Maðurinn

Enskur prófessor hefur leyst ráðgátuna um hamingjuna

Hamingja er ekkert annað en samsafn rafboða í heila. Þá hafa nýjustu rannsóknir enn fremur leitt í ljós að við getum sjálf virkjað rafboð þessi þegar við viljum. Við höfum rætt við hamingjufræðinginn Bruce Hood um vísindin að baki þessari upplyftandi tilfinningu og sótt til hans mikilvægar ráðleggingar fyrir þá sem óska eftir að lifa hamingjuríkara lífi.

BIRT: 21/01/2025

Er hægt að öðlast langvarandi hamingju á einu námskeiði? Þessari spurningu hugðist breski sálfræðingurinn og heimspekingurinn Bruce Hood, við háskólann í Bristol, finna svör við árið 2019.

 

Hann undirbjó viðamikla rannsókn þar sem hann bauð alls 228 nemum upp á námskeið sem hafði það að markmiði að bæta andlega vellíðan þeirra með vísindalega sönnuðum aðferðum. Á átta mánaða tímabili var unga fólkið frætt um alla líffræðilega þætti hamingjunnar. Og það sem meira var um vert var að þeim voru kenndar raunverulegar aðferðir sem áttu að láta hamingjuna dreifast um heila þeirra.

 

Námskeiðið tókst með ágætum. Þegar svo vísindamaðurinn fylgdi andlegri líðan nemendanna eftir örfáum árum síðar komu niðurstöðurnar honum á óvart.

 

Við höfum rætt við Bruce Hood um vísindin að baki hamingju og hvað við sjálf getum gert til að kalla tilfinninguna fram.

 

Ungt fólk er óhamingjusamt

Hópar vísindamanna víða um heim kortleggja árlega hamingjuna í hartnær öllum löndum heims. Niðurstöðurnar eru birtar í skýrslu sem kallast World Happiness Report (alheimshamingjuskýrsla) þar sem löndunum er raðað í rétta röð, allt eftir því hve mikil hamingja ríkir í þeim.

 

Norðurevrópsku löndin lenda yfirleitt efst á listanum en niðurstöðurnar sýna ekki alveg rétta mynd þegar ólíkar kynslóðir eiga í hlut, því sem dæmi má nefna að Svíar vermdu fjórða efsta sætið þegar á heildina var litið en voru einungis í því 18. þegar aðeins var einblínt á ungt fólk undir þrítugu.

Vísindamennirnir sem standa að World Happiness Report (alheimshamingjuskýrslunni) reikna út hamingjueinkunnir á kvarðanum 0 til 10 sem byggja á viðtölum við margar milljónir.

Tölur þessar endurspegla almenna þróun á Vesturlöndum þar sem ungu fólki virðist líða sífellt verr. Í bandarískri rannsókn sem gerð var árið 2023 kom þannig í ljós að alls 24% nema áttu við þunglyndi að etja og 2,3% höfðu reynt að fyrirfara sér á undanliðnu ári.

 

Þessari þróun hyggst sálfræðingurinn Bruce Hood snúa við. Hann er prófessor við háskólann í Bristol í Englandi og hefur lagt stund á rannsóknir á sviði hamingju og andlegrar vellíðunar undanfarna áratugi. Í því skyni að ná fram markmiði sínu skipulagði hann árið 2019 námskeiðið „The Science of Happiness“ (hamingjuvísindi) sem hafði það markmið að kenna ungu fólki að hafa stjórn á eigin hamingju með vísindalega sönnuðum aðferðum.

Prófessor vill gera okkur hamingjusamari

Bruce Hood er prófessor við háskólann í Bristol í Englandi og er sérfræðingur um hamingju. Árið 2024 gaf hann út bókina „The Science of Happiness“ þar sem allir þættir hamingjunnar eru þrautkannaðir og góð ráð gefin um hvernig unnt sé að styrkja hamingjutilfinninguna

Fyrst varð Hood þó að skilgreina hvað hann ætti við með hamingju.

 

„Hamingja á við um flókið mynstur tilfinninga og hugarstarfs, þ.e. hugsana. Þegar litið er til tilfinninganna eru það svonefndar ánægjustöðvar sem eru virkjaðar þegar við njótum ýmissa ólíkra athafna. Hamingja snýst þó einnig um það hversu ánægð við erum með frammistöðu okkar og hve vel hún hæfir sjálfsmynd okkar,“ kemur fram í viðtali við hann í Lifandi vísindum.

