Börn jafnt sem afkvæmi dýra eru tvíburar þegar þau fæðast tvö í einu.
Eineggja tvíburnar hafa þróast úr sama frjóvgaða egginu, sem þá hefur skipt sér í tvennt mjög snemma. Tvíeggja tvíburar þróast hins vegar úr tveimur frjóvguðum eggjum.
Tvíburafæðingar eru vel þekktar í dýraríkinu, t.d. kemur fyrir að hryssur kasti tveimur folöldum, en þetta eru sjaldnast eineggja tvíburar, þótt það geti komið fyrir.
Svo virðist sem eineggja tvíburar séu algengari meðal manna en flestra annarra tegunda.
Til er þó ein undantekning, svonefnt níu hringja beltadýr (Dasypus novemcintus), sem alltaf eignast eineggja afkvæmi, meira að segja fjögur talsins.
Fjórburar með nákvæmlega sama erfðamassa verða til þannig að hið frjóvgaða egg skiptir sér í tvö, sem hvort um sig skiptir sér svo aftur. Þannig myndast fjórir nákvæmlega eins fósturvísar.
Ástæða þess, að frjóvguð egg taka stundum upp á því að skipta sér, er ekki þekkt.
Hjá beltadýrinu telja menn þó að þessi aðferð hafi þróast til að auka ungafjöldann í móðurlífi sem er svo sérstakt að egg nær aðeins að festa sig á einum tilteknum stað.