Menning og saga

Einkalíf útgáfa 2.0

BIRT: 04/11/2014

Blaðamenn á New York Times fundu Thelmu Arnold með aðstoð leitarorða sem hún hafði tilgreint á netinu.

 

Viðskiptavinur númer 4417749 var tíður gestur á internetinu. Hún leitaði oft á netinu og sló inn jafn ólík leitarorð og „hundar sem pissa á allt“, „einhleypir karlar 60“ og „garðyrkjumenn í Lilburn, Georgia“. Viðskiptavinur númer 4417749 hélt að leitarorðin sem hún sló inn í tölvuna sína væru hennar einkamál, ekki síður en annað sem hún tók sér fyrir hendur innan veggja heimilisins.

 

Árið 2006 birti America Online (AOL), eitt stærsta nettengingarfyrirtækið í Bandaríkjunum, lista yfir öll leitarorð sem 657.000 viðskiptavinir höfðu slegið inn þrjá mánuði á undan. Samkvæmt upplýsingum frá AOL var tilgangurinn að nýta upplýsingarnar til að kanna á hvern hátt fólk notaði netið. Viðskiptavinirnir voru því nafnlausir og í stað nafna birtust einungis tölur. Blaðamenn við New York Times héldu því fram að nafnleyndin væri alls ekki örugg og til að sanna mál sitt gerðu þeir tilraun til að komast að því hver leyndist á bak við númerið 4417749. Þetta reyndist ekki flókið verk og innan skamms höfðu þeir fundið 62 ára eftirlaunaþega að nafni Thelma Arnold, sem bjó ein með hundana sína þrjá í bænum Lilburn í Georgíufylki.

 

„Almáttugur minn, þetta er einkalíf mitt. Ég hafði enga hugmynd um að fylgst væri með mér,“ sagði Thelma Arnold við blaðamennina.

 

Hver smellur með mús skilur eftir spor

 

Allt sem við gerum skilur eftir sig stafræn fingraför. Í hvert sinn sem við smellum með músinni, gefum upp kortanúmer, sendum sms-skilaboð eða tölvupóst skiljum við eftir fleiri bita í púsluspili sem skapar stöðugt skýrari mynd af einkalífi okkar, venjum og manngerð.

 

Ef við viljum vera algerlega nafnlaus, þá eru spilareglurnar einfaldar: Aldrei að leita að neinu á netinu, senda aldrei tölvupóst og forðast samskiptaforrit á borð við t.d. Facebook. Nota hvorki greiðslukort né farsíma og forðast opinberar byggingar, lestarstöðvar og aðra staði með eftirlitsmyndavélum. Með öðrum orðum: Einkalíf í merkingunni líf án stöðugs eftirlits og skráningar þar að lútandi er nánast ógerlegt í hátæknivæddu samfélagi, eins og við lifum í.

 

Við höfum vanist eftirliti

 

Flest höfum við það sennilega á tilfinningunni að verið sé að skrásetja viðkvæmar upplýsingar um okkur og fylgjast með ferðum okkar. Við höfum einfaldlega vanist því og viðurkennt, því netið og áþekk tækni létta okkur lífið og við bindum að sama skapi vonir við að eftirlitið bæti öryggi okkar í samfélaginu.


Þægindin eru hins vegar dýru verði keypt. Þetta er að minnsta kosti álit bandaríska rithöfundarins David Brin, sem er sérfræðingur á sviði eftirlitskerfa. Hann birtir í bók sinni „The Transparent Society“ (Gegnsæja þjóðfélagið) hugmyndir um hvernig varðveita megi einkalífið í hátækniþjóðfélaginu. David reynir að skýra framtíðarsýn sína með myndlíkingu sem felur í sér tvær framtíðarborgir, sem báðar eru lausar við glæpi vegna gífurlega fullkomins eftirlits. Eftirlitið er þó af talsvert ólíkum toga. Í fyrri borginni hefur verið komið fyrir myndbandsupptökuvélum á öllum götuhornum og ríkið fylgist grannt með hverju fótmáli borgaranna. Allir vita að einkalíf er tálsýn ein en treysta því hins vegar að ríkið komi í veg fyrir glæpi.

