Hamingjan stafar af samspili nokkurra mismunandi stöðva heilans. Og vísindamenn hafa nú uppgötvað fjölda aðferða sem virkja nákvæmlega réttu heilastöðvarnar.
Vísindarannsóknir sýna að aðferðirnar geta leitt til verulegra umbóta á andlegri líðan á stuttum tíma. Og þessi aukna hamingjutilfinning mun endast ef þessar tæknir verða að reglulegum hluta hins daglega lífs.
Við höfum safnað saman fimm áhrifaríkustu aðferðum fræðimannanna svo þú getur á skjótan og auðveldan hátt aukið hamingjuna.
Samanburður
Samanburður við venjulegt fólk
Áhrif: Raunsannur samanburður eykur sjálfsvirðinguna
Hvers vegna?
Þegar við fylgjum þekktum einstaklingum, áhrifavöldum eða jafnvel bara vinum okkar á samfélagsmiðlum virðast þeir hinir sömu oft á tíðum vera hamingjusamari og fullkomnari en við sjálf. Þeir eru fallegri, lifa áhugaverðara lífi og hafa betri stjórn á daglegu lífi. Líf þeirra virðist vera dans á rósum og rannsókn ein sýnir að fyrir vikið finnst okkur við oft vera misheppnuð ef við berum okkur saman við þau. Tilfinningin skaðar sjálfsmynd okkar og veldur djúpstæðri óánægju sem getur komið í veg fyrir að við höndlum hamingjuna.
Hvernig?
Mýmargar sálfræðitilraunir hafa leitt í ljós að sjálfsmat okkar eykst ef við hættum að bera okkur saman við þá sem í fljótu bragði virðast vera fullkomnir og förum þess í stað að máta okkur við venjulegra fólk. Hættum því að einblína á ofurfyrirsætur og förum þess í stað að virða fyrir okkur ofurvenjulega gesti sundlauganna. Þá gefur einnig góða raun að minna sig á að sumir eiga við langtum fleiri vandamál að etja en við sjálf. Slíkar hugsanir geta gert okkur þakklátari fyrir það sem við höfum í lífinu.
Samvera
Traust tengsl við annað fólk
Áhrif: Félagsleg tengsl gleðja
Hvers vegna?
Maðurinn býr yfir eðlilegri þörf fyrir að finna fyrir tengslum við aðra. Sú tilfinning að tilheyra einhvers staðar styrkir sjálfsmatið og eykur ánægjuna með lífið, auk þess sem traust félagsleg tengsl styrkja tengslanetið og færa okkur öryggistilfinningu. Tilraunir hafa leitt í ljós að traust tengslanet styrkir andlegt heilbrigði og að félagsleg einangrun hefur neikvæð áhrif. Aðrar tilraunir gefa jafnframt til kynna að hamingja getur smitast þannig að við verðum 25% hamingjusamari en ella ef einn okkar nánustu er hamingjusamur.
Hvernig?
Við getum styrkt félagsleg tengsl okkar með því að sjá af tíma til að umgangast okkar nánustu, t.d. með því að skipuleggja að borða með fjölskyldunni um helgar eða að fara í kaffi með vinafólki einu sinni í viku. Þá er jafnframt hægt að senda skilaboð til vina eða hringja til þeirra sem við höfum ekki heyrt í lengi. En í raun réttri hafa tilraunir leitt í ljós að það sem gleður okkur mest og gerir okkur ánægðust er að spjalla við ókunnuga, t.d. í strætó eða á förnum vegi. Sömu sögu er svo að segja um þá sem við röbbum við.
Þakkið fyrir vini ykkar því án þeirra eykst hættan á ótímabæru andláti. Þakkið jafnframt fyrir nef ykkar því það er sennilega nefið sem hefur hjálpað ykkur að þefa uppi bestu vinina.
Bjartsýni
Björtu hliðarnar
Áhrif: Jákvæðar hugsanir bægja burt þeim neikvæðu
Hvers vegna?
