlegð í dráttarvélaverksmiðju 1.500 km suður af höfuðborginni. Hér eyddi hann fjórum árum áður en Maó þurfti aftur á honum að halda.

 

Eftir að allir á toppi flokksins höfðu verið hreinsaðir í burtu vantaði hæfa leiðtoga í Kína og Deng var tekinn inn í kommúnistaflokkinn og smátt og smátt fékk hann mikilvægari trúnaðarstöður. En þetta voru óvissutímar.

 

Í janúar lést Zhou Enlai sem Maó, þá orðinn alvarlega veikur, hafði útnefnt sem eftirmann sinn. Fráfall hans ýtti af stað innri valdabaráttu á toppi kommúnistaflokksins sem skiptist í þrjá hópa:

 

Í miðju valdabaráttunnar var Hua Guofeng sem var augljós málamiðlunarframbjóðandi. Á vinstri vængnum leyndist fjórmenningaklíkan með Jiang Qing í forsvari og á hægri vængnum stóð Deng Xiaoping sem vildi bæta við hefðbundinn áætlunarbúskap Kína markaðsvæðingu í efnahagsmálum – einmitt það sem harðlínukommúnistar voru andsnúnastir af öllu: Kapítalisma. Ofan á valdabaráttuna var almenningur farinn að ókyrrast.

 

Í apríl, þegar Kínverjar héldu upp á qingming – hina miklu vorhátíð þegar fjölskyldur safnast saman til að minnast látinna ættingja sinna – hófust sjálfsprottin mótmæli með allt að 100.000 þátttakendum á Torgi hins himneska friðar í Peking.

 

Mótmælendurnir lögðu blómsveiga og skrifuðu ljóð til minningar um Zhou Enlai, á sama tíma og þeir gagnrýndu bæði fjórmenningaklíkuna og hinn veikburða Maó sjálfan.

 

Mótmælendurnir hrópuðu einnig slagorð gegn menningarbyltingunni sem varð til þess að yfirvöld tóku sig til og leystu mótmælin upp með valdi. Deng Xiaoping var sakaður um að standa á bak við þennan „andbyltingaratburð“ og missti aftur öll embætti sín í flokknum.

Á síðustu öld hafa Rússland og Kína átt í stormasömu sambandi með fullt af hatri og ást. En frá því að Sovétríkin féllu árið 1991 hafa löndin tvö byggt upp mikla vináttu.

Á opinberum myndum stóð Lin Biao varnarmálaráðherra (til hægri) alltaf næst Maó.

Varnarmálaráðherrann reyndi að myrða formanninn

Árið 1971 var Kína enn fátækt og afturhaldssamt ríki. Þegar Maó formaður tók róttæka ákvörðun um að ráðast gegn erkióvininum var það nálægt því að kosta hann lífið.

 

Í september árið 1971 fannst flugvél sem hafði hrapað á landamærum Kína og Mongólíu. Í vélinni lágu kulnaðar leifar varnarmálaráðherra Kína, Lin Biao, eiginkonu hans og sonar auk nokkurra háttsettra hermanna. Enginn veit með vissu í dag hvort þau voru myrt eða hvort flugvélin einfaldlega hrapaði.

 

Lin Biao hafði verið einn mikilvægasti stuðningsmaður Maós þegar hin svokallaða menningarbylting árið 1966 tryggði völd Maós. Þegar sú bylting hafði staðið í fimm ár varð Maó að horfast í augu við að landið var algjörlega einangrað og stóð öðrum ríkjum að baki. Eitthvað varð að gera.

 

Í örvæntingu sinni leitaði Maó til hugmyndafræðilegs erkióvinar; Bandaríkjanna. Fyrir Lin Biao voru það landráð gegn kommúnisma og að sögn flokksins reyndi hann því að myrða Mao Zedong árið 1971 til að ná völdum sjálfur.

 

Engar upplýsingar um valdaránstilraunina liggja fyrir í dag en margar kenningar eru á lofti um hvernig menn hugðust ryðja Maó úr vegi: Annað hvort með loftárás á bústað hans í Shanghai, skemmdarverkum á einkalest hans eða morði frömdu af morðingja dulbúnum sem hraðboða.

 

Þegar valdaránið mistókst reyndi Lin Biao að komast undan í flugvél en – samkvæmt opinberu kínversku skýringunni – var hún ekki með nægt eldsneyti um borð og hrapaði.

Umbótaáætlun hrynur

Maó formaður lést að lokum í september, 82 ára gamall. Lýst var yfir vikulöngu sorgartímabili á meðan milljón Kínverjar gengu fram hjá andvana líkama hans. Lík formannsins var síðan smurt svo hægt væri að heiðra hann um alla eilífð í grafhýsi á Torgi hins himneska friðar.