 

Í hinni borginni eru staðsettar jafnmargar upptökuvélar en munurinn er fólginn í því að enginn hefur einkaleyfi á eftirlitinu með þeim. Bæði borgarar og yfirvöld geta beint upptökuvélunum hvert gegn öðru og því verður eftirlitið áhrifamikið, en að sama skapi áhrifalaust. Þegar allir fylgjast með öllum er það ekki einungis ríkið sem getur haft eftirlit með borgurunum, heldur geta borgarnir að sama skapi fylgst með ríkinu og m.a. komið í veg fyrir valdníðslu. „Við getum aldrei verndað einkalífið með því að fela okkur fyrir valdhöfunum. En við getum varðveitt einkalífið ef við höfum eftirlit með þeim á móti,“ segir David Brin.

 

Í myndlíkingu Davids er fyrrgreinda borgin tákn um þá gerð eftirlitssamfélags sem ræður ríkjum um allan heim í dag. Yfirvöld dásama friðhelgi einkalífsins en njósnar engu að síður um borgarana, þó í misaugljósum mæli sé. Ef marka má David þyrfti eftirlitið að vera á báða bóga og engu er líkara en að hugmyndir hans séu í þann veg að rætast. Aukin notkun farsíma með upptökumyndavélum hefur gert það að verkum að almennir borgarar geta fest á filmu valdbeitingu af hálfu yfirvalda. Eftir leiðtogafund G-20-ríkjanna í London í apríl fyrr á árinu birtust á You Tube ýmsar upptökur af átökum á milli mótmælenda og lögreglu.

 

Heimasíðan Wikileaks er annað dæmi um eftirlit borgaranna með yfirvöldum. Síðan er hugsuð sem lýðræðislegur griðastaður sem einkaaðilar geta lekið á leynilegum upplýsingum, sem flokkast undir almannaheill, án þess að eiga á hættu málsókn eða pyntingar. Frá því er Wikileaks fyrst var kynnt til sögunnar á árinu 2006 hafa forritarar kerfisins útbúið afskaplega hugvitssamlegt tæknikerfi sem gerir kleift að rekja hvaðan tiltekinn leki á upptök sín. Á heimasíðunni er að finna rúmlega 1,2 milljón skjala sem lekið hefur verið um yfirvöld, einkafyrirtæki og samtök.

 

Líf okkar á að vera gegnsætt

 

David Brin er þeirrar skoðunar að ekki aðeins sé nauðsynlegt að þvinga yfirvöld til að sýna meiri hreinskilni, heldur einnig borgarana. Algert gegnsæi er í hans augum eina vopnið sem við einstaklingarnir eigum eftir ef ætlun okkar er að lifa einkalífi okkar í friði.

 

„Börnin okkar eiga örugglega eftir að álíta að nafnleysi sé óhugsandi ellegar jafnvel óskiljanlegt. Þetta þarf þó ekki að þýða að frelsi þeirra eða einkalíf verði af skornum skammti, þó svo að enginn vafi leiki á að skilgreina þurfi á nýjan leik hvað átt er við með einkalífi,“ segir David Brin.

 

Aðrir vísindamenn eru ósammála og telja að alger persónuleg hreinskilni á netinu eigi eftir að hefta frelsi einstaklinganna þegar fram í sækir. Sem dæmi verður ógerningur að losa sig við syndir fortíðarinnar og víxlspor. Þetta er til dæmis skoðun Daniels J. Soloves, en hann er lagaprófessor við George Washington háskólann og höfundur bókanna „Understanding Privacy“ og „The Future of Reputation“. Solove er þeirrar skoðunar að hver einasti vandræðalegur myndbandsbútur, slæmt orðspor eða vafasöm ljósmynd frá unglingsárunum eigi eftir að fylgja okkur á netinu um ókomna tíð.

 

Nú á blómaskeiði internetsins og þegar nánast allir eiga farsíma með myndavél í hafa möguleikarnir á að við verðum að myndefni einhvers aukist svo gífurlega að skilgreiningin á hugtakinu einkalíf hefur breyst. Það sem greinir að friðhelgi einkalífsins annars vegar og sviðsljósið hins vegar breytist með einum músarsmell og aukin afhjúpun hefur ósjálfrátt í för með sér meira eftirlit. Þess vegna er brýnt að gæta þess vel hvaða persónuupplýsingum við deilum með öðrum á netinu, segir Solove.

