Um mörg hundruð þúsund ára skeið smitaði veiran SIV ónæmiskerfi simpansa og mararkatta. Rétt eins og aðrar útbreiddar veirur tryggði hún viðkomu sína með því að auðsýna fórnarlambinu nokkra miskunn. Aparnir fundu einungis væg einkenni og á meðan hafði SIV færi á að dreifast, stökkbreytast og þróa form með nýjum eiginleikum.
Á mörgum stöðum í Afríku eru apar jafnan veiddir og etnir og þannig komst SIV í tæri við nýjan mögulegan hýsil – manneskjur. Í sínu upprunalega formi gat SIV vissulega ekki smitað manneskjur, en einhvern tímann um þarsíðustu aldamót kom fram ný gerð sem var fær um að taka stökkið yfir í nýja tegund. Það sem áður hafði verið skaðlaus sjúkdómur meðal apa var nú orðið að ógn gagnvart stórum hluta mannkyns.
Í ljósi fjölmargra rannsókna eru fræðimenn nú sannfærðir um að SIV hafi minnst þrisvar sinnum ráðist á manneskjur og breyst í HIV, jafnvel þegar fyrir þarsíðustu aldamót. Það var samt ekki fyrr en stærri bæir tóku að mótast í Kongó, sem veiran náði að dreifa sér. Árið 1969 komst veiran til vesturstrandar BNA og þar braust innan tíðar út faraldur.
Á þessum tíma voru menn grunlausir gagnvart þessari aðsteðjandi ógn. Það var fyrst upp úr 1980 að heimurinn fékk að vita af óskiljanlegum dauðsföllum ungra manna sem höfðu skömmu áður verið stálhraustir. Mennirnir létust af nýjum og þá óþekktum gerðum lungnasýkinga eða afar óvenjulegum bólgum í húð, maga og öndunarfærum. Árið 1981 lýstu yfirvöld því opinberlega að hér væri á ferðinni óþekktur sjúkdómur sem réðist á ónæmiskerfið, einkum meðal samkynhneigðra. Í ágúst þetta sama ár var sjúkdómurinn nefndur AIDS og í maí 1983 sýndu vísindamenn við Pasteur-stofnunina í París í fyrsta sinn að þessi banvæni sjúkdómur stafaði af veiru. Þremur árum síðar hlaut veiran nafnið HIV.
Þrátt fyrir að vera nátengd hinni vægu SIV gegndi öðru máli um HIV. Smit veirunnar er banvænt og þrátt fyrir að liðið geti tveir áratugir áður en alnæmi brýst út er enga lækningu að finna. Án lyfjameðferðar er meðalævilengd HIV sjúklings einungis 9 mánuðir. Þetta hefur haft skelfilegar afleiðingar í sunnanveðri Afríku þar sem sjúkdómurinn er afar útbreiddur og meðferðarmöguleikar fábrotnir. Í landi eins og Botswana þar sem meðalævi íbúa á tímabilinu 1958 – 1988 steig úr 45 árum í 61 ár hefur meðalævilengd manna nú hrapað vegna alnæmis og var árið 2003 einungis 38 ár.
Veiran sest á litningana
Greining á HIV árið 1983 fól í sér að vísindamenn vissu nú við hvaða andstæðing væri að tefla. HIV er svonefndur retrovírus sem, rétt eins og herpes-veiran, setur erfðaefni sitt inn í litninga á smitaðri frumu. Eftir HIV-smit verður veiran þannig hluti af genamengi smituðu frumunnar og því er ógjörningur að losna við sjúkdóminn.
Nú getur tvennt gerst, annaðhvort leggjast veiru-genin í eins konar dvala og láta nánast ekkert á sér kræla í fjölmörg ár. Ellegar þau taka strax við að mynda nýjar veirur. Rétt eftir smit er síðari framvindan líklegri og það leiðir til að veiran dreifist til nánast allra móttækilegra CD4+ T-frumna, sem eru eitt helsta vopnið í ónæmiskerfi líkamans.
