Þú hefur kannski tekið eftir því að það getur verið nánast ógerlegt að stilla sig um að grípa í ákveðnar fæðutegundir, jafnvel þótt þér sé ljóst að þær séu ekkert sérlega hollar.
Nú hafa vísindamenn hjá Max Planck-stofnuninni í Þýskalandi og Yaleháskóla í BNA unnið rannsókn sem fólst í mælingum heilavirkni þátttakenda í tilraun sem stóð í átta vikur.
Niðurstöðurnar sýndu að jafnvel lítill en daglegur skammtur tiltekinna fæðutegunda getur valdið breytingum á taugatengingum í heila og valdið því að fólk fær ósjálfráða löngun til að velja sömu fæðu aftur seinna.
Vísindamennirnir höfðu velt vöngum yfir ástæðum þess að fólk virðist almennt hafa tilhneigingu til að borða óhollan og fitandi mat og vildu vita hvernig þessi tilhneiging skapist í heilanum.
Sjálfir höfðu vísindamennirnir gert ráð fyrir að löngun heilans í sykur og fitu þróist smám saman. Því var safnað saman hópi tilraunaþátttakenda og þeim gefinn í átta vikur daglegur skammtur af búðingi sem var troðfullur af sykri og fitu. Samanburðarhópur fékk líka búðing með sama kaloríuinnihaldi en með minni fitu.
Heilavirkni allra þátttakenda var mæld og skoðuð sérstaklega, bæði fyrir og eftir þetta átta vikna tímabil.
Mælingarnar sýndu að viðbrögð heilans við sykri og fitu í fæðunni voru mun meiri hjá hópnum sem fengu mikinn sykur og mikla fitu í búðingnum og breytingarnar urðu í því tauganeti sem tengir svokallaðar verðlaunastöðvar heilans, þar sem boðefnið dópamín gegnir lykilhlutverki.
Sykur skýtur hamingjutilfinningu út í frumurnar
Rétt eins og t.d. kókaín, losar sykur dópamín sem verðlaunar frumurnar en áhrif sykursins eru langt frá því jafn yfirþyrmandi og það tryggir að dópamínið nái aftur eðlilegu jafnvægi.
1. Þrjár heilastöðvar starfa
Dópamínkerfi í miðrandkerfi heilans sér til þess að kynlíf, fæða og félagsleg samskipti skapi hamingjutilfinningu. Kerfið byggir einkum á heilastöðvum í VTA (Ventral tegmental area), nucleus accumbens og ennisblöðunum.
2. Matur losar dópamín
Át veldur losun dópamíns í VTA og hamingjuboð berast áfram um kerfið. Þegar við hættum að borða færist mikið dópamín aftur til baka.
3. Kókaín lokar leiðum
Kókaín lokar leiðum á taugamótum þannig að dópamínið kemst ekki til baka. Þéttni dópamíns verður því mjög mikil og leiðir til ákafrar vímu- og sælutilfinningar.
„Mælingar okkar á heilavirkni sýndu að heilinn endurforritar sig sjálfur þannig að löngun fólks í aukabita með sykri og fitu eykst,“ segir stjórnandi rannsóknarinnar, Marc Tittgemeyer við Lifandi vísindi.
Og í fréttatilkynningu bætir hann við: „Heilinn lærir ómeðvitað að velja heldur þá fæðu sem skapar verðlaunatilfinninguna.“
Þegar vísindamennirnir báru saman hópana tvo, var hvorki að sjá mismun á þyngd þátttakenda né á sykurmagni og kólesteróli í blóði eftir þessar átta vikur.
En vísindamennirnir gera ráð fyrir að þær breytingar sem verða í heilanum haldi sér áfram.
„Það myndast nýjar taugatengingar í heilanum og þær rofna ekki svo auðveldlega. Þetta sannast t.d. á lærdómi. Þegar við höfum á annað borð lært eitthvað, þá gleymist það ekki í fljótheitum,“ útskýrir Marc Tittgemeyer.
Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í vísindatímaritinu Cell Metabolism.