Margt fólk hefur á tilfinningunni að smávaxnir hundar séu árásargjarnari en þeir sem stærri eru.
Ný rannsókn á fjölmörgum kynþáttum hunda sýnir nú að nokkuð er til í þessu. Smávaxin og miðlungsstór hundakyn sýna fremur af sér árásargirni. Vísindamenn telja ástæðuna þá að við eigum auðveldara með að umbera og taka á litlum hundum ef þeir sýna tennurnar. Það myndi á hinn bóginn valda miklum erfiðleikum ef frá hundaræktendum kæmu stórvaxnir hundar með ríka árásarhneigð. Sum stórvaxnari hundakyn, t.d. pitbullterrierhundar, sem fyrr á öldum voru ræktuð sérstaklega með hundaat í huga, sýna þó enn talsverða árásarhneigð.
Í rannsókninni reyndust nokkur hundakyn sérlega árásargjörn bæði gagnvart mönnum og öðrum hundum. Þetta voru litlir hundar svo sem greifingjahundar, Jack Russell-terrier og chihuahua. Tvær fyrrnefndu tegundir hafa grimmd sína frá þeim tíma þegar þessir hundar voru notaðir á refaveiðum og áttu óttalaust að elta refinn niður í grenið. Slíkir hundar eru ræktaðir til að hugsa lítt um eigin velferð og gera sér oft óraunhæfar hugmyndir um eigin stærð og styrk.
Nú eru ýmis slík hundakyn vinsælir heimilishundar og ein af ástæðunum er vafalaust sú að skaplyndi þeirra er oft til skemmtunar.