Skammt frá þorpinu Illeret við Turkana-vatn í Norður-Kenya hefur lítill hópur forsögulegra frummanna á göngu skilið eftir sig meira en 30 fótspor í steinrunnum leir.
Sporin eru frá mikilsverðu tímabili í þróunarsögunni – þegar ætt manna, Homo, var að þróast og leggja undir sig landið á tveimur fótum.
Hvaða tegund frummanna hefur verið hér á ferð er ógerlegt að segja með neinni vissu, en bandarísku og bresku vísindamennirnir sem uppgötvuðu sporin, telja líklegt að þau séu annað hvort eftir Homo ergastus eða Homo erectus.
Þessar tegundir eru elstu forfeður okkar sem að líkamsstærð og byggingu hafa líkst nútímamanninum. Sporin hafa varðveist í 8 metra hárri klöpp sem byggst hefur upp úr setlögum þegar ár á svæðinu hafa árlega flætt yfir bakka sína.
Alls hafa vísindamennirnir fundið fjórar samfelldar gönguslóðir og auk þess nokkur stök fótspor í tveimur setlögum, en um 10.000 ára aldursmunur er á þessum tveimur lögum.
Mælingar á skreflengd, dreifingu líkamsþyngdar o.fl., gerðar með háþróaðri leysigeislatækni, sýna að þetta fólk hefur verið ámóta þungt og nútímafólk.
Einkum vekur athygli vísindamannanna að þetta forsögulega fólk hefur velt þunganum frá hælnum fram eftir fætinum og spyrnt sér að lokum upp með stórutánni, nákvæmlega á sama hátt og við gerum enn í dag.
Þetta má bera saman við þau einu fótspor sem áður voru þekkt eftir forfeður manna, Laetoli-sporin í Tansaníu, sem eru 3,75 milljón ára gömul.
Í þeim er ekki að sjá neina hol il, heldur hefur ilin verið alveg flöt. Þessi fótspor bera því vott um frumstæðara og mun orkufrekara göngulag, svipað því sem nú má sjá hjá simpönsum.
Þróun gangs og göngulags er einmitt talin skipta höfuðmáli varðandi þróun mannsins, enda hefur uppréttur gangur gert forfeðrum manna kleift að leggja undir sig ný og æ stærri svæði.
Fram að þessu hefur þróun fótarins og hlutverk hennar í þróun mannsins verið nánast óþekkt þar eð steinrunnin fótarbein hafa ekki fundist.