 

Solove viðurkennir jafnframt að tíðarandinn sé sér óhagstæður og hann kallar ungu kynslóðina Google-kynslóðina. Bæði vegna þess hve auðvelt er að finna unga fólkið á Google og einnig vegna þess að unga fólkið hefur alist upp við nýja merkingu á hugtakinu einkalíf. Með því að nota samskiptaforrit á borð við Facebook og Twitter hefur unga kynslóðin vanist því að afhjúpa einkalíf sitt í máli og myndum.

 

Bandaríski myndlistarprófessorinn Hasan Elahi fann sig knúinn til að leyna engu um einkalíf sitt þegar hann lenti fyrir mistök á lista FBI yfir meinta hryðjuverkamenn árið 2002. Hann var kallaður til yfirheyrslu hvað eftir annað en ákvað að aðstoða lögregluna í stað þess að fara í felur. Hann hóf fyrir vikið útsendingar á gjörvöllu einkalífi sínu á netinu hvern einasta dag. Þegar frá leið varð útsendingin að eins konar listrænni tilraun um eftirlit með fólki á netinu.

 

Á heimasíðu Hasans, TrackingTransience.net, er hægt að skoða þúsundir mynda úr einkalífi hans, auk þess sem gps-örflaga í farsíma hans sýnir stöðugt á korti hvar hann er niðurkominn.

 

Aðferð Hasans, sem byggir á kenningum markaðshagkerfis, er einföld en engu að síður áhrifarík, að hans sögn: Með því að drekkja FBI-fulltrúum í gögnum missir eftirlitið marks, vegna þess að upplýsingar um líf einstaklingsins verða öllum aðgengilegar.

 

Fáránleikinn er fólginn í því að stöðugt streymið af upplýsingum um hans einkahagi gerðu það að verkum að Hasan fannst hann eiga sér einkalíf, því hann var við stjórnvölinn og hann skapaði sitt eigið neteinkenni. Samkvæmt túlkun hans er einkalíf því ekki lengur rétturinn til að lifa í friði, heldur að hafa stjórn á því hvaða upplýsingar eru aðgengilegar um sjálf okkur á netinu, auk þess að stjórna því hver hefur aðgang að þeim.

 

„Mér líður betur þegar ég sjálfur stjórna upplýsingum um mig á netinu en ekki FBI“, segir Hasan Elahi.

 

Einkaupplýsingar út á netið

 

Eftirlitið með gögnum um einkahagina, líkt og Hasan Elahi byggir einkalíf sitt á, verður þó sífellt erfiðara sökum þess að tölvurnar okkar eru óðum að breytast í tölvuherma. Árum saman höfum við geymt myndirnar okkar og skjölin, fyrst á disklingum, síðan geisladiskum, þá hörðum diskum og loks á minniskubbum. Nú á dögum starfa tölvukerfi hins vegar í auknum mæli með það sem kallast tölvuský. Þetta þýðir að allir tölvupóstar, skrár og skjöl eru í raun geymd á netinu og ekki lengur í tölvunum okkar.

 

Eitt fremsta fyrirtækið á sviði tölvuskýja er án efa bandaríska fyrirtækið Google, sem hefur upp á að bjóða mikið úrval forrita sem nýtast okkur í tengslum við tölvupóst, dagatöl, fjölskyldumyndir og textavinnslu á netinu. Forritin eru orðin algerlega ómissandi í daglegu lífi margra en þetta er því dýra verði keypt að öll okkar persónulegu gögn eru geymd á netþjónum í eigu Google. Þetta gerir það að verkum að eitt einstakt fyrirtæki, sem er í einkaeign, hefur mjög nákvæmar upplýsingar um alla okkar persónulegu hagi á stafrænu formi.

