Öll stærstu þurrlendissvæðin mynda meginlönd og þegar meginland hefur einu sinni myndast, stækkar það.
Að hluta til bera ár og fljót með sér mikið af leir og möl til sjávar og bæta þannig við landið. En meginlönd stækka líka þegar þau rekast á önnur þurrlendissvæði og sameinast þeim við landrek.
Á jörðinni eru þess vegna tiltölulega fá og stór þurrlendissvæði. Þetta eru meginlöndin sex: Evrasía, Afríka, Norður-Ameríka, Suður-Ameríka, Ástralía og Suðurskautslandið. Annað þurrlendi eru misstórar eyjar sem samanlagt eru aðeins örlítið brot af þurrlendinu.
Árlega rekur meginlöndin örlítið fjær þeim stað þar sem þau voru eitt sinn saman komin sem eitt risavaxið meginland, Pangeu, fyrir um 250 milljónum ára.
Þegar Pangea brotnaði upp, fylgdust Evrópa og Asía að, en Afríka og Indland héldu fyrst í stað sína leið. Fyrir um 45 milljónum ára rakst Indland á Asíu og eftir nokkrar milljónir ára rekst Afríka á Evrópu.
Haldist þessi meginlönd öll saman, munu bæði Norður- og Suður-Ameríka bætast í hópinn síðar, en þessi meginlönd rekur nú í átt að Asíu. Fyrr eða síðar verður því aftur til eitt samvaxið meginland. Slík risameginlönd myndast og sundrast í eins konar hringferli sem tekur nokkur hundruð milljónir ára.
Maðurinn á hins vegar erfitt með að sætta sig við tilviljanir og frá því á miðöldum og fram til loka 18. aldar var almennt álitið að á suðurhveli væri gríðarstórt meginland. Þetta landsvæði nefndu menn Terra Australis Incognita, eða óþekkta landið í suðri. Þetta land var álitið mynda eins konar mótvægi við meginlöndin á norðurhveli.