Franski herforinginn og keisarinn Napóleon Bonaparte lést árið 1821. Hann var þá fangi Breta á eyjunni St. Helenu. Ástæðan var magakrabbi en ekki eitrun. Þetta sýna tvær mismunandi rannsóknir gerðar á síðustu árum. Bresku læknarnir sem krufðu lík Napóleons eftir andlát hans, höfðu sem sagt rétt fyrir sér.
Í nærri 200 ár hafa fjölmargir haft Bretana grunaða um að hafa eitrað fyrir þessum 51 árs gamla fyrrum Frakklandskeisara. Árið 1961 sýndi sænski eiturefnasérfræðingurinn Sten Forshufvud að í hárum af höfði Napóleons mátti finna leifar arseniks. En árið 2008 greindu vísindamenn við ítölsku kjarneðlisfræðistofnunina INFN aftur hársýni af Napóleon. Þeir notuðu aðferð sem kallast nifteindavirkjun og gefur miklu nákvæmari niðurstöður, jafnvel úr smáum sýnum. Vísindamennirnir rannsökuðu m.a. hár af Napóleon á barnsaldri, hár af syni hans, Napóleon 2. og af 10 núlifandi mönnum.
Niðurstöðurnar sýndu að arsenik í líkama Napóleons var nákvæmlega jafnmikið á barnsaldri og þegar hann dó. Hann hafði sem sé ekki verið myrtur. Að auki reyndist magn arseniks í öllum gömlu hársýnunum vera 100-falt á við magnið í núlifandi fólki. Vísindamennirnir drógu þá ályktun að á þessum tíma hafi fólk af náttúrulegum ástæðum fengið í sig svo mikið arsenik að það teldist hættulegt nú á tímum. Árið 2006 sýndu aðrir vísindamenn fram á að krabbamein væri líklegasta dánarorsökin. Þetta gerðu þeir með því að bera saman upplýsingar úr sjúkraskrá Napóleons og upplýsingar um 135 magakrabbasjúklinga í nútímanum.