 

David Brin álítur þó ekki að þetta sé neinum vandkvæðum háð á meðan ljóst liggur fyrir á hvern hátt fyrirtækin meðhöndla gögnin okkar. Því fleiri einkaupplýsingum sem fyrirtæki eða yfirvöld safna saman, þeim mun meira gegnsæi verður að ríkja. Þess vegna er Google ekki helsta ógn einkalífsins í augum Davids, einmitt vegna þess að augu almennings beinast að fyrirtækinu og þvinga það til að fara ekki leynt með starfsemi sína. Hins vegar segir hann meiri ástæðu til að óttast internetfyrirtækin sem selja aðgengi að netinu. Sem dæmi mætti nefna að breska símafyrirtækið British Telecom hefur hvað eftir annað, bæði löglega og ólöglega, safnað og látið öðrum í té upplýsingar um hvað viðskiptavinirnir hafa skoðað á netinu, bæði til handa yfirvöldum og einkafyrirtækjum á sviði auglýsinga.

 

Viðkvæm gögn leka daglega

 

Fyrirtæki á sviði nettenginga lofa því yfirleitt að ekki sé unnt að rekja upplýsingar um netvenjur einstaklinga beint til þeirra, því þeir segjast áframselja upplýsingarnar nafnlausar. Málið sem upp kom þegar AOL birti leitarorð viðskiptavina sinna er þó gott dæmi um hve auðvelt er að aflétta nafnleyndinni.

 

Nú á dögum er alls ekki óalgengt að viðkvæmar upplýsingar um einkahagi fólks komist í hendur annarra. Í hverjum mánuði skrá samtökin Privacy Rights Clearinghouse fjölda slíkra tilvika í Bandaríkjunum, þar sem viðkvæmar upplýsingar á borð við kennitölur, nöfn og heimilisföng hafa verið birtar í kjölfar tölvuþrjótaárása eða vegna mannlegra og tæknilegra mistaka. Samkvæmt upplýsingum samtakanna hafa 255 milljón slík mál komið upp í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári.

 

Það verður ætíð áhættusamt að safna saman gögnum um fólk á netinu. Þessi sömu gögn geta á hinn bóginn einnig reynst gagnleg ef þau eru nýtt á réttan hátt. Google hefur t.d. hannað forritið „Flu Trends“, sem getur sagt fyrir um hvar í Bandaríkjunum sé mest hætta á inflúensu. Forritið byggir á þeirri vitneskju að margir leita að upplýsingum um einkenni flensu og lækningu við henni þegar einhver í fjölskyldunni veikist af henni. Google getur síðan greint hversu mikið er leitað að slíkum upplýsingum í hverju fylki og Flu Trends hefur þegar sannað ágæti sitt. Að öllu jöfnu hafa liðið allt að tvær vikur áður en bandarísk yfirvöld gátu greint flensufaraldur en með aðstoð Google er nú unnt að senda út aðvörun viku fyrr en ella.

 

Flu Trends er, líkt og Facebook og YouTube, dæmi um það að eftirlitssamfélögin í dag eru orðin lýðræðislegri, auk þess sem miðstýring hefur minnkað. Stöðugt eftirlit er óhjákvæmilegt í hátæknisamfélaginu og því meira sem birtist um okkur á netinu, þeim mun meiri hætta verður á að einkalíf okkar verði að almenningseign. Ef algert nafnleysi er á góðri leið með að verða sjálfsblekking ein snýst einkalíf framtíðarinnar alls ekki um hvort upplýsingar um einkahagi okkar séu öðrum aðgengilegar eður ei. Málið snýst öðru fremur um að hafa hemil á því hver getur notað einkaupplýsingar um okkur og í hvaða tilgangi.

 
 

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Bólusótt: Ósýnilegur ógnvaldur herjaði í Evrópu

Maðurinn

Hvers vegna eru sumir smámæltir?

Spurningar og svör

Hvort er bjór betri úr dós eða flösku?

Lifandi Saga

Þýsk fórnarlömb sprengjuflugmanna tóku þá af lífi

Alheimurinn

Fær það virkilega staðist að tvær sólir geti verið í sama sólkerfi?

Náttúran

Hvernig geta slöngur klifrað?

Alheimurinn

Vetrarbrautin full af svartholum

Maðurinn

Hve lengi er hægt að vera kvefaður?

Maðurinn

Við drekkum einn bolla af nefslími dag hvern

Tækni

Hvað gerist ef díselolíu er dælt á bifreið sem knúin er bensíni?

Jörðin

Undravert yfirborð jarðar

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.