Svefn er heilanum afar mikilvægur. Þegar við slökkvum á meðvitundinni gefst heilanum friður og ró til að vinna úr skynjunum og mynda nýjar tengingar sem hvort tveggja hefur afgerandi þýðingu fyrir öfluga heilastarfsemi.
Nótt án svefns veldur ekki einungis þreytutilfinningu. Einbeitingin verður líka mun lakari og pirringur og skapsveiflur verða meira áberandi. Vari svefnleysið marga sólarhringa getur það leitt af sér háan blóðþrýsting, minnisglöp, talerfiðleika og ofskynjanir.
Þótt svefnleysi hafi aldrei verið skráð sem bein dánarorsök, getur langvarandi svefnleysi sem best verið lífshættulegt. Í rottutilraun drápust allar svefnlausu rotturnar eftir 11-32 daga og það er ekki fráleitt að álykta að menn geti enst í ámóta langan tíma án svefns.
Bandaríkjamaður var vakandi í 11 daga
Árið 1964 setti Randy Gardner opinbert heimsmet í svefnleysi. Bandaríkjamaðurinn var vakandi í 264 tíma og 25 mínútur. Gardner lifði þessa tilraun af en fólk sem þjáist af sjúkdómnum FFI (banvænt erfðabundið svefnleysi) hefur tæpast slíka heppni með sér.
Sjúkdómurinn stafar af genagalla sem veldur uppsöfnun svonefndra príonprótína í heila. Þessi prótín leggjast á heilastúkuna sem er eins konar svefnmiðstöð. Þetta getur valdið algeru svefnleysi, jafnvel mánuðum saman, þar til sjúklingurinn deyr.
Svefnganga er undarlegt ástand þar sem fólk tekur upp á því að færa til húsgögn, klæða sig og elda mat – á meðan það sefur. Hver er ástæðan?