Við þessa gríðarlegu fjölgun HIV-veira á fyrstu tveimur til átta vikunum eftir smit deyja fjölmargar ónæmisvarnarfrumur sjúklingsins, sem verður fyrir vikið afar næmur gagnvart ýmsum sjúkdómum. Í fyrstu kunna einkennin að minna á flensu með nokkrum hita, eymslum í hálsi og beinverkjum, en einkennin eru svo alvanaleg að á þessum tíma er erfitt að átta sig á hversu alvarlegt smitið er. Þegar veiran hefur dreifst um allt ónæmiskerfið leggst hún í dvalarástand og þá jafnar sjúklingurinn sig tímabundið. Dvalinn varir að jafnaði í tíu ár en getur sveiflast allt frá tveimur vikum yfir í tuttugu ár. Á þessu tímabili fjölgar HIV sér afar hægt og það leiðir einkum til að CD4 + T-frumurnar brotna niður hægt og rólega. Yfirleitt inniheldur einn ml blóðs 1.200 slíkar frumur en fari þær niður fyrir 200 eru menn sagðir vera komnir með alnæmi, enda hafa veigamiklar varnir ónæmiskerfisins þá alveg hrunið. Alnæmi virkar ekki á framleiðslu og verkun mótefnisvaka ónæmiskerfisins, heldur ræðst veiran á svokallaðar frumuvarnir sem eru sérhæfðar í að verjast sveppasýkingum, bólgum – m.a. sumu krabbameini – veirum og bakteríum.
Dormandi sjúkdómar vakna upp
Fyrstu einkenni alnæmis eru oft síþreyta, hálsbólga og bronkítis, og smám saman ráðast fram herpes-veirur og aðrir vírusar, sem flestar manneskjur eru smitaðar af, en ónæmiskerfi þeirra hefur haldið í skefjum. Margar slíkar veirur orsaka fáséð krabbameinslík æxli í t.d. eitlum, slímhimnum eða húð. Sjúklingar verða einnig afar móttækilegir fyrir berklum og oftar en ekki er endanleg dánarorsök lungnabólga af völdum sveppsins pneumocystis.
Allt fram til 1978 – þegar alnæmisfaraldurinn hafði geisað í sex ár og minnst þrjár milljónir manna voru smitaðar af HIV – fólst eina hjálpin sem hægt var að bjóða sjúklingunum í meðhöndlun á afleiddum sjúkdómum. Árið 1985 höfðu vísindamenn við bandarísku krabbameinsstofnunina (NCI) og lyfjafyrirtækið Glagso -Smith Clai – hins vegar prófað nýja aðferð á alnæmissjúklingum sem gat lengt líf þeirra. Lyfið retrovir (AZT) var upprunalega þróað gegn krabbameini án þess að sýna nokkra gagnlega virkni. Árið 1987 fékk það hins vegar hraðmeðferð hjá bandarískum heilbrigðisyfirvöldum vegna alnæmismeðferðar og enn þann dag í dag er það oft notað saman með öðrum lyfjum. Retrovir ræðst á HIV veiruna á því þrepi í ferli hennar þegar fruma er einmitt við að vera smituð og þær RNA-sameindir sem bera erfðaefni veirunnar eru við að umkóðast í DNA. Lyfið hefur hins vegar alvarlegar aukaverkanir og smám saman kom í ljós að HIV stökkbreyttist svo hratt að það öðlaðist mótstöðu gegn því.
Lyfjablanda veitir nýtt líf
Árið 1995 kom ný gerð lyfja á markaðinn. Þau beindust að getu HIV-veirunnar til að móta sína veirubúta og nú er að finna mörg lyf með svokölluðum protease-hemlum á markaðnum. Út af fyrir sig hafa þau sambærilega galla og Retrovir og svipuð lyf, sem öll eru jafnan nefnd bakritunarhemlar. Árið 1996 hófu læknar hins vegar nýja meðferð sem blandar saman minnst þremur lyfjum sem eru valin úr þessum tveimur meginhópum lyfja.
Þessi lyfjablanda sem meðal fagmanna er nefnd HAART – Highly Active Anti Retroviral Therapy – reyndist afar vel og er ennþá helsta vopn lækna í baráttunni gegn alnæmi. HAART getur lengt líf alnæmissjúklinga um áraraðir, en er samt engin lækning og drjúgur hluti sjúklinga nýtur ekki góðs af þessum lyfjum. Fjölmargir eiga þess ekki kost að taka svo margar pillur mörgum sinnum á degi hverjum. Meðferðin er einnig afar kostnaðarsöm og meirihluti HIV-smitaðra í heiminum hafa engan aðgang að viðhlítandi læknishjálp. Auk þess hefur hverfandi lítill hluti íbúa í flestum þróunarlöndum verið prófaður gagnvart HIV, en það er forsenda þess að hefja meðferð í tæka tíð.
