Sólbrún húð er til marks um að líkaminn hafi fengið á sig meiri sól en gerist og gengur og sé að verja sig gegn útfjólubláum geislum sólarinnar.
Líkaminn framleiðir litarefnið melanín sem gleypir útfjólubláu geislana og kemur í veg fyrir að þeir eyðileggi DNA-erfðaefnið og breyti húðfrumum í krabbameinsfrumur.
Þó svo að sólbrún húð sé betur varin en föl húð, melanínsins vegna, þá er brúni liturinn ekki alveg áhættulaus.
Skaðinn er orðinn
Líkaminn eykur nefnilega einungis melanínframleiðsluna sökum þess að árás útfjólubláu geislanna er þegar farin að valda DNA-skemmdum sem hætt er við að þróist í húðkrabbamein.
Melanínframleiðslan örvast m.a. af bólgum og svonefndri oxunarstreitu sem orsakast af skemmdum sem útfjólubláu geislarnir valda. Fyrir bragðið er sólbrún húð til marks um að þegar hafi átt sér stað skemmdir í húðfrumunum.
Umskiptin frá fölri húð yfir í brúna, með hugsanlegum rauðum lit á þeirri leið, er með öðrum orðum tengd tiltekinni hættu á húðkrabbameini.
Auk þess ber að nefna að melanín getur aldrei veitt fullkomna vörn gegn útfjólubláu geislunum.
Sólarvarnarstuðullinn í melaníni er álitinn vera á bilinu 2-4 sem samsvarar því að litarefnið gleypi um 50-75% útfjólubláu geislanna. Til samanburðar má geta þess að margir húðsjúkdómalæknar á okkar breiddargráðum mæla með sólarvarnarstuðlinum 15 hið minnsta sem útilokar 93% útfjólubláu geislanna.