29 prósent jarðarbúa telja sig óhamingjusama samkvæmt stórri könnun.
Ipsos’ Global Happiness-rapport 2024

Ánægju- eða umbunarstöðvarnar sem Bruce Hood nefnir, eru virkjaðar um leið og við upplifum eitthvað gott og þetta hefur í för með sér skammvinna, ákafa hamingjutilfinningu. Tilfinningin, ein og sér, varir þó ekki lengi því ennisblöðin byrja fljótt að meta upplifunina með hliðsjón af skynseminni.

 

Ef við til dæmis komum heim og sjáum að makinn er búinn að baka köku fyllumst við fyrst í stað gleði og finnst við vera metin að verðleikum en þegar við svo sjáum að allt eldhúsið er á öðrum endanum, dofnar upphaflega hamingjutilfinningin skjótt.

Hamingjan á sér rætur í nokkrum svæðum heilans

Sumar heilastöðvar valda beinlínis hamingju samstundis en í öðrum eiga sér stað vangaveltur um góðu og slæmu hliðarnar í lífinu og niðurstaðan ræður því hvort við höndlum hamingjuna eður ei.

 

1. Góð lífsreynsla kallar hreinlega fram hamingju

Jákvæðar upplifanir virkja samstundis umbunarstöðvar heilans (gulgrænt, t.v.) og orsaka skammvinna, ákafa hamingjutilfinningu. Í heilasvæðinu sem kallast mandla (gulgrænt, t.h.) er unnið frekar úr upplifuninni sem svo kallar fram upplífgandi hamingjutilfinninguna.

 

2. Hamingjutilfinningin skoðuð í réttu ljósi

Framlægu ennisblöðin (blátt, t.v.) koma á jafnvægi milli jákvæðra og neikvæðra þátta sem kunna að tengjast upplifuninni. Í ACC-heilasvæðinu (blátt, t.h.) (ACC táknar fremri gyrðilgára) og ennisblöðunum er metið á hvern hátt upplifunin hæfir þörfum okkar og óskum.

 

3. Sjálfsvitund veldur langvarandi hamingju

Minnissvæðið sem nefnist dreki (rautt, að neðan) geymir góðu og slæmu hliðarnar af öllu því sem við upplifum. Og í svæðinu sem kallast eyja heilans (rautt, að ofan) eru upplifanirnar tengdar sjálfsvitund okkar og markmiðum í lífinu. Þetta samstarf stjórnar langvarandi hamingjutilfinningu.

Alla ævina erum við að bera saman ógrynni viðlíka tilfinninga og það er jafnvægið á milli þeirra sem ákvarðar hamingjutilfinninguna til lengri tíma litið.

 

Tengslin á milli skammvinnrar og langvarandi hamingju eru hins vegar ákaflega flókin. Þetta kom m.a. í ljós í viðamikilli hóprannsókn sem gerð var í Ástralíu árið 2020.

 

Í þeirri rannsókn komust vísindamennirnir m.a. að því að við upplifum almennt meiri langvinna hamingju þegar við eignumst börn. Börnin geta á hinn bóginn bitnað verulega á skammvinnu, daglegu hamingjutilfinningunni með öllum þeim skyldum og áhyggjum sem börnunum fylgja.

 

Hamingja felur í sér að bægja burt óhamingju

Önnur niðurstaða áströlsku rannsóknarinnar var sú að hamingjumælirinn sveiflast miklu meira þegar hlutirnir ganga illa en þegar allt gengur að óskum. Atburðir sem valda hryggð, svo sem eins og dauðsfall innan nánustu fjölskyldu, gjaldþrot einstaklings, skilnaður eða alvarleg veikindi, hafa í för með sér langvarandi missi lífsfyllingar og daglegrar kæti sem ristir langtum dýpra en sú hamingja sem við verðum aðnjótandi þegar við eignumst börn, giftum okkur eða vinnum í happdrættinu.

 

Þetta kemur Bruce Hood ekki á óvart: „Ég sé hamingju fyrir mér þannig að við séum laus við ótta, heilabrot og áhyggjur.“

Þakkið fyrir vini ykkar því án þeirra eykst hættan á ótímabæru andláti. Þakkið jafnframt fyrir nef ykkar því það er sennilega nefið sem hefur hjálpað ykkur að þefa uppi bestu vinina.

Breski sálfræðingurinn telur fyrir bragðið að við þurfum að halda neikvæðu áhyggjunum frá okkur þegar við leitum hamingjunnar. Í bók hans „The Science of Happiness“ (hamingjuvísindi) sem kom út árið 2024 er að finna ýmsar ráðleggingar um hvernig höndla eigi hamingjuna.

 

Hann leggur áherslu á mikilvægi þeirrar ráðleggingar að rétt sé að forðast að leggja stund á neikvæðan samanburð við aðra sem eru fallegri, ríkari og njóta meiri velgengni en við sjálf.

