Á Mars eru ekki sams konar segulpólar og hér á jörð. Þar er aðeins mjög veikburða segulsvið og allt öðruvísi upp byggt.
Segulsvið jarðar á upptök sín á miklu dýpi og að því leyti má líkja iðrum hnattarins við rafal. Þetta er tvípólasvið, sem sagt segulsvið þar sem báðir pólarnir eru skýrt afmarkaðir.
Mögulegt er að endur fyrir löngu hafi sams konar segulsvið ríkt á Mars, en „rafallinn“ í Mars hefur þó ekki virkað nema meðan reikistjarnan var mjög ung og ekki síðustu ármilljarðana.
Mars er lítill hnöttur og hefur því kólnað mun hraðar en jörðin. Þetta þýðir þó ekki að öll ummerki fyrrum segulsviðs séu horfin.
Klappir sem mynduðust meðan segulsviðið var enn við lýði urðu nefnilega örlítið segulmagnaðar. Það segulsvið sem þessar klappir mynda nú er hins vegar svo veikt að segulsvið jarðar er 3.000 sinnum öflugra. Það er því erfitt að mæla segulsvið á Mars.
Það segulsvið sem berg á Mars myndar er ekki einfalt tvípólasvið, heldur afar óreglubundið. Úr geimförum á lágri braut um Mars hefur reynst gerlegt að kortleggja dreifingu segulmagnaðra klappa og niðurstöðurnar eru nokkuð merkilegar.
Segulmagnaðar klappir er sem sé nánast einvörðungu að finna á suðurhvelinu en nær engar slíkar klappir eru á norðurhveli og þar er því eiginlega alls ekkert segulsvið.