Stærðfræði
Allir sem ferðast hafa með farþegaþotum þekkja þann vanda sem skapast þegar farþegar koma um borð. Gangurinn stíflast þegar fólk er að koma handtöskum fyrir í farangurshólfum og það getur oft tekið langan tíma. Þennan vanda hefur pirraður geimvísindamaður nú leyst.
Orðinn hundleiður á biðinni ákvað Jason Steffen hjá Fermilab í Illinois að nota svokallaðan Monte Carlo-algóritma til að finna fljótlegustu leiðina til að raða farþegum um borð. Algóritminn er annars notaður til að greina hvernig frumeindir og sameindir raða sér.
Niðurstaðan kom á óvart. Sú aðferð sem oftast er notuð og byggist á því að farþegar raði sér í sætin aftan frá, er sú sem tekur næstmestan tíma. Enn lengri tíma tekur það þegar farþegarnir í fremstu sætunum fara fyrstir inn.
Útreikningar Steffens sýndu að besta útkoman næst þegar sem allra flestir farþegar hafa tóma sætaröð á milli sín og þeirra sem fóru um borð næst á undan eða eftir. Þannig hafa allir tóm til að koma farangri sínum fyrir án þess að loka ganginum fyrir öðrum.
Allra fljótlegasta aðferðin byggist á því að hver farþegi fái ákveðið biðraðarnúmer, en með þeirri aðferð mætti koma 240 farþegum í sæti sín á sjöföldum hraða.