 

„Þetta gerum við því miður á samfélagsmiðlum, þar sem allir líta út fyrir að lifa áhugaverðara og betra lífi en við sjálf. Því mæli ég frekar með raunhæfari samanburði við alla þá sem njóta ekki sömu velgengni og við sjálf, því slíkur samanburður minnir okkur á hvað við erum lánsöm og lætur okkur finna fyrir þakklæti,“ bætir hann við.

 

Ráðleggingar hans eru engan veginn tóm orð því sönnur hafa verið færðar á þær með vísindalegum hætti.

 

Námskeið leiddi af sér langvarandi áhrif

Hamingjunámskeið Bruce Hood byggði á jákvæðri sálfræði og fól í sér fræðilega kennslu í viðfangsefnum og tækni sem aðrir vísindamenn höfðu tengt við andlega vellíðan áður.

 

Nemendunum var enn fremur ætlað að prófa hamingjuvaldandi aðferðirnar í raun. Þeim var skipt í litla hópa og sagt að koma vinalega fram við hvert annað, reyna að stofna til nýrrar vináttu og láta í ljós þakklæti við samnemendur sína.

 

„Mikilvægt er að styrkja félagsleg tengsl okkar við þá sem við þekkjum, svo og við ókunnuga,“ segir Hood um aðferðina.

 

Nemendurnir voru jafnframt hvattir til að æfa sig í að sofa í minnst sjö tíma á hverri nóttu, leggja stund á íhugun og gæta þess að fá daglega hreyfingu.

Alls 78% þeirra þátttakenda á námskeiðinu sem héldu áfram að gera æfingar Bruce Hoods fundu fyrir viðvarandi bata.

Strax eftir að námskeiðinu lauk skynjuðu þátttakendurnir að þeim var farið að líða betur andlega. Viðurkenndar prófanir leiddu jafnframt í ljós að þeir voru síður einmana og minna kvíðnir. Vísindalega sannaðar aðferðir höfðu með öðrum orðum gefið góða raun.

 

Bruce hafði aftur á móti meiri áhuga á áhrifum námskeiðsins til langs tíma litið. Myndi nemendum takast að höndla hamingjuna sem þeim nýlega hafði áskotnast? Í því skyni að komast að raun um þetta lagði hann aftur spurningar fyrir þátttakendur sína örfáum árum eftir að námskeiðinu lauk.

 

Úr hópi þeirra þátttakenda sem héldu áfram að gera hamingjuæfingarnar fannst alls 78% námskeiðið enn hafa jákvæð áhrif á vellíðanina. Það sama átti einungis við um 26% þeirra sem ekki höfðu haldið æfingunum áfram.

 

Rannsóknin leiddi með öðrum orðum í ljós að við getum þjálfað upp og viðhaldið eigin hamingju án mikillar fyrirhafnar. Hins vegar er ekki um að ræða æfingu í eitt skipti fyrir öll. Æfingarnar sem orsaka hamingju þurfa nefnilega að vera iðkaðar daglega til þess að við höldum okkur við efnið.

 

Hamingjan lengir lífið

Þjálfun Bruce Hoods í því að öðlast hamingju er svo sannarlega þess virði að temja sér hana. Aukin hamingjutilfinning mun nefnilega ekki einvörðungu bæta andlega heilsu, heldur hefur hún jafnframt áhrif á líkamlega vellíðan.

 

Þessu komst hópur bandarískra vísindamanna að raun um árið 2021 þegar þeir fóru yfir rannsóknir sem gerðar höfðu verið á þessu sviði.

 

Vísindamennirnir benda sérstaklega á nokkrar rannsóknir sem gefa til kynna hvað hamingjuríkt líf felur í sér, m.a. jákvæðar tilfinningar, trausta vináttu og gott félagslegt net en allir þessir þættir draga úr hættunni á ótímabæru andláti. Sumar rannsóknir leiða meira að segja í ljós að hamingjusamt fólk lifi átta til tíu árum lengur og búi yfir betri heilsu en annað fólk.

Hamingja bætir heilsufar gjörvalls líkamans

Hamingja gerir ekki einungis gagn í heilanum. Tilfinningin breiðist út um allan líkamann og hefur vænleg áhrif, bæði á líffærin og ónæmiskerfið sem táknar að líkamleg heilsa batnar.

1. Hjarta og æðakerfi róast

Þegar við finnum fyrir hamingju losna úr læðingi hormónar í líkingu við endorfín og oxýtósín sem hafa róandi áhrif á hjarta- og æðakerfi. Þetta veldur því að blóðþrýstingurinn lækkar, starfsemi hjartans styrkist og hættan á hjarta- og æðasjúkdómum minnkar.