 

Í valdatóminu sem varð strax eftir dauða Maós tókst hinum hófsama Hua Guofeng að tryggja sér völdin.

 

Hua átti frumkvæðið að því að koma efnahagslífi Kína í lag með hjálp „Stóra framfarastökksins“ sem hann gerði að sínu. Nafn herferðarinnar var valið til að undirstrika að Hua væri eðlilegur arftaki Maós.

 

„Stökkið“ að þessu sinni fólst í því að hraða nútímavæðingu kínversks iðnaðar með því að flytja inn vestræna tækni. Landbúnaður, iðnaður, vísindi og her urðu að taka stökkið inn í nútímann á skömmum tíma.

 

Kína gerði samninga við nokkur vestræn fyrirtæki en fljótlega kom í ljós að umbætur Hua virkuðu ekki. Efnahagur Kína einkenndist af óðaverðbólgu og lítilli framleiðni.

 

Þegar kom að því að greiða þurfti skuldirnar við Vesturlönd kom líka í ljós að Kína átti ekki fyrir þeim. Hætta þurfti við marga af samningunum og mörg vestræn fyrirtæki urðu fyrir miklu fjárhagstjóni.

 

Dauðadómar yfir óvinum Dengs

Mistökin í efnahagsstjórn kostuðu Hua Guofeng völdin og árið 1978 var Deng Xiaoping aftur tekinn inn í flokkinn – í þriðju pólitísku endurkomu hans í landi þar sem stjórnmálamenn fá sjaldan meira en eitt tækifæri.

 

Fyrst lét hann rétta yfir fjórmenningaklíkunni og ekkju Maos sem hafði farið fyrir aðförinni að honum í menningarbyltingunni.

Ekkja Maós, Jiang Qing, lét ófriðlega við réttarhöldin yfir fjórmenningaklíkunni og var handjárnuð.

Réttarhöldin gegn þeim hófust síðla árs 1980 og fóru fram fyrir luktum dyrum. Ríkisstýrð sjónvarpsstöð sýndi daglega frá dómshúsinu og fréttum af réttarhöldunum var dreift til íbúanna í gegnum dagblöð flokksins sem voru í milljónaupplagi.

 

Í ákærunni kom fram að fjórmenningaklíkan bæri ábyrgð á dauða 34.800 manns og að hafa borið fram tilhæfulausar ákærur á meira en 700.000 pólitíska andstæðinga í menningarbyltingunni.

 

Þessi réttarhöld voru líka hreinn skrípaleikur – þau snerust í raun um að fjórmenningaklíkan hafði náð völdum – og þau fjögur voru dæmd fyrirfram.

 

Jiang Qing og annar meðlimur fjórmenningaklíkunnar fengu dauðadóma en hinir tveir fengu langa fangelsisdóma. Engum dauðadómanna var þó framfylgt en þeir sýndu að í Kína kommúnismans var hættulegt að missa völd sín.

 

Meðan á réttarhöldunum stóð fékk Jiang Qing krabbamein í hálsi og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús. Hún svipti sig lífi 14. maí 1991, 77 ára gömul. Í kveðjubréfi sínu gerði hún úttekt á misheppnuðu byltingunni – og lýsti gleði sinni yfir því að fá að hitta Maó í framhaldslífinu:

 

„Í dag hefur byltingunni verið stolið af endurskoðunarklíku Deng. Maó formaður útrýmdi Liu Shaoqi en ekki Deng og afleiðingin af því aðgerðaleysi er sú að endalaus illska hefur verið leyst úr læðingi yfir kínversku þjóðina og ríkið.

 

Formaður, þú átt eftir að standa frammi fyrir nemanda þínum og samherjum!“ Á þeim tíma var Deng Xiaoping á fullu að hrinda í framkvæmd hugmyndum sínum um að innleiða stýrt markaðshagkerfi í Kína.

Lestu meira um Kína eftir Maó

  • Jeffrey N. Wasserstrom: The Oxford History of Modern China, Oxford University Press, 2022

HÖFUNDUR: JENS-PETER FAGE MADSEN

© Bettmann/Getty Images. © Pictures From History/Akg-Images/Ritzau Scanpix. © Wikimedia Commons.

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Læknisfræði

Ofvirkni í heilastöð veldur stami

Maðurinn

Rannsókn: Þetta er ástæðan fyrir því að börn læra hraðar en fullorðnir

Maðurinn

Heilinn kortlagður: Smásæ vefsýni sýna stórbrotin smáatriði

Náttúran

Af hverju er kalt í mikilli hæð?

Maðurinn

Hversu oft segjum við ósatt?

Lifandi Saga

Kjarnorkuógnin: Sovéskur kafbátur í skerjagarðinum

Alheimurinn

Lítið eitt um þyngdarkraftinn

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.