Egypskir fornleifafræðingar hafa grafið upp rústir musteris sem reist var til heiðurs Bereníku 2. sem var drottning 246-222 f.Kr. Musterið er í hafnarborginni Alexandríu og þar hafa vísindamennirnir fundið 600 styttur og lágmyndir. Margar myndanna sýna kattagyðjuna Bastet og það bendir til að musterið hafi verið helgað dýrkun hennar. Þetta er í fyrsta sinn sem í Alexandríu finnst musteri þar sem Bastet hefur verið dýrkuð, en hún er þó alls ekki óþekkt í guðatölu Forn-Egypta. Bastet var upprunalega ljón sem verndað gat konunginn í ófriði, en á tímum Bereníku 2. voru grísk áhrif komin til sögunnar. Bastet tengdist grísku gyðjunni Artemis og var orðin að ketti. Auk styttna og mynda af Bastet fundu fornleifafræðingarnir myndir af óþekktum konum og börnum og styttur af fleiri guðum.
Bereníka 2. var dóttir Magas Makedóníukonungs og Apamu drottningar og giftist Demetríosi Makedóníuprinsi. En hún lét drepa eiginmann sinn vegna þess að hann átti í ástarsambandi við móður hennar. Skömmu síðar giftist hún Ptolemaiosi 3. konungi Egyptalands.