Heilinn er í eðli sínu svartsýnn og okkur hættir til að festa okkur við allt hið neikvæða umfram það jákvæða. Slæm lífsreynsla hefur meiri áhrif á skapferlið en sú góða og við munum frekar eftir öllu því óþægilega en því þægilega. Rannsóknir hafa leitt í ljós að með því að bægja burt neikvæðum hugsunum og leiða hugann að öllu því góða sem lífið hefur upp á að bjóða getum við fyllt hugann af jákvæðum hugsunum, bjartsýni, von og gleði. Þannig aukast forsendurnar fyrir hamingju í lífinu.
Hvernig?
Jákvæð sálfræði einblínir á að auka sjálfsmatið og bæta lífsgæðin með því að leggja áherslu á jákvæðar tilfinningar, styrkleika og dyggðir og sannað hefur verið með vísindalegum hætti að þetta hrífur. Við getum t.d. æft okkur í að ögra neikvæðum hugsunum og láta uppbyggjandi hugsanir sem einkennast af bjartsýni leysa þær af hólmi. Þar að auki ættum við að leiða hugann daglega að öllu því góða sem við erum þakklát fyrir í lífinu og að gæta þess að setja okkur raunhæf markmið en þannig má forðast skipbrot ef ekki tekst að uppfylla markmiðin.
Gjafmildi
Öðrum leyft að njóta gæðanna
Áhrif: Aðstoð við aðra gleður
Hvers vegna?
Þegar við hjálpum öðrum og finnum fyrir þakklæti þeirra virkjast umbunarstöðvar heilans sem virkja framleiðslu boðefna á borð við oxýtósín, serótónín og dópamín. Þetta leiðir til þess að við finnum fyrir hamingjutilfinningu og verðum sátt. Örlæti og hjálpsemi leiðir jafnframt af sér virðingu og viðurkenningu annarra sem getur styrkt sjálfsvitund okkar. Sjálfstraustið eykst að sama skapi vegna vitneskjunnar um að við höfum haft jákvæð áhrif á líf annarra.
Hvers vegna?
Rannsóknir hafa leitt í ljós að sjálfboðastörf, þar sem viðkvæmum hópum í þjóðfélaginu er t.d. veitt aðstoð, hafa gífurlega jákvæð áhrif á andlegt og líkamlegt heilbrigði. Litlir hlutir í daglegu lífi geta jafnframt haft jákvæð áhrif á líðan okkar, svo sem eins og að halda hurðinni fyrir næsta mann, hrósa öðrum eða að aðstoða vinnufélaga. Þá getur það einnig haft jákvæð sálfræðileg áhrif, bæði á okkur sjálf og viðmælendur okkar, að kunna að hlusta á aðra.
Hreyfing
Líkamsrækt stunduð
Áhrif: Líkamsrækt styrkir okkur líkamlega og andlega
Hvers vegna?
Mýmargar vísindalegar rannsóknir hafa leitt í ljós að líkamshreyfing hefur vænleg áhrif á andlega líðan okkar. Líkamsrækt örvar framleiðslu heilans á svonefndum endorfínum sem valdið geta vellíðan og sælutilfinningu, auk þess að minnka framleiðslu streituhormóna sem dregur úr kvíða og streitu. Líkamsræktin á enn fremur þátt í að bægja burt neikvæðum hugsunum og þegar æfingunum lýkur er líklegt að sjálfstraustið aukist.
Hvernig?
Þeim sem ekki eru vanir að stunda líkamsrækt er ráðlegt að byrja hægt og rólega og bæta smám saman við. Líkamsræktin má ekki verða leiðinleg skylda og því er ráðlegt að láta áhugann ráða för með því að leggja stund á hreyfingu sem færir okkur ánægju og okkur finnst skemmtilegt að iðka. Höfum í huga að jafnvel stuttar gönguferðir geta haft jákvæð áhrif á andlega líðan okkar. Mikilvægt er að hreyfa sig minnst þrisvar til fjórum sinnum í viku til að öðlast sem best áhrif á heilsuna og því er ráðlegt að gera hreyfingu að hluta af daglegum vanaverkum.
Við höfum rætt við hamingjufræðinginn Bruce Hood um vísindin að baki þessari upplyftandi tilfinningu og sótt til hans mikilvægar ráðleggingar fyrir þá sem óska eftir að lifa hamingjuríkara lífi.