Heilbrigðir smitberar dreifa HIV
Þrátt fyrir að lyfjablöndur hafi lengt líf sjúklinga umtalsvert hafa þær ekki dregið úr smiti – heldur þvert á móti. Einmitt vegna þess að nú lifa sjúklingar lengur eiga þeir kost á að smita fleiri og hættan á að veiran nái til annarra hefur aukist. Þetta er ein meginástæða þess að nú eru fleiri HIV smitaðir í heimi en nokkru sinni fyrr – 33 milljónir – og alnæmi lagði 2,1 milljón að velli árið 2007.
En þrátt fyrir þessar ömurlegu tölur er engin ástæða til að örvænta. Samanlagður fjöldi alnæmissmitaðra í heiminum hefur farið lítillega minnkandi síðan 2005 og í Afríku sunnan Sahara hefur heildarfjöldi smitaðra fallið úr nærri 6 prósentum íbúa í 5 prósent árið 2007. Í SA-Asíu stefnir einnig í rétta átt og á báðum meginlöndum eru það einkum vel heppnaðar forvarnir, sem eru undirstaða þessa árangurs.
Þegar alnæmisfaraldurinn braust út upp úr 1980 var í fyrstu litið á hann sem sjúkdóm samkynhneigðra manna og í upphafi fékk hann jafnframt nafnið „Gay Related Immune Deficiency,“ – eða hommatengd ónæmisveiklun. En frá árinu 1995 hafa liðlega helmingur smitaðra fullorðinna verið konur og um 8% eru börn undir 15 ára aldri. Afríka verður einkum illa fyrir barðinu á sjúkdómnum. Í S-Afríku, sem hefur orðið hvað verst úti, er um þriðjungur allra kvenna á aldrinum 20 – 25 ára smitaður. HIV smitast afar auðveldlega frá móður til barns – bæði á meðgöngu og við sjálfa fæðinguna, en einnig meðan barnið er á brjósti – og reiknað er með að fjórðungur allra óléttra kvenna með HIV muni smita börn sín.
Á flestum svæðum í Afríku er engin hefð fyrir notkun smokka, sem eykur áhættu kvennanna. Við venjulegar samfarir eru 0,5% líkindi á að konan smitist af HIV-smituðum bólfélaga – tíu sinnum meiri hætta en hjá karlmanni. Rannsóknir frá WHO sýna að nauðganir á konum eru afar algengar í Afríku og þær auka smithættuna þar sem slímhúð skeiðarinnar rofnar oft, en það auðveldar veirunni að komast inn í blóðið.
Eins og áður hefur komið fram finnst engin lækning á alnæmi og því eru margir sem vonast til að þróa megi mótefni er getur hindrað HIV smit og þannig til lengri tíma jafnvel útrýmt alnæmi. En vísindamenn hafa hvað eftir annað orðið fyrir miklum vonbrigðum með tilraunir sínar og niðurstöður, og þrátt fyrir að um þessar mundir fari fram um þrjátíu mismunandi rannsóknir á mótefnum, eru menn ekki vongóðir um árangur.
HIV-vírusinn hefur undraverða getu til að forðast ónæmiskerfið enda stökkbreytist hann svolítið í hvert sinn sem hann smitar nýja frumu í líkamanum. Þetta þýðir að HIV-smituð manneskja er í raun með ótal mismunandi afbrigði veirunnar, sem torveldar verulega þróun á skilvirku mótefni.
Annað vandamál felst í að núverandi mótefni byggja á sömu ónæmisfræðilegu meginreglunni og ef í ljós kemur að hún reynist vísindaleg blindgata er allt erfiðið unnið fyrir gíg. En sem betur fer hafa vísindamenn á síðustu árum öðlast ný tromp í spilinu gegn HIV og alnæmi. Lyfjaframleiðandinn Merck hlaut árið 2007 framleiðslurétt á lyfi sem ræðst á getu veirunnar við að splæsa gen sín í litninga fórnarlambsins. Í slíku ferli reiðir veiran sig á efnahvata er nefnist intergrase og lyfið virkar einmitt með því að draga úr virkni efnahvatans. Nýja lyfið hefur reynst afar vel saman með núverandi lyfjum og virðist einkum henta sjúklingum sem hafa af einhverjum orsökum ekki notið góðs af virkni annarra lyfja.