2. Ónæmiskerfið upp á sitt besta

Hamingjutilfinningin veldur aukinni framleiðslu mótefna, auk þess sem virkni T-eitilfrumna og náttúrulegra drápsfrumna eykst. Þetta á þátt í að styrkja ónæmiskerfið og líkaminn verður síður fyrir barðinu á sjúkdómum og sýkingum.

3. Jafnvægi kemst á þarmavirknina

Jákvæðar tilfinningar bæta meltinguna með því að stjórna hreyfingum þarmanna og losun ensíma. Þetta leiðir af sér minni hættu á meltingartruflunum á borð við ristilkrampa, uppþembu, svo og magaverkjum.

Hamingja bætir heilsufar gjörvalls líkamans

Hamingja gerir ekki einungis gagn í heilanum. Tilfinningin breiðist út um allan líkamann og hefur vænleg áhrif, bæði á líffærin og ónæmiskerfið sem táknar að líkamleg heilsa batnar.

1. Hjarta og æðakerfi róast

Þegar við finnum fyrir hamingju losna úr læðingi hormónar í líkingu við endorfín og oxýtósín sem hafa róandi áhrif á hjarta- og æðakerfi. Þetta veldur því að blóðþrýstingurinn lækkar, starfsemi hjartans styrkist og hættan á hjarta- og æðasjúkdómum minnkar.

2. Ónæmiskerfið upp á sitt besta

Hamingjutilfinningin veldur aukinni framleiðslu mótefna, auk þess sem virkni T-eitilfrumna og náttúrulegra drápsfrumna eykst. Þetta á þátt í að styrkja ónæmiskerfið og líkaminn verður síður fyrir barðinu á sjúkdómum og sýkingum.

3. Jafnvægi kemst á þarmavirknina

Jákvæðar tilfinningar bæta meltinguna með því að stjórna hreyfingum þarmanna og losun ensíma. Þetta leiðir af sér minni hættu á meltingartruflunum á borð við ristilkrampa, uppþembu, svo og magaverkjum.

Langlífið er þá sagt stafa af því að hamingjusamt fólk veikist sjaldnar af hjarta- og æðasjúkdómum, vitglöpum og hættulegum sýkingum, auk þess sem líklegra sé að þeir hamingjusömu geti lifað af krabbamein og heilablóðfall.

 

Tengslin á milli hamingju og líkamlegrar heilsu er einkum að finna í framlægum ennisblöðum heilans. Heilastöðvar þessar skipta sköpum fyrir hamingjutilfinninguna og hafa jafnframt áhrif á líkamann með því að stilla framleiðslu boðefna og hormóna sem stjórna ónæmiskerfi líkamans og streitustigi hans.

Hamingjusamt fólk er líklegra til að sigrast á alvarlegum sjúkdómum á borð við krabbamein. Ástæðan kann að vera betra ónæmiskerfi en ella.

Ennisblöðin stjórna að sama skapi meðvituðum gjörðum okkar og fyrir vikið getur hamingjan haft jákvæð áhrif á atferli okkar: „Leitin að hamingju og jákvæðum tilfinningum er okkur hvati og fyrir bragðið innum við meira af hendi og erum betur liðin af öðrum þegar við erum glöð,“ útskýrir Bruce Hood.

 

Með þessu móti tryggir hamingjan að við uppfyllum frekar markmið okkar í lífinu og það fyllir okkur enn meiri hamingju.

 

Hamingjan getur með öðrum orðum verið aflmikill drifkraftur í lífi okkar, jafnframt því sem hún betrumbætir andlega og líkamlega heilsu okkar. Þess vegna er full ástæða til að fylgja ráðleggingum Bruce Hoods og öðlast stjórn á eigin hamingju.

HÖFUNDUR: Gorm Palmgren

© Ken Ikeda Madsen,© Ken Ikeda Madsen / Shutterstock,© Wikipedia,© Shutterstock

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hve lengi lifði hundurinn Laika í geimnum?

Lifandi Saga

Hvenær urðum við pólitískt réttsinnuð? 

Maðurinn

7 mýtur um hæð: „Hávöxnu fólki vegnar betur í lífinu“

Alheimurinn

Hvernig hafa geimför samband við jörðina?

Lifandi Saga

Í fríríkinu Flöskuhálsi var aðaliðja flestra smygl

Heilsa

Vísindamenn: Hægt er að lengja lífið um heilan áratug með breyttu mataræði

Alheimurinn

Pólstjarnan er leiðarvísir á næturhimni

Lifandi Saga

Hvaða harmleikur á íþróttaleikvangi kostaði flest mannslíf?

Maðurinn

Hve langt nær skaðsemi óbeinna reykinga?

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Lifandi Saga

5 ástæður þess að Gandhi var hræsnari

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.