Í nærsýnu auga er of mikil sveigja á hornhimnunni og það er alveg rétt að augnlæknar geta læknað nærsýni með því að brenna ysta lagið í miðri hornhimnunni þannig að hún verði flatari.
Fjarsýni er erfiðari viðfangs, því hornhimnan er of flöt og það þarf sem sagt að veita henni meiri sveigju. Augnlæknar grafa þess vegna eins konar „skurð“ í útjaðar hornhimnunnar og ná þannig tilætluðum áhrifum. En áhrifin ganga oft að nokkru leyti til baka þar eð augað bregst við með því að fylla upp í skurðinn með nýjum frumum og að auki eru takmörk fyrir því hversu djúpt hægt er að grafa í hornhimnuna. Það er því ekki unnt að laga fjarsýni hjá þeim sem þurfa sterkari lesgleraugu en +3 til +4.