Græneðlutegund sem lifir í suðausturhluta Bandaríkjanna er nú lýsandi dæmi um það hversu hröð þróunin getur orðið í dýraríkinu.
Upp úr 1930 barst suður-ameríski eldmaurinn til Bandaríkjanna og á innan við 80 árum hafa afturfætur á eðlum, sem hafa búsetu á sömu svæðum og maurarnir, lengst og mælast nú 5% lengri en á eðlum á mauralausum svæðum. Þetta sýnir rannsókn gerð af Tracy Lee Langkilde, prófessor í líffræði við Penn State-háskóla.
Lengri fætur auðvelda eðlunum að sleppa frá maurunum. Eldmaurarnir eru helgrimmir og ráðast á græneðlurnar þótt þær séu miklu stærri, sprauta í þær lömunareitri og éta síðan.
Tracy Lee Langkilde safnaði maurum frá ýmsum svæðum og komst annars vegar að því að afturfæturnir eru lengri á eðlum sem þurfa að umgangast maurana og hins vegar að eðlur sem lifa á maurasvæðum hafa þróað með sér ákveðnar varnir. Eðla sem þekkir eldmaura reynir t.d. að hrista þá af sér áður en hún leggur á flótta, en eðla sem ekkert kannast við maurana liggur bara kyrr og lokar augunum.