Önnur lyfjafyrirtæki leitast við að ráðast á HIV þegar veirubútarnir eru að renna saman við mannsfrumuna. Þá þarf veiran að láta „krækju“ sína grípa í svokallaða CCR5-móttakara á yfirborði mannsfrumunnar og þetta mögulega lyf virkar með því að tengjast sjálft viðtökunum og hindra þannig að HIV komist að þeim. Í raun er þetta í fyrsta sinn sem menn gera tilraunir með lyf sem beinist að hlutum eða ferlum í mannsfrumunni og það getur reynst afar mikill kostur. Þar sem HIV er stöðugt að stökkbreytast er mikil hætta á að veiran öðlist mótstöðu gegn öðrum lyfjum sem beinast að veirunni sjálfri. En þennan eiginleika sinn getur veiran ekki nýtt sér þegar lyfjunum er þess í stað beint til að verja mannsfrumuna.
CCR5-móttakarinn er áhugaverður þar sem hann hefur stökkbreyst hjá sumum mönnum. Margar rannsóknir benda til að þessar manneskjur séu af náttúrunnar hálfu ónæmar fyrir HIV þar sem veiran getur ekki þrengt sér inn í frumur þeirra. Sum afbrigði af HIV nýta sér þó annan móttakara og því veitir stökkbreytingin ekki fullkomna vörn. Lyfjafyrirtækið Pfizer fékk árið 2007 samþykki á fyrsta lyfinu sem lokar fyrir CCR5-móttakara, en seinni tíma rannsóknir hafa dregið árangur þess í efa og sumir vísindamenn óttast langtíma aukaverkanir, enda þekkja menn ekki ennþá hina náttúrulegu virkni móttakarans.
Vísindamenn vinna einnig með fjöldann allan af öðrum lyfjum sem eiga þó enn langt í land. Eitt slíkra, Bevirimat, virkar með því að tengjast einum af byggingasteinum HIV þannig að veiran getur ekki raðað sjálfri sér rétt saman. Þessi svokallaði mótunarhemill hefur þó til þessa einungis haft mælanlega virkni hjá um helmingi þátttakenda í tilraunum og orsökin er enn og aftur sú hversu oft HIV stökkbreytist. Önnur baráttuaðferð er hin svokallaða antisense-RNA-sameind. Hún gengur út á að mynda erfðafræðilega spegilmynd af HIV, einskonar viðbótar RNA-sameind, sem er fær um að skapa tvístreng með upphaflega veiru-RNAinu sem verður fyrir vikið óvirkt.
Vísindamenn vilja hreinsa HIV úr frumum
Óháð árangri munu nýju lyfin ekki geta læknað sjúklinga. Þess vegna vakti það mikla athygli þegar vísindateymi frá Dresden og Hamburg gerði opinberar niðurstöður árið 2007, sem sýndu alveg nýja baráttuaðferð er hefur það markmið að fjarlægja veiruna úr litningum smitaðra frumna og þannig útrýma HIV-smiti.
Fræðimennirnir nýta sér náttúrulegan efnahvata sem er fær um að skera búta úr litningi og þessu næst splæsa endum hans aftur saman. Með slíkri genasplæsingu hafa þeir hannað nýja gerð af efnahvata sem getur borið kennsl á DNA-frumur í endum veiru genamengisins og skorið litninginn upp á einmitt þessum stöðum. Þessi hannaði efnahvati, „Tre Rekombenasi“, var prófaður á ræktuðum mannsfrumum sem voru smitaðar með HIV og stóðst prófið með glans: HIV var einfaldlega skorið út úr litningnum og hann síðan settur saman á ný.
Það þurfa eðlilega að fara fram margar tilraunir áður en „Tre Rekombenasi“-lyf birtast í hillum apóteka. Ein helsta áskorunin er að koma efnahvatanum í sýktar frumur. Efnahvatinn er afar viðkvæmur og brotnar skjótt niður ef hann er ekki í réttu umhverfi. Því er hvorki hægt að gefa hann í pilluformi eða með sprautu, en genameðferð gæti verið einn kostur.
Í 25 ár hefur HIV-veiran haft undirtökin. En margt bendir til að manneskjan nái brátt króki á móti bragði. Á síðustu tveimur árum hefur fjöldi dauðsfalla af völdum alnæmis minnkað lítillega og í Afríku hefur fjöldi HIV smitaðra fallið síðan 2000. Miklar framfarir hafa átt sér stað við að lengja líf sjúklinga, fleiri lyf eru á leiðinni og kannski er lækning innan seilingar.